Una í Sjólyst, völva Suðurnesja.

Margir landsþekktir einstaklingar hafa lifað og starfað í Garði gegnum tíðina.  Um suma þeirra hefur verið fjallað í ýmsum miðlum, svo sem  í dagblöðum og ljósvakamiðlum, en um suma hafa verið ritaðar bækur.  Árið 1969 kom út bókin Völva Suðurnesja, sem Gunnar M Magnúss skráði.  Í bókinni er fjallað um Unu Guðmundsdóttur, sem kennd er við húsið Sjólyst sem hún bjó lengst í.  Húsið Sjólyst er nú í eigu sveitarfélagsins og í því er haldið til haga munum frá Unu og saga hennar varðveitt.  Húsið Sjólyst er oft nefnt Unuhús.

Una Guðmundsdóttir fæddist í Skúlahúsum í Garði í nóvember 1894.  Una ólst upp og var heimilisföst í Garði alla sína ævi.  Hún var vel gefin, var búin miklum námsgáfum og hafði snemma sérstæða hæfileika á hinu dulrænu sviði.  Hún þótti vel gerður einstaklingur, hafði þá hæfileika að vekja hlýleika og trúnað, á unga aldri vann hún traust allra íbúa í Garði og það hélst allt hennar líf.  Una byrjaði aðeins 16 ára að kenna börnum og hún stundaði kennslu í mörg ár.  Una starfaði ötullega að félagsmálum í Garði, var m.a. lengi gæslumaður ungtemplarastúkunnar og tók virkan þátt í störfum slysavarnafélagsins í Garði alla tíð.  Þess má geta að slysavarnadeild kvenna í Garði heitir í höfuðið á Unu.  Þá var Hún lengi bókavörður við bókasafnið í Garði.

Auk þess að stunda atvinnu og félagsstörf, tók Una á móti mörgum sem sóttu til hennar vegna hennar dulrænu hæfileika.  Fólk leitaði til hennar um andlegan stuðning og hjálp í margskonar erfiðleikum.  Í bókinni Valva Suðurnesja er fjallað um fjölmörg atvik og dæmi um störf Unu í þeim efnum og varð hún mjög þekkt af.

Það er ástæða til þess að hvetja sem flesta til þess að heimsækja húsið Sjólyst og kynna sér sögu Unu í Garði, líf hennar og störf.  Hollvinafélag Unu í Sjólyst hefur haldið utan um þá starfsemi sem fram fer í Sjólyst.  Það er göfugt og mikilvægt að halda nafni Unu Guðmundsdóttur á lofti og varðaveita söguna um þessa merkilegu konu.

Á heimasíðunni svgardur.is er umfjöllun um Unu, í kaflanum Garður – Þekktir Garðmenn.

 

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst
Facebooktwittergoogle_plusmail