9. vika 2015.

Í lok hverrar vikur er ekki úr vegi að líta yfir vikuna og rifja upp það helsta.  Þessi vika, sem og margar síðustu vikur, hefur einkennst af leiðindum hjá veðurguðunum.  Endalaus röð af vindasömum dögum þar sem blásið hefur nánast úr öllum áttum, snjókoma og rigning á víxl.  Það er athyglisvert að leiðinda veður yfir vetrartímann virðast jafnan koma mörgum á óvart, við erum ótrúlega fljót að gleyma ef koma örfáir góðir veðurdagar !  Við búum jú á eyju í miðju Atlandshafinu norðanverðu og þess vegna ætti í raun ekki að koma á óvart hvernig veðurguðirnir láta við okkur.  En, dagarnir lengjast hver af öðrum og áður en varir heilsar vorið og vonandi gott sumar í kjölfarið.

Það hefur verið mikil þátttaka í líkamsræktinni í nýju og glæsilegu aðstöðunni í Íþrótamiðstöðinni í Garði.  Suma daga mæta allt að 100 manns í ræktina, sem hlýtur að teljast gott í ekki stærra sveitarfélagi.  Það verður ánægjulegt fyrir marga að upplifa árangurinn þegar sumarið heilsar.  Bæjarstjórinn í Garði er einn af þeim og nú er að hafa úthaldið og eljuna til að stunda ræktina reglulega.  Þessi glæsilega aðstaða er liður í því að auka lífsgæði íbúanna.

En, það er ekki bara mikil gróska í líkamsræktinni, Íþróttamiðstöðin iðar af lífi alla daga.  Fyrir utan íþróttatíma skólabarnanna og fastar æfingar í knattleikjum, þá hafa áhugasamir foreldrar sett af stað fimleikaæfingar fyrir yngstu börnin, með góðri þátttöku.  Þá er líka hafin danskennsla fyrir yngri börnin, en við búum svo vel að í Garðinum býr Bryndís Einarsdóttir sem rekur Brynballet og hún sér um danskennsluna.  Þá er góð þátttaka í Tae kwan do æfingum.   Það er ánægjulegt hve mikill kraftur er í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börnin í Garði.

Bæjarráðið Garðs fundaði í vikunni.  Þar var m.a. fjallað um drög að samningi um næstu listahátíð Ferskra vinda, sem verður frá miðjum desember fram í febrúar 2016.  Ferskir vindar er athyglisverð listahátíð sem hefur víða vakið verðskuldaða athygli og setur alltaf skemmtilegan svip á bæjarlífið. Þá var samþykkt á fundinum að veita 8. bekk Gerðaskóla styrk til heimsóknar til jafnaldra þeirra í vinabæ Garðsins, Nybro í Svíþjóð.  Sænsku börnin komu í heimsókn í Garðinn í júní 2014, 8. bekkur mun endurgjalda heimsóknina í júní í sumar og viðhalda tengslum við vinabæinn okkar í Svíþjóð.

Isavia kynnti verðlaunatillögu um uppbyggingar-og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar.  Gríðarleg aukning hefur verið í komu farþega á flugvöllinn allra síðustu árin.  Isavia hefur vart haft við að stækka og breyta flugstöðinni og annari flugtengdri aðstöðu.  Nú er horft 25 ár fram í tímann með það að markmiði að mæta þeirri miklu umferð farþega um flugvöllinn sem áætluð er.  Það kom fram við kynningu á verðlaunatillögunni að um 1.300 manns vinni störf sem tengjast fluginu á Keflavíkurflugvelli.  Fjöldi þeirra mun aukast enn frekar á næstu árum.

Vonandi verður helgin öllum ánægjuleg, við horfum með mikilli eftirvæntingu til vorsins með þá von í brjósti að fljótlega dragi úr hamagangi veðurguðanna.

Fimleikar í Garði
Fimleikar í Garði

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail