28. vika 2016.

Molar eru komnir úr sumarleyfi og verður þráðurinn tekinn upp aftur. Mikið hefur verið um að vera í Garði síðustu vikurnar og svo verður áfram.

Sólseturshátíð.

Bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin var síðustu helgina í júní. Dagskrá hátíðarinnar náði yfir heila viku og náði hápunkti laugardaginn 25. júní. Góð þátttaka var í hátíðinni og tókst að vanda vel til við framkvæmd og þátttöku almennt. Garðbúar komu víða fram á ýmsum vettvangi hátíðarinnar, fluttu tónlist, hlupu víðavangshlaup o.m.fl. Svona hátíð er mikilvæg fyrir samfélagið og er öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum þakkað þeirra framlag.

Ungir og efnilegir rokkarar stigu á stokk á Sólseturshátíð.
Ungir og efnilegir rokkarar stigu á stokk á Sólseturshátíð.

Sumarhátíð leikskólans.

Fyrr í sumar var sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Að vanda var mikið um dýrðir með alls kyns uppákomum. Sumarhátíðin er alltaf skemmtileg og gaman að fylgjast með leikskólabörnunum sem hafa mikla ánægju af hátíðarhöldunum.

20160607_141701 20160607_141713

Garðskagi.

Unnið hefur verið að ýmsum breytingum á Garðskaga í vor og sumar. Nú hefur lítið kaffihús opnað í gamla vitanum, framkvæmdum í safnhúsi byggðasafnsins er að mestu lokið í bili. Byggðasafnið hefur verið opnað aftur og er nú opið alla daga milli kl. 13:00 og 17:00 og starfsemi veitingahússins á efri hæðinni mun hefjast á næstu dögum.

Vertarnir í kaffihúsinu Flösinni í gamla vitanum.
Vertarnir í kaffihúsinu Flösinni í gamla vitanum.

Hótelbygging.

Í sumar hefur verið unnið að byggingu hótels í Útgarði, það er fyrirtækið GSE ehf. sem stendur fyrir þeim framkvæmdum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með framkvæmdunum, allt í einu er húsið risið og áður en varir verður starfsemin hafin. Það er alltaf ánægjulegt þegar slíkar framkvæmdir eiga sér stað.

Allar sperrur komnar 5. júlí, fáninn blaktir af því tilefni.
Allar sperrur komnar 5. júlí, fáninn blaktir af því tilefni.

Sumarstörfin.

Mikið hefur verið um að vera hjá sumarstarfsfólki sveitarfélagsins. Byggðarlagið er mjög snyrtilegt, enda standa hendur fram úr ermum hjá okkar dugmikla starfsfólki. Ýmsar framkvæmdir hafa verið í gangi á vegum sveitarfélagsins og svo verður fram eftir árinu.

Hér eru nokkrar myndir af lífsglöðum ungmennum í sumarstörfum hjá sveitarfélaginu í sumar.

20160603_084055

Sumarstarfsfólk.

IMG_0732

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði.  Þar voru að vanda ýmis mál á dagskrá, m.a. fundargerðir nefnda og stjórna. Þar sem bæjarstjórn er í sumarleyfi frá reglulegum fundum, þá hefur bæjarráð umboð til fullnaðarafgreiðslu mála þar til bæjarstjórn tekur aftur upp þráðinn í fundahöldum í byrjun september.

Suðurnesjadagur vinnuskólanna.

Ungmenni í vinnuskólum sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar, Voga og Grindavíkurbæjar hittust í Garðinum í gær, fimmtudag. Svona hittingur hefur verið undanfarin ár, þar sem krakkarnir hittast og fara í ýmsa leiki og skemmta sér saman. Þá voru fyrirlestrara um málefni sem brenna á ungmennum.  Alls voru um 160 ungmenni saman komin í Garðinum og tókst þessi samvera þeirra mjög vel. Nokkur ungmenni skelltu sér í sjósund á Garðskaga, það er víst hressandi og gott !

IMG_1149 IMG_1139

Fjölgun íbúa í Garði.

Í molum 22. viku þann 3. júní sl. kom fram að íbúar samkvæmt bráðabirgðatölum þann 1. júní hafi verið 1.443 talsins, en þann 1. desember voru íbúar alls 1.425 samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár. Sl. mánudag þann 11. júlí sýndu bráðabirgðatölur að íbúar eru alls 1.477.  Þar með hefur íbúum fjölgað um 52 frá 1. desember sl., eða um 3,6%. Þetta er ánægjuleg þróun.

Víðir á sigurbraut.

Vel hefur gengið hjá knattspyrnuliði Víðis í sumar. Liðið hefur unnið alla leiki sína utan einn og er í öðru sæti 3. deildar.  Ef þessi velgengni heldur áfram mun Víðir vinna sér sæti í 2. deild að ári og þar með munu liðsmenn færa félaginu það að gjöf á þessu afmælisári félagsins. Þá gekk vel í bikarkeppninni, en Víðir féll úr leik í 16 liða úrslitum. Næsti leikur Víðis verður á morgun, laugardag á Nesfiskvellinum í Garði kl. 16:00.  Áfram Víðir !

Víðismenn hafa oft fagnað vel í sumar.
Víðismenn hafa oft fagnað vel í sumar.

 

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail