21. vika 2016.

Árlegur fundur bæjar-og sveitarstjóra.

Í lok síðustu viku hittust bæjar-og sveitarstjórar víðs vegar að af landinu á árlegum fundi á Vestfjörðum.  Nánar tiltekið í Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík. Svona fundir eru mikilvægir, þar sem kollegarnir fara sameiginlega yfir ýmis mál og skiptast á upplýsingum um mál sem varða starfsemi sveitarfélaganna. Þá er ekki síður gefandi að kynnast betur þeim sveitarfélögum sem eru gestgjafar hverju sinni, gestgjafarnir fyrir vestan tóku vel á móti sínum gestum og var dvölin þar ánægjuleg og góð.

Bæjar-og sveitarstjórar í Ísafjarðarkirkju.
Bæjar-og sveitarstjórar í Ísafjarðarkirkju.

Umhverfisvika í Garði.

Í gær, fimmtudag hófst umhverfisvika í Garðinum. Íbúar og atvinnufyrirtæki eru hvött til tiltekta og snyrtingar á umhverfi sínu. Sveitarfélagið veitir móttöku á alls kyns úrgangi sem síðan fer til sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku. Að þessu sinni er bryddað upp á þeirri nýjung að sveitarfélagið í samvinnu við Garðyrkjufélag Íslands hélt í gær fræðslufund í Gerðaskóla í tilefni umhverfisvikunnar. Þar fór m.a. fram fræðsla í máli og myndum um umhirðu lóða og garða. Fundurinn var ágætlega sóttur, garðbúar eru áhugasamir um að umhverfi sveitarfélagsins sé snyrtilegt og vel hirt, enda ber bærinn þess merki sem er ánægjulegt. Frekari upplýsingar um umhverfisvikuna í Garði er á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is.

Nú verða fingur grænir í Garði.
Nú verða fingur grænir í Garði.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Á dagskrá var m.a. fundargerð Öldungaráðs Suðurnesja, af fundi ráðsins með alþingismönnum þar sem fjallað var um vöntun á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á Suðurnesjum, sem og um önnur hagsmunamál aldraðra. Bæjarráð samþykkti samstarfsyfirlýsingu sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar um skipulag, þróun og uppbyggingu atvinnusvæðis norðan flugstöðvar á Miðnesheiði. Framundan er mikið og mikilvægt starf um uppbyggingu þessa svæðis, sem verður líklega eitt mikilvægasta atvinnusvæði landsins. Þá voru samþykktir tveir viðaukar við fjárhagsáætlun ársins, vegna aukinna útgjalda í tengslum við kjarasamninga. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti kauptilboð í tvær íbúðir í eigu sveitarfélagsins.

Sigurganga Víðis.

Knattspyrnulið Víðis hefur farið vel af stað nú í upphafi leiktíðar. Liðið hefur unnið báða leiki sína í 3. deild og í vikunni sigraði Víðir lið Sindra frá Hornafirði í 32 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ. Það er ekki laust við að gamlir glampar hafi tekið sig upp í augum gamalla Víðismanna við sigurinn í bikarkeppninni, enda á Víðir glæsilegan kafla í sögu bikarkeppninnar. Nú bíða menn spenntir eftir því að dregið verði um mótherja í 16 liða úrslitum. Lið Víðis hefur litið vel út í síðustu leikjum og hefur alla burði til að gera góða hluti í sumar.  Næsti leikur Víðis í 3. deild verður á laugardag, heimaleikur gegn KFR á Nesfiskvellinum í Garði.  Áfram Víðir !

Sigurreifir Víðismenn.
Sigurreifir Víðismenn.

Uppskeruhátíð starfsfólks Íþróttamiðstöðvar.

Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar hefur í vetur tekið þátt í fræðslu-og þjálfunarverkefni, sem er sérstaklega hannað fyrir starfsfólk sundlauga og íþróttamannvirkja. Áhersla er á verkferla, öryggismál, samskipti, þjónustu og gæði og í gær hélt starfsfólkið uppskeruhátíð við lok verkefnisins. Það er mikilvægt að starfsfólk íþróttamiðstöðva búi að þeirri þekkingu og þjálfun sem verkefnið stuðlar að, enda hefur starfsfólkið í Íþróttamiðstöðinni í Garði mikinn metnað til að  þessir hlutir allir séu í sem besta lagi. Til hamingju með þetta ágæta starfsfólk.

Heimsókn forsetaframbjóðanda.

Í vikunni leit Guðni Th Jóhannesson forsetaframbjóðandi við á bæjarskrifstofunni. Hann hefur verið á ferð um Suðurnesin síðustu daga og heimsótt vinnustaði. Það er alltaf ánægjulegt að fá frambjóðendur í heimsókn og fá tækifæri til að kynnast þeim og fá þeirra sýn á þau verkefni sem þeir sækjast eftir.

Veðrið.

Eftir norðlægar áttir, með frekar lágu hitastigi, snerist í suðlægar áttir í byrjun vikunnar. Nokkur vindur hefur fylgt, rigning og lágt hitastig. Spár gera ráð fyrir að þannig veður verði fram yfir komandi helgi. Þá verður komið fram í júní mánuð og við hljótum að gera ráð fyrir að við förum að njóta hlýrra veðurfars með tilheyrandi sumarblíðum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail