19. vika 2016.

Frábær sýning í Gerðaskóla.

Eins og fram kom í síðustu vikumolum, þá sýndu nemendur elstu bekkja Gerðaskóla söngleikin Hairspray sl. föstudagskvöld. Sýningin og framkoma nemendanna var frábær, gaman að sjá hve börnin eru efnileg og lifðu sig inn í sín hlutverk. Flottir söngvarar og vel útfærð dansatriði, ásamt staðfærðum textum gerðu sýninguna góða. Til hamingju með flott Hairspray nemendur Gerðaskóli.

Vegna fjölda áskorana var ákveðið að halda aukasýningu í kvöld, föstudag. Sýningin hefst kl. 20 í Gerðaskóla, undirritaður hvetur alla þá sem misstu af fyrri sýningunni að fjölmenna og njóta.

Myndirnar hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson af sýningunni Hairspray:

Hairspray3

Hairspray1

Hairspray4

Afmælishátíð Víðis.

Knattspyrnufélagið Víðir er 80 ára um þessar mundir. Sl. laugardag bauð Víðir til afmælishátíðar í íþróttahúsinu og mætti fjölmenni. Magnús Þórisson hjá Rétti og fyrrverandi knattspyrnudómari reiddi fram dýrindis mat, sem fór vel í alla. Á hátíðinn fór mest fyrir „gullaldarliði“ Víðis, flestir leikmenn sem sáu til að Víðir gerði garðinn frægan á 9. áratug síðustu aldar mættu og var mikill fagnaðarfundur meðal þeirra. Þá var „gullaldarlið“ kvenna mætt, en þær fræknu konur skipuðu lið Víðis á sínum tíma, sem gerði líka garðinn frægan. Veittar voru heiðursviðurkenningar og voru félaginu færðar gjafir. Að því loknu var skemmtidagskrá og dansiball fram eftir nóttu. Afmælishátíðin var mjög vel heppnuð, mikil og góð stemmning og greinilegt að víðishjarta slær taktfast í brjóstum margra. Stjórn og afmælisnefnd Víðis fær þakkir fyrir vel skipulagt og heppnað afmælishald, en margt verður um að vera á þessu afmælisári Víðis til að fagna þessum aldursáfanga félagsins. Nú er að bíða og sjá hvernig knattspyrnuliði meistaraflokks gengur í 3. deildinni í sumar, vonandi að þeir færi félaginu stóra afmælisgjöf með því að vinna sér sæti í 2. deild í haust.

Gullý formaður Víðis.
Gullý formaður Víðis.
Gullaldarleikmenn og forráðamenn Víðis.
Gullaldarleikmenn og forráðamenn Víðis.

Vortónleikar Tónlistarskólans.

Í gær, fimmtudag voru fyrri vortónleikar nemenda Tónlistarskólans haldnir í Útskálakirkju, að viðstöddu fjölmenni. Afar ánægjulegt er hve mikið líf er í starfsemi Tónlistarskólans, tónlistarflutningur nemendanna ber þess gott vitni. Síðari vortónleikarnir og skólaslit verða í Gerðaskóla fimmtudaginn 19. maí kl. 17:30. Nemendur tónlistarskólans koma fram við hin ýmsu tækifæri í Garðinum og er áberandi hve mikil „leikgleði“ skín af nemendunum í hvert skipti sem þeir koma fram. Hamingjuóskir til Tónlistarskóla Garðs og nemendanna fyrir frábæra starfsemi og árangur.

Bæjarráð í vikunni.

Fundur var í bæjarráði í gær, fimmtudag. Þar var fjallað um tvö erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, um uppbyggingu ferðamannastaða og um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits. Þá kom fram að sveitarfélagið fær greiddar tæplega 2 milljónir króna í arð frá Lánasjóði sveitarfélaga og þá var lagt fram árshlutauppgjör fyrir fyrstu 3 mánuði ársins, sem er ágætlega í takti við fjárhagsáætlun.

Ársfundur Brunavarna Suðurnesja.

Í vikunni var fyrsti ársfundur Brunavarna Suðurnesja bs, en frá og með 1. janúar 2015 voru brunavarnir reknar í formi byggðasamlags. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum utan Grindavíkurbæjar standa að byggðasamlaginu. Rekstur og starfsemi þetta fyrsta ár byggðasamlagsins gekk vel og er augljóst að við búum vel að öflugu og góðu slökkviliði, sem er eitt af fáum atvinnumanna slökkviliðum á landinu. Það er mikið öryggi sem felst í því fyrir íbúana og atvinnufyrirtæki á Suðurnesjum.

Samningar sveitarfélaganna fjögurra um stofnun byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja voru undirritaðir af forsetum bæjarstjórna Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga og formanni bæjarráðs Reykjanesbæjar í maí 2015. Við það tækifæri var myndin hér að neðan tekin.

Fulltrúar sveitarfélaganna bindast höndum um stofnun BS bs.
Fulltrúar sveitarfélaganna bindast höndum um stofnun BS bs.

Sumarstörfin að hefjast.

Nú styttist óðum í að hefðbundin sumarstörf hefjist hjá sveitarfélaginu. Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi er klár með skipulag vinnuskólans og bíður bara eftir að börn og unglingar hefji störf hjá sveitarfélaginu. Mikið framundan í Garðinum í sumar.

Víðir í bikarnum.

Víðir vann góðan 4-1 sigur í bikarkeppni KSÍ í vikunni. Leikurinn fór fram þann 11. maí, sem er hinn formlegi stofndagur Knattspyrnufélagsins Víðis. Af því tilefni bauð félagið upp á afmælistertu í hálfleik og sá Gullý formaður um að skera tertuna. Myndin hér að neðan var tekin af því tilefni.

Gullý sker afmælistertuna.
Gullý sker afmælistertuna.

Mikil umferð á Garðskaga.

Garðskagi heillar marga og laðar að sér. Nú í vor hefur verið mikil umferð á Garðskaga, bæði eru það erlendir ferðamenn á bílaleigubílum og svo Garðbúar og gestir sem sækja Garðskagann heim. Enn er unnið að ýmsum framkvæmdum sem miða að því að auka þjónustu og afþreyingu fyrir þá sem koma á svæðið. Þar eru spennandi hlutir að gerast og von er til þess að áður en langt um líður hefjist starfsemi, til dæmis verður áhugavert að fylgjast með þegar kaffihús opnar í gamla vitanum á Garðskagatá. Því er hér með spáð að það kaffihús muni slá í gegn og að þangað sæki margir til að njóta veitinga, náttúrunnar og töfranna sem þar ríkja. Allt að gerast á Garðskaga.

Veðrið.

Veður var með ágætum um síðustu helgi, þó heldur svalt. Í byrjun vikunnar fór að hlýna, mánudagurinn einkenndist af heiðum himni, sólskini og blíðuveðri. Fram að þessu hefur verið hægviðri og milt, en sólarlítið.

Hvítasunnuhelgi.

Framundan er Hvítasunnuhelgin, sem oft hefur verið fyrsta alvöru ferðahelgin á hverju vori. Margir munu eflaust leggja land undir fót og eru ferðalangar hvattir til að fara varlega í umferðinni.

Molar í fríi í næstu viku.

Í næstu viku taka Molar frí. Bæjarstjórinn mun fara á Vestfirði eftir miðja næstu viku til fundar við aðra bæjar- og sveitarstjóra sveitarfélaga í landinu. Þetta er árlegur fundur, þar sem kollegar bera saman bækur sínar og farið er yfir ýmis sameiginleg mál. Næstu molar munu birtast föstudaginn 20. maí.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail