Bæjarsjóður Garðs er skuldlaus !

Ársreikningur 2015.

Á fundi bæjarstjórnar Garðs þann 4. maí sl. var ársreikningur fyrir árið 2015 samþykktur eftir síðari umræðu.  Niðurstöður ársreikningsins eru afar ánægjulegar og bera með sér góða fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.

Það sem ber hvað hæst er að bæjarsjóður í A-hluta efnahagsreiknings skuldar ekki krónu af vaxtaberandi lánum hjá lánastofnunum.  Skuldir B-hluta eru aðeins 61 milljón, en að teknu tilliti til þeirra skulda auk lífeyrisskuldbindinga og leiguskuldbindinga eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins alls 519 milljónir. Skuldahlutfall samkvæmt ákvæðum Sveitarstjórnarlaga er aðeins 14,52%, en samkvæmt lögunum má skuldahlutfallið hæst vera 150% miðað við tekjur.

Þá er þeim markmiðum náð að sveitarfélagið stenst nú ákvæði Sveitarstjórnarlaga um rekstrarniðurstöðu, eða svonefnda „jafnvægisreglu“. Hún felur í sér að á hverju þriggja ára tímabili mega gjöld ekki vera umfram tekjur. Bæjarstjórn hefur undanfarin ár unnið að því að ná þessu markmiði, meðal annars með því að láta vinna úttekt á rekstri sveitarfélagsins og fylgja eftir ýmsum tillögum sem fram komu um hagræðingu í rekstri.  Sveitarfélagið hafði gert samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um að umrædd jafnvægisregla væri uppfyllt í síðasta lagi í árslok 2017. Niðurstaðan í ársreikningi 2015 hvað þetta varðar er því afar ánægjuleg.

Heildartekjur sveitarfélagsins voru 1.158 milljónir árið 2015 og rekstrarniðurstaða skilaði 36,5 milljónum í afgang. Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir 18,5 milljóna afgangi.  Veltufé frá rekstri var 154 milljónir, sem er 13,3% af tekjum og handbært fé frá rekstri af alls 114 milljónir. Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að handbært fé jókst um 46 milljónir og var handbært fé í árslok alls 336 milljónir. Veltufjárhlutfall var 2,68, sem er mjög góð staða, þess má geta að oft er miðað við að veltufjárhlutfallið 1 sé viðunandi.

Bæjarstjórn lýsti á fundinum mikilli ánægju með niðurstöður ársreikningsins, enda full ástæða til. Það er hins vegar ljóst að til þess að halda þeirri stöðu sem fjárhagur sveitarfélagsins er kominn í núna verður að halda áfram aðhaldi í rekstri og skynsemi í fjárfestingum. Það er alþekkt að allar tilslakanir í þeim efnum koma fljótt niður á fjárhagnum og því er það krefjandi verkefni fyrir bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins að standa vaktina og halda vel á fjármálum sveitarfélagsins á næstu árum.

Svona árangur kemur ekki af sjálfu sér. Mjög góð samstaða og samstarf hefur verið meðal allra bæjarfulltrúa við áætlanagerð og í allri umfjöllun um fjármál sveitarfélagsins að undanförnu. Það er til fyrirmyndar og á sinn þátt í því að vel gengur. Starfsfólk sveitarfélagsins á ekki síður sinn þátt í þessu og er öllu starfsfólki þakkað fyrir það. Forstöðumenn stofnana hafa unnið vel, af mikilli ábyrgð og festu, enda liggur fyrir í ársreikningnum að rekstur stofnana er mjög vel í takti við fjárhagsáætlun.

Það eru helst ýmsir utanaðkomandi þættir sem hafa afgerandi áhrif á rekstur sveitarfélaga. Þar ber fyrst að nefna kjarasamninga, en það liggur fyrir að nýgerðir kjarasamningar auka mjög launakostnað sveitarfélaga, á móti kemur að tekjur af útsvari aukast einnig. Þá má nefna framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem oft er erfitt að sjá fyrir og sveiflast oft frá ári til árs. Loks má nefna verðbólgustigið í landinu, um þessar mundir og síðustu misseri hefur verðbólga verið með minnsta móti, ekki síst í sögulegu samhengi. Það skapar mjög jákvæðar aðstæður fyrir allan rekstur og ekki síst ef litið er til verðtryggðra lána, það er því gömul saga og ný hve mikilvægt er fyrir alla að verðbólgan haldist í lágmarki.

Bæjarstjórinn er ánægður með ársreikninginn. Ég þakka bæjarstjórn fyrir afar gott og árangursríkt samstarf um fjármál sveitarfélagsins. Ekki síður fá forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og allir starfsmenn sveitarfélagsins þakkir fyrir vel unnin störf og góðan árangur í þeirra störfum.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail