18. vika 2016.

Vorhátíð og Hairspray í Gerðaskóla.

Eins og fram hefur komið í mörgum molum vetrarins, þá er gjarnan mikið um að vera í Gerðaskóla. Í gær, fimmtudag var haldin vel heppnuð vorhátíð skólans, fjöldi mætti og naut uppákoma og skemmtunar af ýmsu tagi.  Í kvöld munu nemendur Gerðaskóla sýna söngleikinn Hairspray í Miðgarði og eru Garðbúar og gestir hvattir til að mæta og njóta. Mikið líf og fjör í Gerðaskóla.

Fyrirlestur um kvíða.

Á mánudaginn var boðið til fyrirlestrar í Gerðaskóla, í samstarfi Gerðaskóla og íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Umfjöllunarefni var kvíði og annaðist Steinunn Anna Sigurjónsdóttir sálfræðingur fyrirlesturinn. Um 90 manns mættu og tóku þátt í líflegum umræðum að loknum fyrirlestrinum. Ánægjulegt hve margir mættu, þeim var boðið upp á grillaðar pylsur í fundarhléi.

Fimleikameistari í Garði.

Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar bætist í fjölda afreksfólks í Garðinum. Nú um daginn eignuðumst við enn einn meistarann, þegar Magnús Orri Arnarsson varð íslandsmeistari í Special Olympics flokknum í fimleikum.  Magnús æfir fimleika hjá Fimleikadeild Keflavíkur og hefur staðið sig með miklum sóma. Til hamingju með íslandsmeistaratitilinn nafni 🙂

Magnús Orri með Evu Hrund Gunnarsdóttur þjálfara sínum. (Mynd: Suðurnes.net)
Magnús Orri með Evu Hrund Gunnarsdóttur þjálfara sínum. (Mynd: Suðurnes.net)

Bæjarstjórnarfundur í vikunni.

Á miðvikudag var reglulegur fundur í bæjarstjórn Garðs. Bæjarstjórn samþykkti ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2015 eftir síðari umræðu og lýsti bæjarstjórn ánægju með niðurstöður ársreikningsins. Þá voru á dagskrá fundargerðir nefnda sveitarfélagsins, auk fundargerða af samstarfsvettvangi sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Keppnistímabil knattspyrnumanna hafið.

Nú er leiktíðin gengin í garð hjá Víði. Fyrsti leikur var sl. laugardag, en þá bar Víðir sigurorð af ÍH í bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum. Fyrsti leikur Víðis í 3. deild verður mánudaginn 16. maí gegn nágrönnum okkar í Reyni Sandgerði. Góð byrjun hjá Víðismönnum, gefur vonandi góð fyrirheit um framhaldið.

Víðir 80 ára.

Á morgun, laugardag verður haldið upp á stórafmæli Knattspyrnufélagsins Víðis, en félagið er 80 ára. Búist er við fjölmenni í afmælishófið, sem verður mjög glæsilegt og myndarlegt að hætti Víðis. Knattspyrnufélagið Víðir er samfélaginu í Garði mjög mikilvægt, ekki aðeins hvað varðar íþróttirnar heldur hafa félagar í Víði staðið að alls konar samkomum, skemmtunum og uppákomum í Garðinum mörg undanfarin ár. Forystufólk félagsins í nútíð og fortíð fær innilegar þakkir fyrir þeirra framlag til samfélagsins í Garði gegnum tíðina.

Víðir 80 ára.hátíðardagskrá

Vorboðarnir.

Við fáum ár hvert ýmis kennimerki þess að vorið komi og að sumartíðin gangi í garð. Sem dæmi um það má nefna vorkomu Lóunnar og Sumardaginn fyrsta. Nú í byrjun vikunnar hófst tímabil strandveiða smábáta, það má eins vel skilgreina þau tímamót sem vorboða. Hér áður fyrr var það merki um vorkomuna þegar trillukarlarnir byrjuðu að dytta að bátum sínum, skrapa og mála gömlu trétrillurnar og svo setja á flot með mikilli viðhöfn. Nú í vikunni birtist enn einn vorboðinn, en þá sá Ásgeir Hjálmarsson fyrstu kríuna þetta vorið, þar sem hún flaug yfir Kríulandinu og á það vel við. Sumir halda því fram að sumarið komi með kríunni.

Krían yfir Kríulandi !
Krían yfir Kríulandi !

Veðrið.

Þessi vika hófst með ágætu veðri, norðlægri átt og sólskini en ekki miklum hlýindum. Um miðja vikuna og fram að þessu hafa verið nokkuð svalar norðanáttir með vindi, en sólin hefur skinið á köflum. Veðurfræðingar eru farnir að lofa breytingum um og upp úr helginni, með hlýnandi veðri. Vonandi stenst það !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail