17. vika 2016.

Ljóshúsið á vitann á Garðskagatá.

Sl. föstudag var ljóshúsi komið fyrir á gamla vitann á Garðskaga. Vitinn hefur verið án ljóshúss frá því eftir 1944, þegar nýi vitinn var tekinn í notkun. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á Garðskaga og lyfti hljóshúsinu á vitann, starfsmenn sveitarfélagsins og félagar í Björgunarsveitinni Ægi unnu saman að því að aðstoða áhöfn þyrlunnar og síðan að festa ljóshúsið á sinn stað. Nokkur fjöldi fólks kom á Garðskaga til að fylgjast með verkinu, það var skemmtilegt og athyglisvert að fylgjast með hve vel tókst til og ekki síður var aðdáunarvert hve áhöfn þyrlunnar leysti sitt verk snilldarlega vel af hendi. Nú er breytt útlit á vitanum, en einhvern veginn finnst manni að vitinn hafi alltaf átt að líta út eins og hann gerir í dag. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá því á föstudaginn. Gamli höfðinginn á skagatánni stendur nú með fullri reisn út við yzta haf.

Vitinn án ljóshússins.
Vitinn án ljóshússins.
Ljóshúsið komið á sinn stað á toppi vitans.
Ljóshúsið komið á sinn stað á toppi vitans.
Þyrlan lætur ljóshúsið síga á sinn stað.
Þyrlan lætur ljóshúsið síga á sinn stað.
Áhöfn þyrlunnar, björgunarsveitarmenn og fleiri.
Áhöfn þyrlunnar, björgunarsveitarmenn og fleiri.
Höfðingi við yzta haf.
Höfðingi við yzta haf.

Vitinn er vinsæll meðal ljósmyndara og mjög margar frábærar myndir eru til af honum við ýmsar aðstæður. Hér fyrir neðan eru tvær flottar myndir sem Guðmundur Sigurðsson tók af vitanum og sólsetrinu.

Vitinn og sólsetrið.
Vitinn og sólsetrið.
Töfrum líkast.
Töfrum líkast.

Bæjarráð í vikunni.

Bæjarráð fundaði í gær. Að venju voru mörg og margvísleg mál á dagskrá. Meðal annars var lagt fram stöðuuppgjör rekstrarins eftir þrjá mánuði ársins og er framvinda rekstrarins vel í takti við fjárhagsáætlun. Samningur við Garðskaga ehf um leigu húsnæðis og aðstöðu á Garðskaga var samþykktur, samþykkt að endurnýja samstarfssamning við Íþróttafélagið Nes og samþykkt tillaga um umhverfi og uppbyggingu við Útskálar, svo eitthvað sé nefnt. Það er mikið um að vera á vettvangi sveitarfélagsins á mörgum sviðum.

Fundahöld.

Í þessari viku hafa verið allmargir fundir sem bæjarstjórinn hefur setið. Þetta er tími aðalfunda og í vikunni voru sat bæjarstjórinn aðalfundi Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS), Fjölsmiðjunnar í Reykjanesbæ og Kölku (Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja). Það er mikilvægt að fylgjast vel með þeirri starfsemi sem fram fer á svæðinu og sveitarfélagið á aðild að. Allt gengur mjög vel, rekstrarafkoma með betra móti enda er mikið um að vera í atvinnumálum og almennt hvar sem litið er á svæðinu.

Garðbúi meistari í glímu-og bardagaíþróttum.

Eins og áður hefur verið fjallað um í Molum, þá hefur margt afreksfólk á ýmsum sviðum komið úr Garðinum. Nú á Garðurinn eitt mesta efni glímu-og bardagaíþrótta á Íslandi, það er hin 17 ára gamli Ægir Már Baldvinsson. Ægir hefur undanfarin ár æft Júdó og Taekwondo með góðum árangri og unnið nokkra meistaratitla í sínum greinum, bæði á Íslandi og erlendis.  Nú í ár mun Ægir Már taka þátt í ýmsum mótum innanlands og utan, hann hefur þegar unnið meistaratitla á þessu ári. Hann hefur auk Júdó og Taekwondo keppt í íslenskri glímu með góðum árangri og í vor varð hann Evrópumeistari í Gouren og Backhold, sem er glímugrein. Ægir Már hefur keppt undir merkjum UMF Njarðvíkur, þar sem hann stundar æfingar, en hann er búsettur í Garði. Sveitarfélagið Garður hefur veitt Ægi Má stuðning til þátttöku í mótum erlendis og óskum við honum góðs gengis í komandi mótum. Ánægjulegt að fylgjast með þessum unga og efnilega Garðbúa.

Ægir Már Baldvinsson
Ægir Már Baldvinsson

1. maí.

Baráttudagur verkafólks er á sunnudaginn, þann 1. maí. Molar óska launafólki til hamingju með þann dag, með von um að stöðug barátta okkar allra fyrir góðum lífskjörum beri sem mestan árangur, öllum til hagsbóta.

Veðrið.

Um síðustu helgi var veður með ágætum. Í byrjun vikunnar var veður gott og þokkalegt hitastig, en um miðja viku brast á með norðanátt og köldum vindi, hitastig fór á köflum niður undir frostmark. Þennan morguninn hefur hlýnað og norðan vindin lægt, sólin skín. Grasflatir grænka dag frá degi og trjágróður brumar. Vonandi gengur kuldakaflinn yfir næstu daga.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail