16.vika 2016.

Gleðilegt sumar !

Þá er sumarið gengið í garð, samkvæmt fornu tímatali og einstakri íslenskri hefð. Í gær var sumarkomunni fagnað á Sumardaginn fyrsta með skemmtidagskrá á vegum Víðis hér í Garðinum. Veður var ágætt, vorbragur í lofti. Dagskráin hófst kl. 11 með árlegu víðavangshlaupi Víðis, þar sem þátttaka var mikil og kl. 12 hófst skemmtidagskrá fyrir börnin í Gerðaskóla. Þar var mikið fjölmenni, líf og fjör með tónlist og skemmtiatriðum. Það er gamall og góður siður víða um land að fagna sumarkomunni á sumardaginn fyrsta með skipulagðri dagskrá, sem fyrst og fremst snýst um börnin. Molar fagna sumarkomunni og óska öllum gleðilegs sumars ! Hér eru nokkrar myndir frá Sumardeginum fyrsta í Garði.

Gullý formaður Víðis stjórnar ferðinni.
Gullý formaður Víðis stjórnar ferðinni.
Margir tóku þátt í víðavangshlaupinu.
Margir tóku þátt í víðavangshlaupinu.
Pylsuveisla Víðis við Gerðaskóla.
Pylsuveisla Víðis við Gerðaskóla.
Efnilegt rokkband Tónlistarskólans.
Efnilegt rokkband Tónlistarskólans.

Ljóshúsið á gamla vitanum.

Ekki tókst að koma fyrir ljóshúsinu á gamla vitann síðasta föstudag, eins og undirbúið hafði verið. Ástæðan var sú að þyrla Landhelgisgæslunnar bilaði, en lyfta átti ljóshúsinu upp á vitann með þyrlunni. Margir voru mættir til að fylgjast með, þar á meðal var Guðni Ingimundarson heiðursborgari Garðs, sem hafði um tíma umsjón með Garðskagavita. Verkinu var sem sagt frestað síðasta föstudag og nú stendur til að ljúka verkinu í dag, föstudag eftir hádegi og vonandi gengur það eftir. Spennandi að sjá breytinguna á útliti þessa gamla höfðingja á skagatánni, sem mun fá sitt upprunalega útlit.

Ljóshúsið komið á Garðskaga.
Ljóshúsið komið á Garðskaga.
Guðni Ingimundarson með Garðskagavita í baksýn.
Guðni Ingimundarson með Garðskagavita í baksýn.

Nýtt hótel rís í Garðinum.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var staðfest samþykkt Skipulags-og byggingarnefndar um úthlutun lóðar fyrir nýtt hótel í Útgarði. Nú í vikunni hófust framkvæmdir á lóðinni, byrjað að grafa fyrir grunni hússins. Þetta eru mikil tímamót í Garði, framkvæmdir hafnar við fyrsta sérhannaða hótelið í bænum. Það er fyrirtækið GSE ehf. sem stendur að framkvæmdinni, en fyrirtækið hefur rekið gistingu í Garðinum undanfarin ár með góðum árangri. Bæjarstjórinn óskar GSE ehf til hamingju með þennan merka áfanga og óskar fyrirtækinu góðs gengis. Það er ánægjulegt að upplifa þetta og fylgjast með heimamönnum standa að slíkri uppbyggingu.

Fleiri framkvæmdir í gangi.

Nú standa yfir framkvæmdir við breytingar á húsnæði byggðasafnsins og veitingaaðstöðunni þar. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdum lýkur, byggðasafnið opnar og veitingasala hefst á ný. Undanfarið hafa staðið yfir viðhaldsframkvæmdir í báðum vitunum. Nýi vitinn hefur verið lagfærður og málaður að innan, fljótlega verður komið þar upp sýningum sem verða opnar almenningi. Þá hefur verið unnið að lagfæringum inni í gamla vitanum, hann þrifinn, lagfærður og málaður. Til stendur að bjóða upp á veitingar í gamla vitanum, spennandi! Það er Garðskagi ehf. sem vinnur að þessum verkefnum í samstarfi við sveitarfélagið.  Unnið er að undirbúningi þess að koma upp norðurljósasýningu með fræðslu um norðurljós í húsnæði byggðasafnsins, nánar að því síðar. Spennandi tímar framundan á Garðskaga.

Og enn fleiri framkvæmdir.

Það er mjög mikilvægt fyrir byggðina og landið með ströndinni umhverfis Garðskaga og alla leið inn fyrir Leiru að sjóvarnirnar séu tryggar og í lagi. Allar aðstæður eru þannig að ef ekki væri fyrir tryggar sjóvarnir þá væri ágangur sjávar búinn að valda miklu landbroti, landslag og byggð væri eflaust í allt annarri mynd en nú er. Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum og styrkingu sjóvarna með ströndinni og er verkið unnið á vegum Vegagerðarinnar. Verkið hófst í Leiru, með ströndinni við golfvöll Golfklúbbs Suðurnesja og eru þær framkvæmdir til mjög mikilla bóta. Framundan er að lagfæra sjóvarnir á nokkrum stöðum með ströndinni allt suður fyrir Garðskaga. Mikilvægar framkvæmdir sem láta ekki mikið yfir sér.

Skemmtanir og afmælishald.

Það er mikið um að vera á vegum Víðis í Garðinum um þessar mundir, enda fagnar félagið 80 ára afmæli á árinu. Hátíðahöld voru í gær á Sumardaginn fyrsta, þar sem Víðir stóð fyrir glæsilegri dagskrá fyrir börnin. Í kvöld, föstudag verður árleg leikmannakynning meistaraflokks Víðis í Samkomuhúsinu, íslandsmótið í knattspyrnu hefst um miðjan maí. Framundan er afmælishátíð þann 7. maí í tilefni 80 ára afmælis félagsins, með mikilli og myndarlegri dagskrá.  Það er mikill kraftur í starfsemi Víðis enda öflugt fólk sem stendur að félaginu og hafi þau öll bestu þakkir fyrir framlag þeirra í þágu íbúanna í sveitarfélaginu. Þá má geta þess að Guðlaug Sigurðardóttir (Gullý) formaður Víðis hélt fjölmenna og skemmtilega afmælisveislu í tilefni 50 ára afmælis síns nú í vikunni.

Það er alltaf eitthvað um að vera í skólunum okkar. Í síðustu viku var þjóðahátíð í Gerðaskóla, í samstarfi við leikskólann Gefnarborg. Nemendur komu saman, flögguðu þjóðfánum og báru kórónur í fánalitum þjóða sem tengjast nemendum, enda eiga margir nemendur tengsl við margar þjóðir. Tónlistin var alls ráðandi og fluttu nemendur tónlist frá ýmsum löndum. Skemmtileg þjóðahátíð í Gerðaskóla. Í dag, föstudag er göngudagur skólans þegar allir fara út að ganga.

Frá þjóðahátíð í Gerðaskóla.
Frá þjóðahátíð í Gerðaskóla.

Veðrið.

Veður hefur verið nokkuð rysjótt síðustu vikuna. Norðan áttir voru ríkjandi um og upp úr síðustu helgi, með nokkrum vindi og svölu veðri. Um miðja vikuna snerist í sunnan áttir, með hlýrra veðri og rigningu á köflum. Þegar þetta er skrifað eftir sumarkomu er norðlægt átt, veður milt og gott, sólin skín. Útlit er fyrir ágætt veður um komandi helgi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail