15. vika 2016.

Vikan.

Þessi vika hefur aðallega borið með sér einkenni þess að vorið er komið. Það hefur verið veðurblíða flesta daga, sólskin og hægviðri. Aðstæður á þriðjudagskvöldið voru ævintýri líkastar, heiður himinn og logn. Litabrigðin á himni allt frá sólbjörtum deginum og fram í nóttina voru á við listsköpun í hæsta gæðaflokki. Um kvöldið skiptust á sólsetrið með allri sinni litadýrð og síðan norðurljós sem dönsuðu eins og eftir bestu dansmúsík. Í gærkvöldi var það sama uppi, þó ekki eins magnað sjónarspil og á þriðjudagskvöldið en norðurljósin voru skínandi björt og fóru mikinn. Við svona aðstæður er engu líkt að dvelja á Garðskaga og upplifa töfrana.

Hjólakraftur í grunnskólanum.

Í dag hefja nokkrir nemendur Gerðaskóla þátttöku í verkefninu „Hjólakraftur“ Þetta verkefni er með þátttöku grunnskólanema víða um landið og snýst m.a. um að efla hjólamenningu og auka hjólreiðar. Þetta er skemmtilegt verkefni, sem nemendurnir eiga vonandi eftir að njóta þess að taka þátt í og byggja upp tengsl við jafnaldra sína í öðrum byggðarlögum. Gott framtak, allir út að hjóla.

Sumarverkin.

Nú þegar vorið er komið með sinni veðurblíðu þessa dagana, þá eflist þróttur til að huga að sumarverkefnum. Íþrótta-og æskulýðsfulltrúi hefur auglýst eftir starfsfólki í vinnuskóla sumarsins og unnið er að undirbúningi ýmissa framkvæmdaverkefna sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Götusópurinn hefur farið um bæinn og sópað götur og plön, það er einn af vorboðunum. Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir starfsfólki til hinna ýmsu starfa á Suðurnesjum um þessar mundir og verktakar eru almennt með þétta verkefnalista. Við vonumst til þess að það muni ekki setja strik í reikninginn varðandi sumarverkefni sveitarfélagsins. Það er hagsmunamál allra að næg atvinna sé í boði og sú ánægjulega staða er nú uppi á Suðurnesjum. Ekki er langt síðan þessu var öfugt farið, en skjótt hafa skipast veður í lofti í atvinnumálum á svæðinu.

Ljóshúsið á gamla vitann.

Allt frá því á síðasta ári hefur staðið til að staðsetja á ný ljóshús á gamla vitann á Garðskaga og var fjallað um það í vikumolum 15. viku 2015. Ljóshúsið sem var á vitanum var fjarlægt eftir að nýi vitinn var tekin í notkun árið 1944. Íslenska vitafélagið stóð fyrir því að nýtt ljóshús var smíðað eftir upprunalegum teikningum, fékk til þess stuðning og styrk hjá Minjavernd og lauk þeirri smíði á síðasta ári. Vitinn er eitt elsta steinsteypta mannvirki í landinu, byggður 1897. Á þeim tíma voru aðeins tveir vitar fyrir í landinu, Reykjanesviti og Dalatangaviti. Sá fyrrnefndi hvarf í hafið vegna landbrots en sá síðari stendur enn og því er gamli vitinn á Garðskaga næst elsta vitahús í landinu. Vitinn á Garðskagatá hefur verið friðaður frá árinu 2003.

Nú er áformað að ljóshúsinu verði komið fyrir á toppi vitans í dag, föstudag og mun þyrla Landhelgisgæslunnar taka þátt í því verkefni. Ef ekkert óvænt kemur upp mun það ganga eftir. Hér að neðan er gömul mynd af vitanum með ljóshúsinu, eins og sjá má af henni mun þetta merkilega mannvirki fá breytta, en upprunalega ásýnd með tilkomu ljóshússins. Samkvæmt þessu eru nú síðustu forvöð að ná ljósmyndum af vitanum með því útliti sem verið hefur, áður en hann fær á sig toppstykkið.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail