14. vika 2016.

Bæjarstjórnarfundur.

Fundur var í bæjarstjórn á miðvikudaginn. Þar fór fram fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2015. Niðurstöður ársreikningsins eru mjög ánægjulegar og góðar. Reikningurinn felur m.a. í sér að sveitarfélagið uppfyllir nú að fullu fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga, bæjarstjórn hefur þar með náð þessu mikilvæga markmiði og það tveimur árum fyrr en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.  Frekari umfjöllun verður um ársreikninginn hér í molum síðar. Á fundinum var staðfest lóðaúthlutun Skipulags-og byggingarnefndar fyrir hótelbyggingu í Útgarði. Það verður tímamóta framkvæmd í Garði, þegar fyrsta sérbyggða hótelið mun rísa á staðnum. Það er ánægjulegt og mun stuðla að aukinni ferðaþjónustu og fjölga störfum í sveitarfélaginu. Loks má nefna að bæjarstjórn samþykkti tillögu Umhverfisnefndar um Umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Fjör í Félagsmiðstöðinni Eldingu.

Margvísleg og góð dagskrá er í félagsmiðstöðinni og er hún vel sótt af ungmennum í Garði. Nú í dag verður einn vinsælasti viðburður síðustu ára haldinn í Eldingunni, en það er svokallað Tölvu-LAN. Þá mæta ungmennin með sínar tölvur, tengja þær saman og spila tölvuleik. Þessi viðburður mun standa frá því kl. 15:00 í dag og fram á nótt.

Tölvu-LAN í Eldingu
Tölvu-LAN í Eldingu

Ungmennaráð fundar.

Sl. laugardag kom Ungmennaráð Garðs saman til fundar. Það er ánægjulegt hve mikill áhugi er í Ungmennaráði á málefnum sveitarfélagsins og ungs fólks í Garði. Á fundinum var m.a. farið yfir ný afstaðna Ungmennaráðstefnu UMFÍ. Fleiri mál voru til umfjöllunar og er Ungmennaráð að undirbúa reglulegan sameiginlegan fund með bæjarstjórn síðar í vor. Framtíðin er björt í Garði.

Ungmennaráð Garðs.
Ungmennaráð Garðs.

Framkvæmdir í byggðasafni.

Nú standa yfir framkvæmdir við breytingar og bætta aðstöðu fyrir þjónustu við gesti í byggðasafninu. Samkvæmt venju átti safnið vera opið frá og með 1. apríl, en opnun safnsins mun dragast eitthvað vegna yfirstandandi framkvæmda. Eins og áður hefur komið fram er unnið eftir stefnumótun bæjarstjórnar um uppbyggingu ferðaþjónustu og afþreyingar fyrir ferðafólk á Garðskaga. Framkvæmdirnar í byggðasafninu eru liður í framkvæmd þeirrar stefnumótunar. Spennandi áform eru  uppi um aukna þjónustu og starfsemi á Garðskaga.

Undirbúningur sumarstarfa.

Nú er unnið að undirbúningi sumarstarfa hjá sveitarfélaginu. Á heimasíðunni svgardur.is er auglýst eftir starfsfólki í vinnuskóla sumarsins. Vonandi mun vinnuskólinn búa að góðu og öflugu starfsfólki í sumar, enda vinnur vinnuskólinn mikilvæg verkefni fyrir sveitarfélagið og íbúana í Garði.

Sumarstörf í vinnuskólanum.
Sumarstörf í vinnuskólanum.

Gerðaskóli.

Það er jafnan mikið um að vera í Gerðaskóla, hjá nemendum og starfsfólki. Nk. mánudag mun 7. bekkur leggja upp í ferðalag þar sem áfangastaðurinn eru Reykir í Hrútafirði. Þar munu nemendur dvelja alla næstu viku. Föstudaginn 15. apríl verður þjóðadagur, þar sem fjölbreytileikanum verður fagnað í samstarfi við leikskólann Gefnarborg.

Veðrið.

Í vikunni hefur veður verið ágætt. Sjá má grænan lit verða meira og meira áberandi í túnum og grasflötum. Allt virðist bera með sér að vorið sé að ganga í garð.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail