13. vika 2016.

Að loknum Páskum.

Nú er Páskahátíðin liðin hjá, með þeim frídögum sem henni fylgir. Daglegt líf er nú aftur komið í fastar skorður, skólahald í eðlilegan farveg sem og atvinnulífið almennt. Fréttir bárust af fjölda íslendinga sem sóttu í sólina og hlýrra veðurfar á suðlægar slóðir um Páska og vonandi höfðu þeir það gott í sinni dvöl þar. Að venju var mikil umferð hér innanlands og sem betur fer gekk hún vel. Frídagar um páskahelgina voru kærkomnir, fólk fékk þá tækifæri til hvíldar frá daglegu amstri og margar fjölskyldur nýta sér gjarnan svona frídaga til að sameinast og hittast, sem er hefðbundið og mikilvægt fyrir marga.

Bæjarráð í vikunni.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs. Á dagskrá fundarins voru að venju ýmis mál, en hæst ber þar að drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2015 voru til umfjöllunar. Niðurstöður ársreikningsins eru mjög góðar og verður gert frekar grein fyrir þeim hér í molum síðar. Bæjarstjórn mun fjalla um ársreikninginn við fyrri umræðu í næstu viku.

Veðrið.

Um páskahelgina var veður þokkalegt, en þó voru ríkjandi norðlægar áttir með nokkrum vindi og hitastig var rétt yfir frostmarki. Fram eftir vikunni var heldur hlýrra og skárra veður, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er suðaustan átt með nokkrum vindi og rigning. Hitastig þokast heldur upp á við þessa dagana og svo verður næstu daga, samkvæmt veðurspám. Það má því segja að um þessar mundir séu hefðbundin átök vetrar og vors, þar sem vorið mun taka yfirhöndina smám saman.

Apríl er genginn í garð.

Tíminn líður hratt, allt í einu er kominn 1. apríl ! Fjórðungur af nýbyrjuðu ári er liðinn hjá og fyrr en varir verður komið fram í sumarið. Unnið er að undirbúningi sumarverka hjá sveitarfélaginu og nú eftir Páska er síðasti hluti skólastarfs hafinn hjá skólunum fram að lokum þessa skólaárs.  Féttir bárust af því fyrir Páska að sést hafi til Lóu á Garðskaga, þessi góði vorboði ber með sér að vetrartíðin sé að renna sitt skeið á enda.

Vorboðinn er mættur á Garðskaga.
Vorboðinn er mættur á Garðskaga.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail