12. vika 2016.

Vegna veikinda birtust ekki molar í síðustu viku, en sem betur fer er heilsufarið orðið gott í þessari viku. Undirritaður veiktist um daginn og þurfti að njóta þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, reyndar var ég daglegur gestur þar um rúmlega vikutíma. Ég þakka starfsfólki HSS fyrir góða þjónustu og sérlega alúðlegt og gott viðmót. Það er mikilvægt að eiga aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu ef á þarf að halda og oft leiðir fólk ekki hugann að því fyrr en á reynir. Íbúar Suðurnesja búa að góðri heilbrigðisþjónustu hjá HSS, þar sem starfsfólkið leggur sig fram um að veita þá þjónustu sem á þarf að halda og fyrir það ber að þakka.

Dagur Norðurlanda er í dag.

Norðurlandaþjóðirnar hafa skapað þá sameiginlegu hefð að halda 23. mars hátíðlegan. Ástæðan er sú að þennan dag árið 1962 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna samning um samstarf þjóðanna, samningurinn hefur haft heitið Helsinkisáttmálinn.  Í honum felst samstarf landanna á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar. Sáttmálinn kveður m.a. á um margvísleg gagnkvæm réttindi norðurlandabúa innan Norðurlanda. Þetta samstarf hefur byggst á samkennd íbúa landanna og hefur frá upphafi verið víðtækt og þverpólitískt, í því felst m.a. styrkur þessa merkilega samstarfs þjóða Norðurlanda.

Vetrarfundur SSS.

Sl. föstudag var vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Gerðaskóla. Vetrarfundurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun og umræðu um þá miklu uppbyggingu sem er í gangi og er framundan á og við Keflavíkurflugvöll. Eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi er mikil uppbygging í gangi á flugvellinum og fyrirsjáanlegt að svo verði næstu árin. Því valda mjög aukin umsvif og umferð um flugvöllinn, sem kallar á mikla fjölgun starfsfólks á flugvallarsvæðinu.  Í því samhengi var á fundinum fjallað um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi og um ýmislegt á sviði vinnumarkaðsmála. Fundurinn var mjög upplýsandi og umræður málefnalegar. Það er ljóst að sveitarfélögin standa frammi fyrir krefjandi verkefnum og úrlausnarefnum í tengslum við það sem fjallað var um á fundinum.

Björn Óli forstjóri ISAVIA á vetrarfundi SSS.
Björn Óli forstjóri ISAVIA á vetrarfundi SSS.

Árshátíðir skólans –  páskafrí.

Nú eru nemendur og starfsfólk Gerðaskóla komnir í páskafrí. Í síðustu viku voru árshátíðir nemenda og tókust þær mjög vel. Vonandi hafa nemendur og starfsfólk skólans það gott um páskahelgina og koma fullir orku til starfa eftir páskafríið. Við tekur lokatörnin fyrir lok skólaársins.

Ungmennaráðstefna UMFÍ.

Í síðustu viku var haldin ungmennaráðstefna UMFÍ. Tveir fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu ráðstefnuna, undir handleiðslu Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa sveitarfélagsins. Ráðstefnan var vel heppnuð og skilaði hún frá sér ályktun, þar sem m.a. er lögð áhersla á úrræði í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna.

Fulltrúar Ungmennaráðs með Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa Garðs.
Fulltrúar Ungmennaráðs með Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa Garðs.

Vorið minnir á sig.

Að undanförnu hefur veðurfar verið með þeim hætti að vorið minnir á sig. Suma daga hefur veðrið minnt á góða vordaga, inn á milli hefur vindinn hreyft meira en aðra daga og verið úrkoma í formi rigningar. Farfuglar eru farnir að koma til baka eftir vetrarvist sunnar á jörðinni, söngur tiltekinna tegunda farfugla er farinn að heyrast í Garðinum, það er væntanlega gleðisöngur við heimkomu.

Páskar framundan.

Nú er liðið að Páskum, með tilheyrandi fríum og ferðalögum. Í fréttum hefur komið fram að þúsundir íslendinga nota páskaleyfið til ferðalaga erlendis, dæmi er um að einhver þúsundir muni dvelja á sama stað um páskahelgina. Vonandi eiga allir utanlandsfarar góða frídaga, hvar sem þeir eru staddir. Hér innanlands má búast við miklum ferðalögum íslendinga, við það bætist hin stóraukna umferð erlendra ferðamanna á bílaleigubílum. Það er því full ástæða til að hvetja alla ferðalanga til varúðar í umferðinni. Vonandi hafa allir það sem allra best um páskahátíðina.

Gleðilega Páska !

 

Góða Páskahelgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail