10. vika 2016.

Landsbankinn styður við Gerðaskóla.

Unnið hefur verið að því að endurnýja tölvubúnað Gerðaskóla. Fyrir stuttu gaf Landsbankinn skólanum sextán tölvuskjái að gjöf, skjáirnir eru nýlegir og í góðu ástandi en ekki í notkun hjá bankanum. Einar Hannesson útibússtjóri og Herborg Hjálmarsdóttir starfsmaður Landsbankans í Reykjanesbæ afhentu Jóhanni Geirdal skólastjóra Gerðaskóla skjáina í tölvuveri skólans. Landsbankinn fær þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf til Gerðaskóla.

Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)
Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)

Nettómótið í Garði.

Um síðustu helgi stóðu unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur fyrir árlegu Nettómóti í körfubolta fyrir yngstu iðkendur. Mótið hefur þótt hið glæsilegasta undanfarin ár, mikil þátttaka og ánægja. Að þessu sinni var þátttakendafjöldinn slíkur að leika þurfti hluta af mótinu í Íþróttamiðstöðinni í Garði og gekk vel. Það var gaman að sjá áhugann og keppnisandann hjá þessum ungu körfuboltahetjum og það var jafnframt ánægjulegt fyrir okkur í Garði að taka á móti  öllum keppendum og gestum sem komu í Garðinn vegna mótsins. Við þökkum þeim öllum fyrir komuna og vonum að dvöl þeirra hér hafi verið ánægjuleg. Hátt í 40 börn tóku þátt í Nettómótinu undir merki Víðis, þjálfarar þeirra eru Bára Bragadóttir og Óli Garðar Axelsson.

Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.
Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.

Forvarnateymið Sunna.

Sl. mánudag hélt forvarnateymið Sunna kynningarfund í grunnskólanum í Vogum. Þar var fjallað um forvarnir og ýmis verkefni sem miða að sjálfstyrkingu og bættum árangri barna og unglinga og um fjölskylduvernd. Jóhann Geirdal skólastjóri Gerðaskóla fjallaði um athyglisverða rannsókn sem hann vann og fjallar um áhrif efnahags fjölskyldna og annarra ytri þátta á námsárangur nemenda. Forvarnanefndin Sunna er sameiginlegt forvarnateymi Garðs, Sandgerðis og Voga, með þátttöku lögreglu, grunnskóla, félagsmiðstöðva og félagsþjónustu. Frábært starf þarna á ferð.

Afmælisveisla í Vogum.

Á þriðjudaginn hittumst við bæjarstjórarnir á Suðurnesjum á bæjarskrifstofunni í Vogum.  Við hittumst reglulega til að fara yfir ýmis málefni og eigum mjög gott samstarf. Nú brá svo við að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum átti afmæli á þriðjudaginn, en þann dag var einnig baráttudagur kvenna.  Við sungum fyrir hann afmælissönginn og í staðinn fengum við dýrindis afmælis veitingar. Fundurinn var óvenju árangursríkur og góður !

Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.
Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.

Upplestrarkeppni í Gerðaskóla.

Á fimmtudaginn var upplestrarkeppni nemenda úr Gerðaskóla og skólunum í Vogum og Grindavík haldin í Gerðaskóla. Upplestrarkeppni grunnskólanema hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af stóru viðburðunum á hverju skólaári og er jafnan nokkur spenna í tengslum við hana. Upplestrarkeppnin í Gerðaskóla gekk mjög vel og var gerður góður rómur af upplestri nemendanna. Nemendum Gerðaskóla hefur jafnan gengið vel í þessari keppni og að þessu sinni hlaut Amelía Davíðsdóttir nemandi í Gerðaskóla 2. sæti í keppninni. Til hamingju allir sem tóku þátt í þessari skemmtilegu keppni, sem fyrir utan keppnina sjálfa er mikilvægur liður í því að halda börnum að lestri og að rækta íslenskar bókmenntir.

Styrkir úr Uppbyggingarsjóði.

Á fimmtudaginn voru afhentir styrkir úr Uppbyggingasjóði Suðurnesja. Mörg frábær verkefni fengu styrk úr sjóðnum. Nokkrir styrkir voru veittir aðilum í Garði, eða sem tengjast verkefnum í Garði. Þessi verkefni eru Ferskir vindar, Hollvinir Unu vegna endurbóta á Sjólyst, Garðskagi ehf. vegna ferðaþjónustu á Garðskaga, Guðmundur Magnússon vegna heimildamyndar um Guðna á trukknum. Þar að auki er styrkur til heimildamyndar um knattspyrnulið Víðis, gulldrengina og auk þess hlaut Einar Friðrik Brynjarsson starfsmaður Garðs styrk vegna verkefnisins GrasPro. Þessir styrkir skipta miklu máli fyrir þau verkefni sem hlutu styrki, reynsla síðustu ára er að þessir styrkir hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnu-og menningarlíf á Suðurnesjum. Til hamingju allir.

Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.
Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.

Mikið um að vera um komandi helgi.

Nú um helgina verður Safnahelgi Suðurnesja. Öll söfn á svæðinu verða opin almenningi án aðgangseyris. Í Garði verður byggðasafnið opið, þar verður áhugaverð ljósmyndasýning af bílum Garðmanna gegnum tíðina og frumsýnd verður heimildamynd um nýlokna listahátíð Ferskra vinda. Sjólyst verður opin, Gallery Ársól sömuleiðis og allir eru velkomnir í Ævintýragarð Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Nánar um dagskrá Safnahelgar á safnahelgi.is.

Íslandsmót fatlaðra í íþróttum verður í Reykjanesbæ um helgina. Íþróttafélagið Nes er framkvæmdaraðili, en Sveitarfélagið Garður hefur átt ánægjulegt samstarf við íþróttafélagið undanfarin ár með það að markmiði að hlú að og efla íþróttaþátttöku fatlaðra á Suðurnesjum. Íþróttafélagið Nes á samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum vegna íslandsmótsins og við væntum mikils af mörgum frábærum íþróttamönnum á Suðurnesjum á þessu íslandsmóti.

Síðast en ekki síst, þá verður mikið um að vera í Íþróttamiðstöðinni á morgun, laugardag. Mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni í vetur og ekki síst í hópatíma, þar sem hefur verið mikið líf og fjör. Á morgun munu fjölmargir sem hafa stundað ræktina að kapp leiða saman hesta sína í skipulögðu þrekmóti. Bakhjarl mótsins er SI verslun og er þrekmótið kennt við SI verslun. Það er klárt að það verður vel tekið á því á morgun og vitað er um marga sem eru stútfullir af keppnisanda og ætla sér stóra hluti í mótinu. Það er kraftur og aukið þrek í Garðbúum.

Veðrið.

Það skiptust á skin og skúrir þessa vikuna, í bókstaflegri merkingu ! Vikan byrjaði með sunnan roki og rigningu. Sól og blíða á þriðjudag, vor í lofti ! Rigning og síðan sól og blíða á miðvikudag. Það syrti í álinn á fimmtudag og föstudag, með suðvestan átt og éljum. Upphaf vikunnar gaf góð fyrirheit um að vorið nálgist, en síðari hluti vikunnar minnir okkur á að ennþá er vetrartíð um miðjan mars.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail