9. vika 2015.

Eddan aftur í Garðinn.

Fyrir ári síðan hlaut Kristín Júlla Kristjánsdóttir Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Hún endurtók leikinn að þessu sinni og hlaut Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútar. Bæjarstjórinn er stoltur af Garðbúanum Kristínu Júllu, sem hefur ítrekað sýnt fram á færni sína á þessu sviði. Til hamingju með Edduna Kristín Júlla !

Kristín Júlla fékk Edduverðlaun 2016
Kristín Júlla fékk Edduverðlaun 2016

Ferskir vindar fá hvatningarverðlaun.

Á vetrarfundi ferðaþjónustunnar á Reykjanesi, sem haldinn var í Hljómahöllinni sl. miðvikudag, voru veittar viðurkenningar. Listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlut hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar og Reynir Sveinsson í Sandgerði hlaut þakkarverðlaun. Við í Garði erum að sjálfsögðu ánægð með viðurkenninguna og óskum Mireyu Samper og sveitarfélaginu til hamingju með hana. Þá sendum við hamingjuóskir til Reynis og þakkir fyrir framlag hans til ferðaþjónustu á Reykjanesi.  Þess má geta að Listahátíðin Ferskir vindar er tilnefnd til Menningarverðlauna DV. Það er ánægjulegt hve mikla athygli Ferskir vindar í Garði hafa fengið, enda einstök og alþjóðleg listahátíð sem hefur gengið mjög vel. Garðurinn er menningarbær.

Reynir og Mireya með verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. (Mynd: Víkurfréttir).
Reynir og Mireya með verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. (Mynd: Víkurfréttir).

Fundur í bæjarstjórn.

Á miðvikudag var fundur bæjarstjórnar Garðs. Á dagskrá fundarins voru fundargerðir nefnda og stjórna, bæði fastanefnda sveitarfélagsins og nefnda og stjórna sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum. Meðal þess sem bæjarstjórn samþykkti eru úthlutunarskilmálar vegna lóða innan deiliskipulags í Útgarði, þar sem m.a. liggur fyrir umsókn um lóð undir nýja hótelbyggingu. Þá var samþykkt að ný gata innan þessa deiliskipulags fái heitið Norðurljósavegur. Góður samstarfsandi er meðal bæjarfulltrúa í bæjarstjórninni og góð samstaða um nánast öll mál sem eru leidd til lykta.

Vetrarfundur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi.

Eins og fram kemur hér að framan, þá var Vetrarfundur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi haldinn í Hljómahöllinni sl. miðvikudag. Þar voru flutt ýmis áhugaverð erindi og í þeim komu fram athyglisverðar upplýsingar og staðreyndir um ferðaþjónustu á Reykjanesi og í reynd landinu öllu. Enn og aftur kemur í ljós hve gríðarleg sóknarfæri eru á Reykjanesi varðandi aukna ferðaþjónustu, einnig kom fram að mjög margt er í farvatninu við uppbyggingu í þeim efnum á svæðinu. Á fundinum var m.a. rætt um umdeilda gjaldtöku á ferðamenn sem heimsækja Ísland og einnig um mikilvægi þess að leggja áherslu á ábyrga ferðamennsku í landi þar sem dæmin sanna að getur verið hættulegt að ferðast um, sérstaklega ef ferðamenn huga ekki að þeim efnum fyrirfram. Varðandi gjaldtöku, þá voru nefnd mörg dæmi um alls kyns gjaldtöku víða erlendis sem ferðamenn þurfa að greiða, til þess m.a. að fá leyfi til þess að fara á ákveðna staði. Það er aðkallandi að fá botn í þessi mál sem allra fyrst, enda mikil þörf víða um land að fjármagna uppbyggingu innviða og standa undir kostnaði við að tryggja sem best verndun einstakrar náttúru landsins.

Skiphóll, blað allra Garðmanna.

Nú í desember síðast liðnum kom blaðið Skiphóll út í 38. sinn. Blaðið hefur alltaf komið út í desembermánuði og fjallar um málefni Garðs, söguna og fólkið. Það er í raun ótrúlegt að blaðið eigi jafn langa og óslitna útgáfusögu og myndar í raun verðmætan menningararf og varðveitir sögu byggðarlagsins í gegnum tíðina. Nýjasta blaðið, ásamt eldri blöðum eru aðgengileg á heimasíðunni svgardur.is. Fljótlega mun birtast sérstakur moli um hið merkilega blað Skiphól.

Forsíða blaðsins Skiphóll 2015.
Forsíða blaðsins Skiphóll 2015.

Veðrið.

Framan af vikunni var frekar hlýtt í veðri og rigning á köflum. Um miðja vikuna brast á með yndislegu veðri, logni og sólskini og hélst milt veður og hægviðri fram undir helgina. Jörð er nánast auð af snjó og klaka.

Góða helgi

Facebooktwittergoogle_plusmail