8. vika 2016.

Þorri og Góa.

Nú er Þorri liðinn hjá og Góa tekin við. Tíminn líður hratt, mars gengur í garð eftir helgina. Sól hækkar jafnt og þétt á lofti, fyrr en varir verða Páskar liðnir hjá og blessað vorið ræður ríkjum.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Ýmis mál voru á dagskrá fundarins, undir einum dagskrárlið komu góðir gestir á fundinn. Það voru fulltrúar Hrafnistu og formaður stjórnar DS, en Hrafnista rekur hjúkrunarþjónustu við aldraða í Hlévangi, sem er í eigu sveitarfélaganna sem standa að DS. Gestirnir fóru yfir starfsemina og brýna þörf á viðhaldi og endurbótum á húsnæðinu. Nánar verður fjallað um það síðar og tekin afstaða til málsins. Almennt sjónarmið er að aldraðir eigi að búa við þá bestu aðstöðu og þjónustu sem völ er á. Þá var á fundinum fjallað um framtíðarþróun á svæðinu Ásbrú norður, sem liggur í norðurátt frá flugstöðinni og inn á Miðnesheiði. Þar er um að ræða mjög mikilvægt mál sem varðar mikla framtíðarhagsmuni og snýst um skipulag og uppbyggingu á þjónustustarfsemi í tengslum við Keflavíkurflugvöll og þá stórauknu umferð ferðafólks sem á sér stað. Loks má nefna að fjallað var um tillögur um breytingar á húsnæði byggðasafnsins á Garðskaga, sem miða að því að bæta aðstöðu og rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Garðskaga.

Fulltrúar Ungmennaráðs á ráðstefnu.

Í síðustu viku sóttu tveir fulltrúar Ungmennaráðs Garðs, ásamt íþrótta-og æskulýðsfulltrúa sveitarfélagsins ráðstefnuna „Skipta raddir ungs fólks máli“, sem haldin var á Hilton hótelinu í Reykjavík. Ráðstefnan var haldin á vegum Evrópu unga fólksins í samstarfi við ýmis samtök sem vinna að málefnum ungs fólks. Það er jafnan fróðlegt og uppbyggilegt fyrir ungt fólk að koma saman og fjalla um málefni sín, ásamt því að hitta jafnaldra sína alls staðar að af landinu og bera saman bækur. Þeir Helgi Líndal og Halldór Gíslason munu án efa miðla sinni reynslu og þeim upplýsingum sem fram komu á ráðstefnunni til Ungmennaráðs, allt í þeim tilgangi að efla starfsemi ráðsins og vinna að hagsmunamálum ungmenna í Garði.

Helgi og Halldór á ráðstefnu ungmenna.
Helgi og Halldór á ráðstefnu ungmenna.
Fjölmenni á ráðstefnunni "Skipta raddir ungs fólks máli".
Fjölmenni á ráðstefnunni „Skipta raddir ungs fólks máli“.

Aðalfundur Víðis.

Í vikunni var haldinn aðalfundur Knattspyrnufélagsins Víðis. Það er vart í frásögur færandi, nema fyrir það að annars vegar verður Víðir 80 ára á þessu ári og aðalfundurinn kaus sér formann af kvenkyni. Félagið mun halda upp á afmæli sitt á þessu ári og vonandi færir knattspyrnulið meistaraflokks karla félaginu að gjöf að sigra 3. deildina. Nýr formaður félagsins er Guðlaug Sigurðardóttir (Gullý), en samkvæmt heimildum Mola er hún fyrsti kvenkyns formaður knattspyrnufélags á Suðurnesjum og þótt víðar væri leitað. Við óskum Gullý til hamingju með kjörið og óskum henni velfarnaðar í hlutverki formanns Víðis.

Veðrið.

Ágætt vetrarveður í byrjun vikunnar og fram eftir vikunni, hægviðri og hiti um frostmark. Í gær, fimmtudag snerist í suðlæga átt með rigningu og slyddu. Nú í morgun á föstudegi, þegar Garðbúar fóru til sinna starfa kom í ljós að nokkuð hafði snjóað í nótt. Moksturstæki voru komin á fulla ferð snemma í morgun til að hreinsa götur, plön og stíga. Ágætt útlit er með veðrið um komandi helgi.

 

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail