7. vika 2016.

Róleg vika.

Það hefur verið frekar rólegt yfir þessari viku, ef litið er til viðburða í Garði. Jón Ögmundsson fyrrverandi aðstoðarskólastjóri Gerðaskóla varð sextugur í vikunni og er honum óskað til hamingju með þann áfanga. Lífið heldur sinn vanagang og fyrr en varir verður febrúarmánuður runninn hjá. Konudagurinn er á sunnudaginn, þá er Þorri liðinn og Góa tekur við. Óðum styttist í Páska og vorið er í seilingar fjarlægð.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Eins og fram hefur komið var listahátíðin Ferskir vindar í Garði eitt af þremur menningarverkefnum á landsbyggðinni sem voru tilnefnd til að hljóta Eyrarrósina að þessu sinni. Eyrarrósin var afhent í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ í gær, fimmtudag og féll hún í skaut Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Það er frábær árangur að Ferskir vindar skuli hafa verið eitt af þremur menningarverkefnum á landsbyggðinni sem komu til greina að hljóta Eyrarrósina og er ákveðin viðurkenning fyrir Ferska vinda. Við óskum Verksmiðjunni á Hjalteyri til hamingju með Eyarrósina.

Mireya Samper ánægð með blómvöndinn við afhendingu Eyrarrósar í Frystiklefanum í Rifi.
Mireya Samper ánægð með blómvöndinn við afhendingu Eyrarrósar í Frystiklefanum í Rifi.
Bæjarstjórinn, Mireya og fulltrúi Verksmiðjunnar á Hjalteyri við afhendingu Eyrarrósar.
Bæjarstjórinn, Mireya og fulltrúi Verksmiðjunnar á Hjalteyri við afhendingu Eyrarrósar.

Víðir.

Undirbúningstímabil knattspyrnumanna fyrir íslandsmótin í sumar stendur nú sem hæst, með tilheyrandi æfingaleikjum og mótsleikjum. Knattspyrnulið Víðis í Garði hefur leikið nokkra leiki að undanförnu og í vikunni sigraði Víðir lið KFS í Fótbolti.net æfingamótinu og mun Víðir leika til úrslita við nágrannana í Þrótti Vogum um sigur í riðlinum. Víðismenn munu koma sterkir til leiks þegar íslandsmótið hefst í maí og ætla sér eflaust stóra hluti á þessu afmælisári félagsins.

Veðrið.

Veðrið í vikunni hefur einkennst af umhleypingum. Um síðustu helgi var fallegt vetrarveður, sérstaklega á sunnudaginn en þá var logn, sólskin og hitastig rétt ofan við frostmark. Fjörið byrjaði svo á mánudag, með sunnanátt og rigningu. Aðfararnótt þriðjudags var hvöss vestanátt og margir Garðbúar hrukku upp um miðja nótt við mikið haglél sem dundi á rúðum húsa í bænum. Um miðja viku skiptist á snjókoma og bjart veður, nú undir helgina hefur snjóað og hlánað á víxl.

Helgin framundan.

Molar óska konum landsins fyrirfram til hamingju með konudaginn á sunnudag – Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail