6. vika 2016.

Stórveislur og öskudagur.

Þessi vika fól í sér bolludag, sprengidag og svo öskudag. Í upphafi vikunnar voru rjómabollur um allar trissur á bolludaginn og síðan voru víða miklar veislur á sprengidaginn, þar sem saltkjöt og baunasúpa voru á boðstólum. Eftir öll þessi veisluhöld var komið að öskudeginum á miðvikudaginn. Að venju voru börn dulbúin í alls kyns búningum og víða voru furðuverur á ferli. Hér í Garðinum fór mikið fyrir börnum sem fóru í hópum um bæinn, heimsóttu fyrirtæki og stofnanir þar sem þau fengu eitthvað gott í gogginn. Söngur barnanna ómaði allan daginn á bæjarskrifstofunni. Seinni part dagsins var öskudagshátíð í íþróttahúsinu, þar sem köttur var sleginn úr tunnu. Að vísu var ekki köttur í tunnunni, en afrakstur barnanna var góðgæti sem allir fengu. Það var mikið líf og fjör í íþróttahúsinu, góð mæting eins og myndir hér fyrir neðan bera vitni um.

Öskudagur í íþróttahúsinu.
Öskudagur í íþróttahúsinu.
Lína Langsokkur var mætt í íþróttahúsinu.
Lína Langsokkur var mætt í íþróttahúsinu.

Dagur tónlistarskólans.

Á morgun, laugardag munu nemendur tónlistarskólans verða með tónlistarflutning, kl. 11:00 í Miðgarði í Gerðaskóla. Er það í tilefni dags tónlistarskólans. Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta framlags tónlistarfólksins.

Tónlistarskólinn Garði

Ungmennaráð.

Síðasta laugardag var sameiginlegur fundur ungmennaráða Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar, fundurinn var í fundarsal bæjarstjórnar Garðs. Ungmennaráðið í Garði hefur verið vel virkt og fundað reglulega við leiðsögn Guðbrandar íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Þá hefur ungmennaráðið mætt á fundi hjá bæjarstjórn, þar sem málefni ungmenna í Garði hafa verið til umræðu. Það var vel til fundið og ánægjulegt að ungmennaráðin í Garði og Sandgerði hafi fundað sameiginlega. Þar fóru þau yfir ýmis málefni sem þau eiga sameiginleg, meðal annars samstarf ungmenna sveitarfélaganna á ýmsum sviðum.

Ungmennaráð Garðs og Sandgerðis.
Ungmennaráð Garðs og Sandgerðis.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði og voru allmörg mál á dagskrá fundarins. Þar á meðal var erindi frá aðilum sem vinna að heimildamynd um knattspyrnulið Víðis, sem gerði garðinn frægan, lék í efstu deild og til úrslita í bikarkeppni. Samþykkt var að ganga til samstarfs um gerð myndarinnar. Þá var fjallað um vetrarfund SSS, sem verður haldinn hér í Garði síðar í vetur og var samþykkt tillaga um málefni til umræðu á fundinum. Þá má nefna erindi frá Umboðsmanni barna, sem brýnir sveitarfélög til að hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi, umfram fjárhagslega hagsmuni, en bæjarstjórn Garðs vinnur einmitt í þeim anda. Fundargerð bæjarráðs mun síðan verða á dagskrá bæjarstjórnar á næsta fundi, í byrjun mars. Margt er um að vera á vettvangi bæjarfulltrúa í Garði, enda gróska á ýmsum sviðum.

Hálka.

Þegar veður er umhleypingasamt á þessum árstíma vill bera við að klaki liggur yfir öllu þegar frystir eftir að snjóalög hlána.  Um og eftir síðustu helgi voru uppi slíkar aðstæður hér í Garðinum og þá er betra að gæta sín í umferðinni, hvort sem er gangandi eða akandi. Starfsmenn sveitarfélagsins leitast við að beita hálkuvörnum, en engu að síður er varasöm hálka hér og þar. Einn morgun í vikunni fóru leikskólabörnin út í göngutúr og þurftu að gæta sín í hálkunni. Myndin hér að neðan var tekin út um glugga á skrifstofu bæjarstjórans, en þar má sjá leikskólabörnin í fylkingu í göngutúr í hálkunni.

Leikskólabörn í göngutúr.
Leikskólabörn í göngutúr.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Listahátíðin Ferskir vindar í Garði er tilnefnd til verðlauna Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er veitt árlega sem viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.  Ferskir vindar eru eitt af þremur menningarverkefnum sem koma til greina að hljóta Eyrarrósina að þessu sinni. Úrslit munu liggja fyrir þann 18. febrúar, þegar Dorrit Moussaieff forsetafrúin okkar mun afhenda Eyrarrósina á Rifi í Snæfellsbæ. Til hamingju með þennan áfanga Ferskir vindar, við vonum að Eyrarrósin að þessu sinni komi í Garðinn !

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Afreksfólk í Garði.

Þótt svo íþróttalífið í Garði einkennist helst af knattspyrnu og að margir garðmenn hafi gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllunum, þá leggja garðmenn stund á ýmsar aðrar íþróttagreinar og hafa náð góðum árangri. Nú í lok árs 2015 hlutu tveir efnilegir garðmenn titilinn íþróttamaður ársins í mismunandi íþróttagreinum. Ægir Már Baldvinsson var útnefndur júdómaður UMFN og Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur. Bæjarstjórinn óskar þeim til hamingju með frábæran árangur og eru þeir hvattir til frekari dáða í framtíðinni.

Ægir Már Baldvinsson júdómaður UMFN 2015
Ægir Már Baldvinsson júdómaður UMFN 2015
Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur 2015.
Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur 2015.

Fleira afreksfólk í Garði.

Á síðasta ári hlaut Kristín Júlla Kristjánsdóttir förðunarmeistari Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Í ár er Kristín Júlla tilnefnd til Edduverðlauna fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútar og verða verðlaun afhent í lok febrúar. Garðbúar eru stoltir af afrekum Kristínar Júllu í kvikmyndaheiminum og færni hennar í sínu fagi fer ekki milli mála. Það væri frábært að fá önnur Edduverðlaun í Garðinn í ár.

Kristín Júlla með Edduna 2015
Kristín Júlla með Edduna 2015

Veðrið.

Svöl norð-austan átt í byrjun vikunnar, en bjart veður. Um miðja vikuna var stillt, bjart og fallegt vetrarveður. Á öskudag var hægviðri og sólskin, það gefur von um góða tíð næstu daga, ekki síst ef gengið er út frá þjóðtrúnni að öskudagur eigi sér átján bræður. Ekki gekk það hins vegar alveg eftir, því á fimmtudagsmorguninn snjóaði töluvert í logni. Þegar þessi molar eru skrifaðir á föstudagsmorgni er hins vegar logn, 1° frost og útlit fyrir bjartan og góðan dag.

Góða helgi

Facebooktwittergoogle_plusmail