5. vika 2016.

Dagur leikskólans er í dag.

Í dag, föstudag er dagur leikskólans. Að þessu sinni er dagur leikskólans tileinkaður fjölgun karla í kennslu yngri barna. Í leikskólanum Gefnarborg er opið hús í dag og er körlum sérstaklega boðið í heimsókn. Karlar eru hér með hvattir til að heimsækja leikskólann, kynna sér það metnaðarfulla og góða starf sem þar er unnið, með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Bæjarstjóri fór að sjálfsögðu í heimsókn til barnanna og starfsfólks leikskólans Gefnarborgar, þar var líf og fjör að vanda. Í tilefni dagsins var listasýning þar sem til sýnis var afrakstur barnanna eftir fjögurra vikna vinnu í listasmiðju. Til hamingju með daginn leikskólar og leikskólabörn.

Leikskólinn Gefnarborg hefur löngum verið fjölþjóðlegur. Alls hafa börn af 17 þjóðernum verið í leikskólanum gegnum tíðina. Í dag eru börn af 6 þjóðernum í leikskólanum.

Þjóðfánar barna sem hafa verið í leikskólanum Gefnarborg, 17 þjóðerni.
Þjóðfánar barna sem hafa verið í leikskólanum Gefnarborg, 17 þjóðerni.
Sumarhátíð leikskólans  Gefnarborgar 2015.
Sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar 2015.

Heimsókn lögreglu.

Lögreglustjóri kemur árlega á fund með sínu fólki þar sem fjallað er um ýmis mál, þar á meðal er farið yfir margþætta tölfræði um verkefni lögreglunnar. Slíkur fundur var fyrir nokkrum dögum á bæjarskrifstofunni. Ef tekið er mið af tölfræði lögreglunnar, þá er mjög rólegt og lítið sem kemur upp á í Garðinum, sem er mjög ánægjulegt. Lögreglan leggur sig fram um að eiga gott samstarf við sveitarfélögin og samskipti starfsfólks sveitarfélagsins við lögregluna eru regluleg og góð. Þar að auki hefur Krissi hverfislögga aðsetur hér á bæjarskrifstofunni, lögreglan hugsar vel um samfélagið í Garði.

Með lögum skal land byggja
Með lögum skal land byggja

Fundur í bæjarstjórn.

Fundur var í bæjarstjórn í vikunni. Að vanda var fjallað um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða. Þar á meðal var fundargerð Jafnréttisnefndar sem skilaði bæjarstjórn tillögu um jafnréttisáætlun sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlun var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Fundur bæjarstjórnar að þessu sinni tók óvenju stuttan tíma, sem er m.a. til marks um mjög góðan samstarfsanda í bæjarstjórn.

Ungmennaráð funda.

Á morgun, laugardag munu ungmennaráð Garðs og Sandgerðis funda sameiginlega. Tilgangurinn er m.a. að efla samstarf og samskipti ungmennaráða sveitarfélaganna. Það er gott og hollt fyrir fulltrúa ungmennaráðanna að hittast og bera saman bækur sínar. Eflaust munu út úr því koma góðar hugmyndir og tillögur sem ungmennaráðin munu beina til sinna bæjarstjórna og fela í sér hagsmunamál ungmenna í sveitarfélögunum.

Veðrið.

Um sl. helgi var svalt, en upp úr helginni brast á með fallegu vetrarveðri, 2°frost með hægviðri og sól á mánudaginn. Fram eftir vikunni var veður ágætt, en í gær fimmtudag kom veðurskot með hvassviðri og ofankomu. Þennan morguninn er fallegt vetrarveður, sólin skín og það er logn og nokkuð svalt.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail