4. vika 2016.

Þorrablótið.

Þorrablót Suðurnesjamanna var haldið í íþróttamiðstöðinni í Garði sl. laugardag. Vel yfir 600 manns mættu á blótið, þar sem voru frábær skemmtiatriði, dansleikur og ljúffengur þorramatur. Þorrablótið tókst vel í alla staði og var mikil ánægja með það meðal blótsgesta. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir sáu um undirbúning og framkvæmd þorrablótsins, sem tókst vel og var til fyrirmyndar. Hápunktur skemmtidagskrárinnar var frumsýning á Þorraskaupi Víðisfilm, en nokkrir félagar í Víði hafa undanfarin ár sett saman skemmtilega mynd þar sem garðbúar eru plataðir til að gera ótrúlegustu hluti, gert góðlátlegt grín og eftirminnileg atvik síðasta árs sett í skemmtilegan búning. Góður rómur var gerður að myndinni, enda vel gerð og heppnuð.

Það liggur mikil vinna að baki svona myndarlegu þorrablóti. Margir einstaklingar lögðu af mörkum mikla sjálfboðaliðavinnu í undirbúningi blótsins og meðan það stóð yfir, fyrir það er þakkað.

Hæfileikakeppni SAMSUÐ.

Um síðustu helgi fór fram hæfileikakeppni SAMSUÐ í Stapa í Reykjanesbæ.  SAMSUÐ stendur fyrir Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Í hæfileikakeppninni voru dansatriði, trommaradúet spilaði, leikið var á píanó, fimleikaatriði komu fram og nokkrir söngvarar tóku lagið. Íris Ósk Benediktsdóttir söngkona í Garðinum mun í framhaldinu taka þátt í landshlutaúrslitum í söngvarakeppni SAMFÉS í kvöld (föstudag). Í hæfileikakeppninni um síðustu helgi var m.a. trommaradúet, þar sem tveir trommuleikarar úr Garði spiluðu saman á tvö trommusett og vakti það mikla lukku. Þessir efnilegu trommarar eru Eiður Smári Rúnarsson og Alexander Franzson. Þá lék Eva Rós Jónsdóttir á píanó. Gaman að fylgjast með þessum efnilegu garðbúum á listasviðinu.

Við óskum Írisi Ósk góðs gengis í söngvarakeppni í kvöld.

Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.
Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.

Heimildamynd um Ferska vinda. 

Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði vann að upptökum í heimildamynd um listahátíðina Ferska vinda. Myndin verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins þegar hún verður fullbúin. Það er mikilvægt að safna heimildum um slíka viðburði og halda þeim til haga. Guðmundur hefur lagt mikið af mörkum í þeim efnum, bæði við gerð kvikmynda um Garðinn og íbúana og eins hefur hann safnað miklu magni ljósmynda um sögu byggðarlagsins. Hann vinnur að því að gera þetta efni aðgengilegt fyrir almenning.  Guðmundur er því einn þeirra listamanna sem vann að listsköpun meðan listahátíðin stóð yfir.

Heimsókn vest-norrænna þingmanna.

Í gær, fimmtudag komu góðir gestir í heimsókn í Garðinn. Þar var á ferð hópur þingmanna sem sitja í VestNorræna ráðinu (Vest Norden), en þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi skipa Vest Norræna ráðið og þeir funda í þessum löndum til skiptis. Að þessu sinni fundar ráðið á Íslandi, nánar tiltekið í Grindavík og notuðu þingmenn lausan tíma til þess að ferðast um Suðurnesin. Oddný Harðardóttir alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði á sæti í ráðinu fyrir hönd Alþingis, að sjálfsögðu bauð hún upp á ferð í sinn heimabæ í Garði. Hópurinn kom á Garðskaga og inn í Garðskagavita, þar sem Una María Bergmann söng fyrir hópinn. Ánægjan skein úr andliti hvers manns með þá upplifun, það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum og verða vitni að upplifun þeirra við heimsókn á Garðskaga.

Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.

Veðrið.

Hlýtt og gott í upphafi vikunnar, kólnaði heldur um miðja vikuna og fór að snjóa.  Undir lok vikunnar var hvít snjóþekja yfir öllu, hægviðri og frost. Sl. nótt snerist yfir í norðlæga átt með köldum vindi.

Mánaðaskil.

Tíminn líður oft ótrúlega hratt. Nú er janúar að renna sitt skeið á enda og þar með hefur enn einn mánuður vetrarins liðið hjá. Sólin hækkar á lofti frá degi til dags. Enn er þó nokkuð eftir af vetrartímanum, en með hverri vikunni sem líður styttist í vorið.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail