3. vika 2016.

Bóndadagur.

Í dag, föstudag er bóndadagurinn sem markar upphaf Þorra. Einhvers staðar hefur verið þjófstartað með þorrablót um síðustu helgi, en nú hefst mánuður þorrablóta um land allt. Góður siður sem nýtur sívaxandi vinsælda, sem m.a. má sjá af aukinni aðsókn að þorrablótum. Karlmenn landsins eiga samkvæmt gömlum og góðum siðum von á einhverju góðu í dag, kvenfólkið á að gera okkur strákunum eitthvað gott í tilefni bóndadagsins 🙂

Til hamingju með daginn kæru kynbræður !

Þorrablót í Garði.

Á morgun, laugardag verður þorrablót suðurnesjamanna hér í Garði. Hátt í 700 manns munu mæta þar og blóta þorrann. Glæsileg skemmtiatriði hafa verið boðuð og að venju verður dýrindis matur í boði. Stemmningin hefur aukist í Garði eftir því sem liðið hefur á vikuna og nær hámarki annað kvöld.

Ferskir vindar.

Listahátíðinni Ferskum vindum lauk um síðustu helgi. Hátíðin tókst vel og var ánægjulegt hve margir heimamenn og gestir tóku þátt og fylgdust með listafólkinu. Sýningar voru almennt vel sóttar. Við þökkum Ferskum vindum, forsvarsfólki og listamönnum fyrir ánægjulegt samstarf þann tíma sem hátíðin stóð yfir. Garðurinn er enn ríkari af listaverkum eftir hátíðina.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Á fundinum var fjallað um erindi frá Kaupfélagi Suðurnesja, sem eins og kunnugt er vinnur að því að byggja upp þjónustumiðstöð við Rósaselstorg innan Sveitarfélagsins Garðs. Þá lá fyrir fundinum minnisblað frá bæjarstjóra af fundi bæjarfulltrúa með framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja þar sem lyktarmengun frá hausaþurrkunarfyrirtækjum var til umfjöllunar. Lagt var fram samkomulag við Garðskaga ehf, um samstarf við uppbyggingu og ferðaþjónustu á Garðskaga, bæjarráð staðfesti samkomulagið. Loks var erindi frá aðilum sem vilja gera heimildamynd um gullaldarár Víðis í knattspyrnu karla, en sem kunnugt er var Víðir á sínum tíma eitt af stórveldunum í íslenskri knattspyrnu. Alltaf nóg um að vera á vettvangi sveitarfélagsins.

Veðrið.

Blíðskaparveður í upphafi vikunnar, mikil upplifun á þriðjudagsmorguninn þegar sólin kom upp í austri og rauðum lit sló á fjallahringinn handan flóans. Það var ótrúlega fallegt listaverk. Að öðru leyti hefur verðrið verið ágætt alla vikuna, það er ekki eins og nú sé hávetur í janúar.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail