2. vika 2016.

Lista- og menningarbærinn Garður.

Það hefur verið mikið um að vera á sviði lista og menningar í Garði undanfarnar vikur. Á laugardaginn um síðustu helgi var listahátíðin Ferskir vindar opnuð formlega, að viðstöddu fjölmenni. Þar fluttu ávörp sendiherrar Japan og Frakklands, Dorrit Moussaieff forsetafrú og Illugi Gunnarsson mennta-og menningarmálaráðherra, ásamt bæjarstjóra og Mireyu Samper, sem er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Þess má geta að Dorrit er verndari hátíðarinnar. Mikil ánægja var með þær sýningar og viðburði sem um 50 listamenn frá ýmsum löndum buðu upp á. Sýningar og viðburðir verða nú um komandi helgi, bæði á laugardag og sunnudag og er full ástæða til að hvetja sem flesta til þess að njóta þess sem Ferskir vindar bjóða upp á. Dagskrá helgarinnar má sjá á heimasíðu Garðs, svgardur.is, einnig á fresh-winds.com og á facebook síðu Ferskra vinda.

Ferskir vindar færa ferskan blæ inn í samfélagið í Garði nú í byrjun árs, Garðurinn er sannkallaður lista-og menningarbær.

Þátttakendur í Ferskum vindum.
Þátttakendur í Ferskum vindum.
Dorrit Moussaieff á Ferskum vindum.
Dorrit Moussaieff á Ferskum vindum.
Bæjarstjóri með sendiherra Japan og japönskum listamönnum á Ferskum vindum.
Bæjarstjóri með sendiherra Japan og japönskum listamönnum á Ferskum vindum.

Skólastarfið hafið á nýju ári.

Starf skólanna í Garði er komið í sínar föstu skorður eftir jólafríið. Börnin og starfsfólk skólanna fylgja daglegu skipulagi og ekki verður annað séð en það sé kærkomið. Síðari hálfleikur skólaársins er hafinn, dagana lengir og brátt má skynja vorið við sjóndeildarhringinn.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fyrsti fundur bæjarstjórnar á árinu. Að vanda voru allmörg mál á dagskrá, fundargerðir nefnda sveitarfélagsins og fundargerðir af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Helst bar til að bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu Skipulags-og byggingarnefndar um úthlutun lóðar fyrir hótelbyggingu út undir Garðskaga.

Þorrablót.

Framundan er stærsta þorrablót á Suðurnesjum, Þorrablót Suðurnesjamanna sem haldið verður í íþróttamiðstöðinni í Garði. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir undirbúa og sjá um framkvæmd þorrablótsins og má gera ráð fyrir að hátt í 700 manns muni mæta. Bæjarstjóri hefur gegnum tíðina verið á þorrablótum víða um landið, en það er á engan hallað þótt það sé fullyrt að þorrablótið í Garði sé myndarlegasta og best skipulagða þorrablót sem bæjarstjórinn hefur upplifað. Mikill metnaður er lagður í skemmtidagskrána, þar sem hápunkturinn er frumsýning Víðisfilm á skaupi ársins. Gómsætur og vel fram borinn þorramatur kemur frá Skólamat og Axel sjálfur sér um að stjórna umferðinni við matarborðin. Tilhlökkun og spenna hefur verið að byggjast upp fyrir þorrablótinu og mun magnast fram á næstu helgi.  Þorrablótið í garði verður laugardaginn 23. janúar.

Veðrið.

Um síðustu helgi var veðrið afar fagurt og gott. Logn og sól á köflum en heldur kalt. Sólsetrið síðastliðið sunnudagskvöld var töfrum líkast, með miklum litbrigðum. Eftir helgina varð heldur betur breyting, með snjókomu og skafrenningi á mánudag og fram á þriðjudag og norð-austan kulda strekkingi. Frá því um miðja vikuna hefur verið fallegt vetrarveður, gola á köflum en ekki mjög kalt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail