1. vika 2016.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár. Þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári.

Nú í upphafi nýs árs er mikið um að vera í Garði og á vettvangi sveitarfélagsins. Árið hefst því með miklum krafti.

Myndin hér að neðan var tekin á fyrsta degi á nýju ári af Laurent Lafolie-Atelier sem er þátttakandi í Ferskum vindum í Garði. Skemmtilegt sjónarhornu frá gamla vitanum á Garðskagatá.

Nýtt ár á Garðskaga
Nýtt ár á Garðskaga

Listahátíðin Ferskir vindar.

Listahátíðin hófst um miðjan desember og mun standa yfir fram í síðari hluta janúar. Yfir 50 listamenn frá ýmsum þjóðlöndum taka þátt að þessu sinni og vinna þeir að fjölbreyttum listaverkefnum. Það er athyglisvert að fylgjast með vinnu listamannanna og sjá hvernig listaverk þeirra þróast og verða til. Opnunarhátíð verður á morgun, laugardaginn 9. janúar og verða sýningar og kynningar á listaverkum bæði á laugardag og sunnudag. Helgina 16. – 17. janúar verða sýningar einnig opnar með tilheyrandi listviðburðum.

Það er listakonan Mireya Samper sem ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd listahátíðarinnar, í samstarfi við Sveitarfélagið Garð. Það er aðdáunarvert hvernig Mireya heldur utan um þetta flókna og mikla verkefni, drífur hlutina áfram og passar upp á að allt gangi eins vel og mögulegt er. Þá vekur aðdáun hve mikla vinnu margir einstaklingar leggja af mörkum í tengslum við listahátíðina.

Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa og alla landsmenn til þess að njóta þeirra listviðburða sem eiga sér stað í Garði nú í janúar. Ferskir vindar koma með ferskan blæ inn í samfélagið í Garði nú í upphafi ársins og bjóða upp alls kyns skemmtilega og áhugaverða viðburði.

Nánari upplýsingar um listahátíðina má finna á heimasíðu Ferskra vinda: fresh-winds.com og á Facebook síðunni Fresh Winds in Garður.

Myndirnar hér fyrir neðan eru teknar af Lucie Jean, sem er þátttakandi í Ferskum vindum í Garði, af nokkrum þeirra listamanna sem vinna að listsköpun í Garði.

FV.Collin Mura-Smith

 

FV 2016

 

FV 2016 2

 

FV 2016 3

FV 2016 6

Uppbygging í Garði.

Nú í upphafi árs er mikið um að vera í uppbyggingu atvinnulífs í sveitarfélaginu, sem miðar fyrst og fremst að aukinni þjónustu við ferðafólk. Skipulags-og byggingarnefnd samþykkti í lok árs 2015 að úthluta lóð undir hótelbyggingu og má vænta þess að framkvæmdir hefjist áður en langt líður á árið. Þá vinnur Kaupfélag Suðurnesja að því að byggja upp þjónustumiðstöð innan sveitarfélagsins í nágrenni flugstöðvarinnar. Þar er um að ræða mikil og spennandi áform sem munu meðal annars svara ákalli eftir þjónustu á þessu mikilvæga svæði. Það er spennandi að taka þátt í þeim verkefnum sem eru í gangi og framundan eru í Garði.

Bæjarráð.

Í gær var fyrsti fundur bæjarráðs á nýju ári, þar voru tvö mál á dagskrá. Fjallað var um þjónustusvæði fyrir fatlaða á Suðurnesjum og lá fyrir sameiginlegt minnisblað frá bæjarstjórum allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum um fund með ráðherra og embættismönnum þar sem fjallað var um málið. Þá lagði bæjarstjóri fram minnisblöð og upplýsingar varðandi rekstur sveitarfélagsins á síðasta ári. Hafin er vinna við ársreikning 2015 og verður hann væntanlega afgreiddur af bæjarstjórn í apríl. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstöður ársins 2015 verði vel viðunandi.

Jól og áramót.

Um jólin og áramótin var margt um að vera í Garði, hefðbundnar skemmtanir og tilheyrandi. Fyrir jólin voru jólatrésskemmtanir og annað tengt jólunum í skólunum. Þar bar m.a. við að bæjarstjórinn settist við trommusettið og spilaði með ungum og efnilegum tónlistarmönnum á jólatrésskemmtun leikskólans. Kvenfélagið Gefn stóð fyrir jólatrésskemmtun milli jóla og nýárs. Á gamlárskvöld stóð Björgunarsveitin Ægir fyrir stórri og myndarlegri áramótabrennu og mikilli flugeldasýningu, sem var í boði sveitarfélagsins. Margt fleira mætti nefna, en það er ljóst að garðbúar sátu ekki bara heima í rólegheitum um hátíðirnar heldur var margt skemmtilegt um að vera og flest samkvæmt hefðum.

Jólamáltíð í Gerðaskóla.
Jólamáltíð í Gerðaskóla.
Jólatrésskemmtun í Gerðaskóla.
Jólatrésskemmtun í Gerðaskóla.
Jólaball leikskólans, bæjarstjórinn við trommusettið.
Jólaball leikskólans, bæjarstjórinn við trommusettið.

Veðrið.

Nú í upphafi ársins hefur veðrið verið þokkalegt. Hitastigið hefur verið kringum 0°, hægviðri framan af vikunni en eftir miðja vikuna hefur blásið nokkuð og heldur kólnað. Ekki hefur farið fyrir snjókomum þessa vikuna. Það er hávetur og allra veðra von, en sú von lifir að veðurguðirnir verði friðsamir og hófstilltir.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail