51. vika 2015.

Þessi vika hefur borið einkenni þess að jólahátíðin er að ganga í garð.  Ýmsir viðburðir hafa verið í Garðinum sem tengjast jólunum. Menning og listir blómstra í Garðinu, eins og fram kemur í þessum molum.

Nú í morgun komu nemendur Tónlistarskólans í heimsókn á bæjarskrifstofuna og léku nokkur jólalög.

Tónlistarmenn í heimsókn á bæjarskrifstofu.
Tónlistarmenn í heimsókn á bæjarskrifstofu.

Hangikjötsveisla Víðis.

Sl. föstudag bauð Knattspyrnufélagið Víðir styrktaraðilum og velunnurum í hangikjötsveislu í félagsheimili Víðis. Þetta er árviss viðburður þar sem Víðir þakkar fyrir sig. Fjölmenni naut hangikjötsins og var að vanda gerður góður rómur að góðgætinu.

Tónleikar í Útskálakirkju.

Sl. sunnudag voru tvennir tónleikar í Útskálakirkju. Annarsvegar jólatónleikar á vegum kirkjunnar og um kvöldið voru styrktartónleikar Hollvina Unu. Fram komu ýmsir góðir listamenn á báðum tónleikunum, sem voru vel sóttir. Þá voru veitt verðlaun í ljóðasamkeppni Hollvina Unu. Fyrstu verðlaun hlaut Amelía Björk Davíðsdóttir, 12 ára nemandi við Gerðaskóla.

Jólatónleikar Tónlistarskólans.

Tónlistarskólinn í Garði hélt árvissa jólatónleika í Miðgarði í Gerðaskóla í vikunni. Það var ánægjulegt að hlýða á tónlist nemendanna og gaman að sjá hve góðum árangri tónlistarskólinn er að skila inn í tónlistarlífið í Garði. Fram komu nemendur á öllum aldri og af öllum stigum tónlistarnámsins. Leikið var á margskonar hljóðfæri og einnig hljómaði ljúfur söngur.

Jólatónleikar Tónlistarskólans
Jólatónleikar Tónlistarskólans

Ferskir vindar.

Listahátíðin Ferskir vindar hófst í vikunni. Fyrstu listamennirnir komu í Garðinn í byrjun vikunnar og nú er listsköpun þeirra hafin af fullum krafti. Það verður fróðlegt að fylgjast með listamönnunum að störfum á næstu vikum, en sýningar verða í byrjun janúar. Upplýsingar um listahátíðina má nálgast á heimasíðu Ferskra vinda, fresh-winds.com.

Skötuveisla Víðis.

Það er hefð fyrir því að Unglingaráð Víðis bjóði upp á skötuveislu rétt fyrir jólin. Í hádeginu í dag, föstudag mætti fjöldi manns í skötuveisluna í Samkomuhúsinu. Veisluhöldum verður fram haldið í kvöld. Skatan var ljúffeng og góð stemmning var meðal veislugesta.

Jólafrí.

Nú fara Molar í jólafrí, þar með eru þessir vikumolar þeir síðustu á þessu ári. Ég óska öllum gleðilegra hátíða, bæði um jól og áramót. Næstu vikumolar koma á nýju ári.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail