50. vika 2015.

Óveðrið og björgunarsveitirnar.

Eins og alkunna er gekk mikið óveður yfir landið í byrjun vikunnar. Garðurinn slapp sem betur fer vel frá óveðrinu, versta veðrið náði ekki til okkar.

Íslensku björgunarsveitirnar eru einstakar og við búum vel að því eiga jafn öfluga sveit björgunarsveitafólks og raun ber vitni. Það er líka einstakt að þvílíkur fjöldi fólks sé tilbúinn til að leggja af mörkum þá miklu vinnu og oft hættulega, sem björgunarsveitarfólk gerir á Íslandi, allt í sjálfboðavinnu. Við í Garðinum búum svo vel að eiga okkar björgunarsveit, en félagar í Björgunarsveitinni Ægi í Garði stóðu vaktina meðan þurfa þótti. Það vekur öryggistilfinningu að vita af björgunarsveitarfólki á vaktinni við svona aðstæður, fyrir það er þakkað af heilum hug.

Merki Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði
Merki Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði

Bókasafnið.

Við búum vel að góðu bókasafni í Garði. Í bókasafninu er mikið af góðum bókum sem höfða til allra hópa. Þessa dagana kemur hluti af jólabókaflóðinu í bókasafnið í Garði og eru Garðbúar hvattir til þess að nýta sér góða þjónustu bókasafnsins, leigja sér bók og leggjast í lestur.

Tónleikar Hollvina Unu í Sjólyst.

Á sunnudaginn, þann 13. desember verða fjáröflunartónleikar Hollvina Unu haldnir í Útskálakirkju og hefjast kl. 20:00. Á tónleikunum koma fram góðir listamenn og aðgangseyrir rennur óskiptur til starfseminnar í Sjólyst. Bæjarstjóri hvetur garðbúa og gesti til að fjölmenna á tónleikana, njóta góðrar dagskrár og styrkja starfsemina í Sjólyst.

Ferskir vindar.

Í næstu viku hefst listahátíðin Ferskir vindar. Fjöldi erlendra listamanna mun taka þátt í hátíðinni og munu þeir fara að koma í Garðinn upp úr miðri næstu viku, hátíðin mun standa til loka janúar 2016. Að undanförnu hefur verið mikil vinna við að undirbúa komu listamannanna. Listahátíðin Ferskir vindar er í senn skemmtilegur og athyglisverður atburður sem hefur m.a. vakið mikla athygli víða erlendis. Nánari upplýsingar um hátíðina munu koma fram á næstu dögum. Framundan er mikil listaveisla í Garði.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail