49. vika 2015.

Jólaljósin tendruð á jólatrénu.

Sl. sunnudagur markaði upphaf Aðventunnar og samkvæmt hefðinni voru ljósin tendruð á jólatrénu í miðbænum þann dag. Fjöldi garðbúa og gesta var viðstaddur, enda góð og hátíðleg dagskrá. Það er hefð fyrir því að afmælisbarn dagsins tendri ljósin, að þessu sinni var það Máney Dögg Másdóttir sem var eitt af afmælisbörnum sunnudagsins. Barnakór tónlistarskólans og Gerðaskóla söng nokkur lög, sem og söngsveitin Víkingarnir. Tveir rauðklæddir og hvítskeggjaðir bræður mættu, rifjuðu upp jólalögin og skemmtu börnunum, reyndar virtust margir fullorðnir hafa gaman að og fundu barnið í sér. Aðventan er gengin í garð og jólahátíðin framundan.

Jólasveinarnir eru komnir til byggða
Jólasveinarnir eru komnir til byggða

Jólabasar kvenfélagsins.

Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar fyrsta sunnudag í Aðventu. Þar var ýmislegt fallegt í boði og var salan góð. Kvenfélagið Gefn í Garði er eins og önnur kvenfélög á Íslandi, mikilvægur hlekkur í samfélaginu.

Kvenfélagskonur kátar á jólabasar í Garði
Kvenfélagskonur kátar á jólabasar í Garði

Bærinn að klæðast búningi jólanna.

Húseigendur í Garði hafa að undanförnu komið upp jólaskreytingum og ljósum á hús sín og í garða. Það lífgar upp á bæinn og veitir ánægju.

Eitt af mörgum jólahúsum í Garði
Eitt af mörgum jólahúsum í Garði

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var síðasti fundur bæjarstjórnar á þessu ári. Aðal mál fundarins var afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Áætlunin kemur ágætlega út og ber merki um góða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Rekstrarafgangur er áætlaður 17,7 milljónir króna, fjárfestingar og framkvæmdir eru áætlaðar 65,2 milljónir. Efnahagur sveitarfélagsins er traustur og skuldir litlar. Sveitarfélagið skuldar lánastofnunum aðeins rúmar 60 milljónir og er hlutfall skulda og skuldbindinga rúmlega 40% miðað við tekjur, það hlutfall má hæst vera 150% samkvæmt lögum. Rekstur og fjármál sveitarfélagsins eru í góðum farvegi, til að fara ekki út af sporinu í þeim efnum þarf áframhaldandi aðhald í rekstri og að skynsemi ráði við ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna.

Snyrtilegasta húsið í Garði.

Undir lok sumars valdi Umhverfisnefnd Garðs Skólabraut 11 sem snyrtilegasta húsið í Garði árið 2015. Eigendur eru Theodór Guðbergsson og Jóna Hallsdóttir. Af því tilefni hefur Umhverfisnefnd afhent þeim viðurkenningu, sem er steinn skreyttur af Ástu Óskarsdóttur.

Bæjarstjóri óskar þeim Jónu og Theodór til hamingju með viðurkenninguna, með þökk fyrir að sýna frumkvæði og metnað við að viðhalda sinni eign snyrtilegri.

Jóna og Theodór með viðurkenningu fyrir snyrtilegasta húsið 2015, ásamt Brynju form. Umhverfisnefndar og Einari Friðrik hjá Umhverfis-, Skipulags-og byggingarsviði.
Jóna og Theodór með viðurkenningu fyrir snyrtilegasta húsið 2015, ásamt Brynju form. Umhverfisnefndar og Einari Friðrik hjá Umhverfis-, Skipulags-og byggingarsviði.

Hver er staðan ?

Í gær, fimmtudag boðaði Heklan, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja til fundar í Hljómahöllinni undir yfirskriftinn „Hver er staðan ?“. Þar voru flutt nokkur áhugaverð erindi um stöðu og horfur í atvinnu- og menntamálum á Suðurnesjum. Skúli Mogensen forstjóri WOW fór yfir stöðuna og framtíðarhorfur hjá sínu fyrirtæki, þar með um fyrirsjáanleg mjög aukin umsvif í flugstarfsemi og fjölgun ferðafólks á næstu árum. Þá má nefna að Kristján Hjálmarsson hjá HN markaðssamskiptum fór yfir viðhorfskönnun sem m.a. gefur til kynna hvernig ímynd Suðurnesja er. Auk þeirra voru erindi um athyglisverða starfsemi Codland í Grindavík, framboð á starfs-og verkmenntun á Suðurnesjum, ásamt því að fjallað var um upplifun gesta og mikilvægi mannauðs, ekki síst í ferðaþjónustu.

Það er deginum ljósara að ef litið er til erindis Skúla, þá eru Suðurnesin í dauðafæri hvað varðar ferðaþjónustu og aukin umsvif í atvinnustarfsemi. Helsta áhættan í þeim efnum er að nýta ekki tækifærin og trompin sem við höfum á hendi. Lykilatriði í því er samstaða og samvinna, bæði innan Suðurnesja og hjá stjórnvöldum. Erindi Skúla var athyglisvert og í því fólst áskorun á alla aðila um að vinna saman að því að spila rétt úr trompunum. Þá er einnig ljóst af erindi Kristjáns að við eigum verk að vinna við að bæta ímynd Suðurnesja og kveikja áhuga fólks á því að horfa til Suðurnesja með atvinnu og búsetu. Þar virðist helst vanta upp á fræðslu um ágæti svæðisins og þeirra tækifæra sem hér liggja. Það er sannarlega verk að vinna, við höfum trompin á hendi og áskorunin felst í að nota þau rétt.

Veðrið.

Um miðja vikuna gerði áhlaupsveður, með þónokkurri snjókomu. Snjókoman hélt áfram og ekki hefur oft verið jafn mikill snjór í Garðinum undanfarin ár og nú í upphafi Aðventu. Snjórin skapar ákveðna stemmningu á Aðventunni, en hin hliðin snýr að erfiðri færð og snjómokstri. Svona er Ísland og á þessum árstíma má að sjálfsögðu alltaf búast við svona veðurfari. Veðurspáin fyrir daginn í dag og á morgun er ekki góð, molar hvetja landann til að fylgjast vel með veðurspám og fara varlega í umferðinni.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail