48. vika 2015.

Íbúafundur.

Sl. mánudag var haldinn íbúafundur í Gerðaskóla. Á dagskrá var kynning á fjárhagsáætlun 2016 og fjárhag sveitarfélagsins. Síðari hluti fundarins var kynning á hugmyndum og áformum um uppbyggingu ferðaþjónustu á Garðskaga. Fundurinn var vel sóttur af um 50 fundarmönnum og fóru fram góðar og uppbyggilegar umræður um málefni sveitarfélagsins.

Nokkrir fundarmenn á íbúafundi 23.11.2015
Nokkrir fundarmenn á íbúafundi 23.11.2015

Bæjarráðsfundur.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði og var aðalefni fundarins fjárhagsáætlun 2016. Bæjarráð samþykkti gjaldskrá og ýmsar ráðstafanir í tengslum við fjárhagsáætlunina, auk þess að vísa fjárhagsáætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn í næstu viku.  Niðurstöður fjárhagsáætlunar eru ágætar og munu Molar fara nánar yfir það eftir að bæjarstjórn hefur afgreitt fjárhagsáætlunina. Fjárhagur og rekstur sveitarfélagsins er í góðu horfi.

Auk fjárhagsáætlunar fjallaði bæjarráð um samkomulag við væntanlega rekstraraðila ferðaþjónustu á Garðskaga og var bæjarstjóra veitt heimild til þess að ganga frá því samkomulagi fyrir hönd sveitarfélagsins. Spennandi verkefni framundan á Garðskaga.

Sjónvarpsviðtal við Víkurfréttir.

Sjónvarp Víkurfrétta tók viðtal við bæjarstjórann í vikunni og var það sýnt í gærkvöldi á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Umræðuefnið var uppbygging ferðaþjónustu á Garðskaga. Þar eru spennandi hlutir á ferðinni og vonandi mun það allt saman ganga upp, enda sækir mikill fjöldi ferðamanna Garðskaga heim á hverju ári og þá ekki síst yfir vetrartímann. Norðurljósin eru eitt megin aðdráttaraflið yfir veturinn, enda er Garðskagi einn besti staður landsins til að njóta norðurljósa. Garðurinn er bær norðurljósanna.

Þessa mögnuðu mynd tók Jóhann Ísberg af norðurljósum yfir Garðskaga, en Jóhann er einn þeirra sem vinna að uppbyggingu ferðaþjónustu á Garðskaga.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Kveikt á jólatré á sunnudaginn.

Næsta sunnudag verður kveikt á jólatrénu, með tilheyrandi dagskrá. Þessi atburður er fastur liður í upphafi Aðventu og markar upphaf jólastemmningar í Garði. Hefð er fyrir því að afmælisbörn dagsins kveiki á jólaljósunum á jólatrénu. Nánar má sjá dagskrá á heimasíðunni svgardur.is. Bæjarstjóri hvetur garðbúa til að fjölmenna, njóta samveru og þeirrar dagskrár sem í boði verður.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail