47. vika 2015.

Heimsókn í Nesfisk

Bæjarstjórn og bæjarstjóri heimsóttu hið myndarlega og öfluga sjávarútvegsfyrirtæki Nesfisk í vikunni. Stjórnendur fyrirtækisins tóku vel á móti gestunum, kynntu starfsemina og leiddu gestina um fyrirtækið. Nesfiskur er vel rekið fyrirtæki og í hópi stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Starfsmenn eru vel á fjórða hundrað, sjómenn og landverkafólk og fyrirtækið er með vinnslu á þremur stöðum, í Sandgerði og Hvammstanga auk Garðsins. Nesfiskur hefur á undanförnum árum byggt upp glæsilega aðstöðu í Garði, sem er fyrirtækinu til mikils sóma. Bæjarstjóri þakkar fyrir góðar móttökur og áhugaverða kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Bæjarstjórn hyggur á fleiri heimsóknir til fyrirtækja í Garði á næstunni, enda er mikilvægt að bæjaryfirvöld séu í góðu sambandi við atvinnulífið í sveitarfélaginu.

Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði
Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði

Fjárhagsáætlun og íbúafundur.

Nú er verið að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun næsta árs. Bæjarstjórn mun afgreiða fjárhagsáætlunina við síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi 2. desember. Nk. mánudag verður íbúafundur í Gerðaskóla þar sem farið verður yfir fjárhag og áætlanir sveitarfélagsins. Á íbúafundinum verða einnig kynntar hugmyndir og áform um starfsemi og rekstur ferðaþjónustu á Garðskaga. Bæjarstjóri hvetur garðbúa til að mæta á íbúafundinn og ræða málefni sveitarfélagsins.

Veðrið.

Haustið hefur verið þokkalegt, en þó með talsverðum rigningum. Nú síðustu daga hefur kólnað aðeins í veðri og þegar þessar línur eru skrifaðar er lítilsháttar snjókoma í Garðinum, rétt til þess að lita jörðina hvíta. Þrátt fyrir allt hefur veðrið verið ágætt að undanförnu og vonandi heldur það áfram á næstunni.

Facebooktwittergoogle_plusmail