46. vika 2015.

Mikið um að vera í Auðarstofu.

Í Auðarstofu fer fram félagsstarf fyrir garðbúa sem náð hafa 60 ára aldri, í myndarlegu og góðu húsnæði í eigu sveitarfélagsins. Þar er jafnan mikið um að vera, vel mætt og þátttaka í starfinu er góð. Þann 28. október sl. var haldin mikil sviðaveisla þar sem þeir sem mættu klæddust bleikum litum og margir höfðu hatta á höfði.  Þá var handavinnusýning og vöfflukaffi fyrir stuttu, þar sem mættu um 200 gestir og vöfflur voru borðaðar af um 120 manns.

Það er ánægjulegt hve kröftugt og uppbyggilegt starf á sér stað í Auðarstofu.

Sviðaveisla í Auðarstofu
Sviðaveisla í Auðarstofu
Hópurinn í sviðaveislunni í Auðarstofu.
Hópurinn í sviðaveislunni í Auðarstofu.

Norræn bókasafnavika.

Bókasafnið í Garði og Norræna félagið í Garði standa saman að þátttöku í Norrænni bókasafnaviku þessa vikuna. Þema vikunnar er vinátta. Á skólabókasafninu hefur þessa vikuna verið kynning á norrænum barna-og unglingabókum, ásamt því að lesið hefur verið úr völdum bókum. Í gær, fimmtudag las Hrafn A Harðarson bókasafnsfræðingur upp úr Íslendingasögunum.

Vakin er athygli á því að í bókasafninu í Garði eru til fjölmargar bækur eftir norræna höfunda fyrir bæði börn og fullorðna. Garðbúar eru hvattir til þess að kynna sér þær og njóta þess að lesa norrænar bókmenntir.

Fjölskyldu og menningarvika.

Í síðustu viku stóð yfir Fjölskyldu-og menningarvika í Garði, þetta var í fyrsta skipti sem slík dagskrá hefur verið í Garði. Fjölmargt áhugavert var á dagskrá vikunnar og var þátttaka ágæt. Eftir reynsluna af síðustu viku má gera ráð fyrir að Fjölskyldu-og menningarvika verði endurtekin á næsta ári. Bæjarstjórinn þakkar öllum þeim sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd dagskrárinnar fyrir vel unnin störf.

Körfuboltaæfingar fyrir börn.

Þau Bára Bragadóttir og Óli Garðar Axelsson áttu frumkvæði að því að hefja körfuboltaæfingar fyrir börn í 3.-6. bekk grunnskólans. Fyrstu æfingar voru fyrir nokkrum dögum og er aðsóknin mjög góð. Hver veit nema framtíðar körfuboltastjörnur séu að stíga sín fyrstu skref í íþróttahúsinu í Garði þessa dagana. Bæjarstjórinn þakkar þeim Báru og Óla fyrir frumkvæðið og vonast til að æfingar gangi vel.

Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Bára og Óli Garðara körfuboltafrömuðir.
Bára og Óli Garðar körfuboltafrömuðir.

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og rammaáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal lokið við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 15.desember. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins verður afgreidd eftir síðari umræðu í bæjarstjórn 2.desember. Eftir hagræðingaraðgerðir síðustu tvö ár er ágætt útlit fyrir viðunandi niðurstöðu áætlunarinnar.

Tekjur af útsvari er einn mikilvægasti tekjustofn sveitarfélagsins og hafa útsvarstekjur vaxið nokkuð á þessu ári og gera má ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári. Í fjárhagsáætlun ársins 2015 voru tekjur af útsvari áætlaðar um 530,5 milljónir króna, í útkomuspá fyrir árið 2015 er áætlað að útsvarstekjur verði um 561,6 milljónir. Í áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga er gert ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins verði um 608,7 milljónir króna árið 2016.  Áætlaðar útsvarstekjur eru því 8,9% meiri í áætlun fyrir árið 2016 en gert er ráð fyrir að verði árið 2015.  Þessi þróun er ánægjuleg og er nokkuð í takti við jákvæða þróun í atvinnumálum á Suðurnesjum.

Bæjarstjórn mun boða til íbúafundar mánudaginn 23. nóvember kl. 20:00 í Miðgarði í Gerðaskóla, þar sem farið verður yfir fjárhag og fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár.

Herrakvöld Víðis.

Karlar fjölmenntu á herrakvöld Víðis sl. laugardagskvöld. Kvöldið tókst vel, góð mæting og mikil gleði. Ekki hefur tekist að nálgast myndir af herrakvöldinu til birtingar, hvort sem það er vegna þess að þær þyki ekki birtingarhæfar eða hvort yfir höfuð hafi ekki verið teknar neinar myndir. Hvað sem því líður þá er mikilvægt fyrir Víðir að herrakvöldið tókst vel og að félagið hafi náð að safna einhverjum aurum til rekstrar félagsins.

Veðrið.

Veðrið í haust hefur að miklu leyti verið ágætt, en þó hefur tíðin einkennst af rigningum. Nú er einhver breyting að verða, hitastig fer lækkandi og vart hefur orðið við snjókomu, él og ísaðar götur, sem má telja eðlilegt miðað við hve stutt er til Jóla !

 

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail