45. vika 2015.

Fjölskyldu-og menningarvika í Garði.

Þessi vika hefur einkennst af dagskrá fjölskyldu-og menningarviku í Garðinum. Daglegir viðburðir hafa verið á dagskránni og hefur aðsókn verið ágæt. Dagskránni lýkur á sunnudaginn með bíósýningu í Samkomuhúsinu, þar sem myndin Bíódagar verður sýnd. Dagskrá vikunnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Fjölskyldu-og menningarvikan er haldin að frumkvæði Ferða-, safna-og menningarnefndar Garðs, sem annaðist undirbúning og skipulagningu dagskrár. Þetta er í fyrsta skipti sem slík dagskrá er skipulögð í Garðinum, en þess má vænta að þetta verði fastur liður í Garðinum á næstu árum.

Fundur í bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Að venju samanstóð dagskrá fundarins að mestu af fundargerðum bæjarráðs og nefnda sveitarfélagsins, ásamt fundargerðum nefnda og stjórna af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Á fundinum í þessari viku var fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2016, en áætlunin verður til frekari vinnslu fram að síðari umræðu í bæjarstjórn í byrjun desember. Þegar þar að kemur verður gerð nánari grein fyrir fjárhagsáætlun hér í molum.

Hrekkjavökudiskó.

Við íslendingar erum oft opin fyrir nýjum siðum og förum gjarnan alla leið í þeim efnum. Færst hefur í vöxt að gera æ meira úr hinni amerísku „Hrekkjavöku“, sem löng hefð er fyrir í USA en Molar hafa ekki þekkingu á að útskýra hvað gengur út á og af hverju. Í síðustu viku var haldið hrekkjavökudiskó í Félagsmiðstöðinni Eldingu, þar sem nemendur 1. – 6. bekkjar Gerðaskóla mættu í gervi ýmissa kynjavera, dönsuðu og léku sér. Þetta var hin mesta og besta skemmtun fyrir krakkana og ekki síður fyrir foreldra og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar. Ekki fer sögum af því hvernig börnin sváfu um nóttina, eftir að hafa mætt alls konar misjafnlega ógnvekjandi verum á diskóinu !

Hér að neðan eru myndir af „Hrekkjavökudiskó“ í Eldingunni.

Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Ógnvekjandi verur á hrekkjavöku í Eldingu
Ógnvekjandi verur á hrekkjavöku í Eldingu
Ekki væri gott að mæta þessum í myrkri í Garðinum !
Ekki væri gott að mæta þessum í myrkri í Garðinum !

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail