42. vika 2015.

Afmæli í dag.

Í dag á Íþróttamiðstöðin í Garði afmæli. Íþróttamiðstöðin var vígð og tekin í notkun þann 16. október 1993 og á því 22 ára afmæli í dag. Til hamingju með það Garðbúar og starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar !

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Eitt af hlutverkum bæjarráðs er að fjalla um fjármál sveitarfélagsins og fjárhagsáætlun, eftirlitshlutverk bæjarráðs er mikilvægt í þeim efnum. Á þessum fundi var fjallað um framgang fjárhagsáætlunar þessa árs, ásamt því að fjallað var um málefni sem tengjast fjárhagsáætlun næsta árs, sem er í vinnslu um þessar mundir. Meðal mála sem voru á dagskrá bæjarráðs voru málefni flóttamanna, en stjórnvöld hafa leitað til sveitarfélaga í landinu varðandi móttöku flóttafólks. Bæjarstjóri lagði fram minnisblað um hlutverk og skyldur sveitarfélaga, ríkisins, Rauða krossins og annarra aðila varðandi móttöku flóttamanna. Bæjarstjórn mun taka málið til frekari umfjöllunar á næsta fundi. Fyrir fundinum lá einnig erindi frá unglingaráðum Víðis og Reynis, þar sem fram kemur að félögin munu sameiginlega reka starfsemi fyrir unglinga í knattspyrnu á næsta ári. Loks má nefna að fyrir bæjarráði lá erindi frá Íbúðalánasjóði, sem býður sveitarfélaginu húseignir sjóðsins til kaups. Bæjarráð fól bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga hjá sjóðnum, m.a. um það hvaða húseignir um er að ræða.

Garðskagi.

Nú er unnið að því að breyta starfsemi og þjónustu á Garðskaga. Fjölmargt ferðafólk sækir á Garðskaga á hverju ári, umferðin hefur aukist mjög allra síðustu ár og er útlit fyrir enn frekari aukningu samfara mikilli fjölgun ferðafólks sem sækir Ísland heim. Markmiðin eru að bæta aðstöðu, auka þjónustu og upplifun fyrir ferðafólk, allt í þeim tilgangi að mæta þörfum ferðafólks og skapa atvinnutækifæri í tengslum við það. Mikil undirbúningsvinna hefur staðið yfir, meðal annars samþykkti bæjarstjórn stefnumótun um þessi mál í byrjun þessa árs og hefur verið unnið eftir henni. Nánar verður gerð grein fyrir þessum málum síðar.

Af fundahöldum.

Starf bæjarstjóra einkennist að miklu leyti af alls konar fundahöldum um hin ýmsu málefni, ásamt því að mæta á fundi til þess að segja frá og kynna sitt sveitarfélag og þau verkefni sem unnið er að hverju sinni.

Nú í vikunni mættum við Ásgeir bæjarstjóri í Vogum á fund launafulltrúa sveitarfélaga á suð-vesturlandi, sem haldinn var í Eldborg í Svartsengi. Launafulltrúarnir fóru þar yfir ýmis mál á sviði launa og kjaramála sveitarfélaganna, með ýmsum sérfræðingum á því sviði. Svona yfirferð er mikilvæg, enda eru kjaramál starfsmanna sveitarfélaga margslungin og því mikilvægt fyrir launafulltrúa að hafa þau mál sem mest á hreinu. Hlutverk okkar Ásgeirs á fundinum var að kynna okkar sveitarfélög og segja frá því helsta sem unnið er að í okkar sveitarfélögum. Það var ánægjulegt að hitta þennan góða hóp og fá tækifæri til þess að kynna sveitarfélagið og segja frá því sem unnið er að í Garðinum.

Einn af fundum sem bæjarstjóri mætti á í vikunni var kynning Isavia á svokölluðu „Master Plani“ um framtíðarsýn uppbyggingar Keflavíkurflugvallar. Fjölgun farþega sem fara um flugvöllin er langt umfram bjartsýnustu spár síðustu ára. Á þessu ári munu hátt í 5 milljónir farþega fara um flugvöllinn, gera má ráð fyrir að talan fari yfir 6 milljónir árið 2016. Til samanburðar fóru rétt yfir 2 milljónir farþega um flugvöllinn árið 2010. Farþegafjöldinn á þessu ári er sá sem spáð hafði verið að yrði árið 2018. Mörgum finnast áætlanir Isavia byggja á bjartsýni, en horft er til áratuga fram í tímann og leitast við að horfa til uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað til þess að mæta þeirri þróun sem er í gangi og gera má ráð fyrir að haldi áfram í einhverri mynd inn í framtíðina. Það er til fyrirmyndar að vinna svona áætlanir og mætti gjarnan gera það á mörgum fleiri sviðum hér á landi, þar sem rýnt er til framtíðar og leitast við að meta þróun mála og mæta henni tímanlega í stað þess að þurfa að „redda“ hlutunum þegar tiltekið ástand hefur skapast.

Íbúaþróun.

Það er áhugamál margra að fylgjast með íbúaþróun sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru alls 1.432 íbúar skráðir með lögheimili í byrjun þessarar viku. Til samanburðar voru 1.425 íbúar skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu þann 1. desember 2014. Íbúum hefur því fjölgað aðeins á þessu tæplega einu ári.

Kötlumót karlakóra.

Nú um helgina verður Kötlumót karlakóra haldið í Reykjanesbæ. Katla er Samband sunnlenskra karlakóra og munu karlakórar allt frá Höfn til Snæfellsness taka þátt í mótinu. Alls er áætlað að um 600 karlar munu koma saman og sameinast í kórsöng. Fjölmargir sértónleikar verða á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ en kórarnir munu sameinast í einn stóran karlakór í Atlantic Studios á Ásbrú á síðdegis á laugardaginn. Gera má ráð fyrir að jarðskjálftamælar Veðurstofunar taki kipp þegar 600 manna karlakór beitir sér af krafti í lögum á við Brennið þið vitar !  Bæjarstjóri hvetur sem flesta til að mæta á tónleika Kötlumótsins. Þess má geta að Kötlumótið í ár er haldið af Karlakór Keflavíkur, en meðal þátttakenda er Söngsveitin Víkingar sem er m.a. skipuð söngglöðum körlum úr Garðinum.

Bleikur föstudagur.

Í dag föstudag mæta margir til sinna starfa með bleikan lit í sínum fatnaði. Það er til merkis um samstöðu og þátttöku í forvarnaátaki gegn krabbameinum, sem stendur yfir þennan mánuðinn. Starfsfólkið á bæjarskrifstofunni í Garði mætti að sjálfsögðu í bleiku í morgun, við gerðum það sem er margir gera og tókum eina „selfie“ mynd í tilefni dagsins. Þetta er skemmtilegt og setur svip á tilveruna.

Bleikur föstudagur
Bleikur föstudagur

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail