41. vika 2015.

Aðalfundur SSS.

Um síðustu helgi var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Að venju voru ýmis áhugaverð og mikilvæg málefni til umfjöllunar. Á dagskrá fundarins var aðal umfjöllunarefni þjónusta við aldraða á Suðurnesjum. Fluttar voru þrjár áhugaverðar og efnislega mjög góðar framsögur, í framhaldinu unnu allir fundarmenn sameiginlega að því að draga fram helstu áhersluatriði varðandi þjónustu við aldraða. Stjórn SSS mun í framhaldi ákveða næstu skref og fylgja eftir góðri umfjöllun á fundinum, en gera má ráð fyrir að í framhaldinu verði farið í vinnu við að móta stefnu í málefninu. Á aðalfundi SSS varð mikil umræða um samstarf og samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, kveikjan að þeirri umræðu var framlag fulltrúa Reykjanesbæjar í umræðunni, sem gekk út frá fjárhagsstöðu þess sveitarfélags. Þeirri umræðu er ekki lokið og má gera ráð fyrir að hún haldi áfram í nánustu framtíð.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudaginn var reglulegur fundur í bæjarstjórn Garðs. Fundargerð bæjarráðs var til umfjöllunar, ásamt ýmsum öðrum fundargerðum nefnda og stjórna. Þar á meðal má nefna að bæjarstjórn samþykkti samhljóða tillögu að deiliskipulagi sem nær yfir nýtt svæði fyrir þjónustu-og atvinnustarfsemi í Útgarði. Þá voru tvær fundargerðir stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS) til umfjöllunar. Bæjarstjórn lagði í sameiningu fram tvær bókanir um málefni DS, sem snerust um Garðvang. Bæjarstjórn leggst gegn því að gengið verði til sölu á Garðvangi meðan unnið er að því að fá fjárheimildir hjá ríkinu til uppbyggingar Garðvangs og áframhaldandi reksturs hjúkrunarheimilis þar. Stjórn DS hafði á síðasta fundi sínum samþykkt með fjórum atkvæðum að ef ekki á að nýta Garðvang sem hjúkrunarheimili verði húsnæðið selt hið fyrsta. Fulltrúar Garðs og Sandgerðisbæjar sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Þá var á fundinum fjallað um fundargerð Heklu, Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Meðal fundargagna þess fundar var yfirlit yfir breytingar á fjölda atvinnulausra á Suðurnesjum frá apríl til september 2015. Í apríl voru alls 551 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum, en nú í september hafði þeim fækkað niður í 340 manns. Þetta er jákvæð og ánægjuleg þróun og er vonandi að enn frekar dragi úr fjölda einstaklinga sem eru á atvinnuleysisskrá á næstu mánuðum. Á þessu ári hefur orðið áþreifanleg breyting á atvinnulífinu á Suðurnesjum, þar sem að undanförnu hefur verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli á svæðinu, þar skipta mestu hin auknu umsvif á Keflavíkurflugvelli.

Bæjarstjórn og bæjarstjóri.
Bæjarstjórn og bæjarstjóri.

Gerðaskóli 147 ára.

Gerðaskóli var stofnaður þann 7. október 1872, skólinn átti því 147 ára afmæli sl. miðvikudag. Gerðaskóli er næst elsti skóli á landinu og eru Garðbúar að sjálfsögðu afar stoltir af því. Bæjarstjórinn óskar Gerðaskóla til hamingju með þennan merka áfanga.

Gerðaskóli
Gerðaskóli

Bleikur mánuður í Garði.

Eins og víða annars staðar er bleiki liturinn áberandi í Garði þennan mánuðinn. Ýmsar stofnanir bæjarins eru upplýstar með bleikum ljósum. Með þessum hætti tekur sveitarfélagið þátt í því að vekja athygli á forvörnum gegn krabbameinum og styður þannig við landsátak í þeim efnum.

Starfsfólk bæjarskrifstofa hittist.

Starfsfólk á bæjarskrifstofum fjögurra minni sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa undanfarin ár hist einu sinni á ári. Fundirnir færast milli sveitarfélaganna milli ára og í dag, föstudag, mun starfsfólkið hittast í Sandgerði. Svona hittingur er mikilvægur fyrir starfsfólkið að hittast, kynnast og bera saman bækur sínar. Við erum að mestu leyti að vinna að sambærilegum verkefnum í öllum sveitarfélögunum, starfsfólkið á ýmis samskipti um síma eða með tölvusamskiptum og því er svona hittingur mikilvægur upp á öll samskipti.

Kvennakvöld Víðis.

Í kvöld verður kvennakvöld Víðis í íþróttahúsinu í Garði. Hátt í 300 konur munu þar koma saman og skemmta sér, sem endar með þeim hápunkti að Páll Óskar stígur á stokk og er nokkuð víst að mikil stemmning verður meðal kvennanna. Kvennakvöld Víðis eru árviss viðburður, vegna aukinnar aðsóknar undanfarin ár hefur skemmtunin verið færð úr Samkomuhúsinu í Íþróttamiðstöðina. Þetta er liður í félagsstarfi Víðis, en ekki síður liður í öflugu fjáröflunarstarfi félagsins. Það er alltaf jafn ánægjulegt að upplifa þann mikla kraft sem býr í víðisfólkinu, margir einstaklingar leggja mikla sjálfboðavinnu að mörkum í þágu félagsins og samfélagsins í Garði. Það ber að þakka og er hér með gert.

Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis
Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis

 

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail