40. vika 2015.

Fundir og ráðstefnur sveitarstjórnarmanna.

Eins og fyrri molar hafa fjallað um, þá er þessi tími árs mikill annatími sveitarstjórnarmanna vegna ýmissa funda og ráðstefna.  Í síðustu viku var fjármálaráðstefna sveitarfélaga, þar sem fram komu ýmsar áhugaverðar upplýsingar varðandi fjárhag og rekstur sveitarfélaga. Þar kom meðal annars fram að rekstrarafkoma sveitarfélaga í landinu hafi verið mun lakari árið 2014 en árið áður. Þessu var öfugt farið hjá Sveitarfélaginu Garði, þar sem afkoma ársins 2014 var mun betri en árin áður. Það er hins vegar ljóst að rekstur sveitarfélaga almennt er erfiðari en var fyrir um 2-3 árum síðan og útlitið fyrir árið 2016 virðist almennt vera frekar slæmt. Þar kemur ýmislegt til, en stór áhrifavaldur í rekstri sveitarfélaganna er þróun kjaramála og launahækkanir. Vonandi tekst öllum aðilum sem koma að kjaraborðum að vinna sameiginlega úr því verkefni að koma kjaramálum í landinu í þann farveg sem leiðir til hagsbóta fyrir launafólk og þá um leið fyrir efnahagslífið almennt.

Fundir í þessari viku.

Í vikunni áttu alþingismenn kjördæmisins fund með fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn var því miður forfallaður vegna flensu og gat því ekki setið fundinn. Þessir fundir með þingmönnum eru árvissir á þessum árstíma. Fundirnir eru mikilvægir og gagnlegir, þar sem fulltrúar sveitarfélaganna upplýsa þingmennina og fara yfir helstu málefni sveitarfélaganna ásamt því að koma áherslumálum á framfæri. Ég þekki það af gamalli reynslu hvað þessir fundir eru mikilvægir fyrir þingmenn, til þess að fá ýmsar upplýsingar og eiga samræðu við sveitarstjórnarmenn um hagsmunamál sveitarfélaganna.

Nú um helgina verður aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Þar verður farið yfir sameiginleg verkefni sveitarfélaganna, ásamt því að fjallað verður um hin ýmsu málefni sem snerta sveitarfélögin á svæðinu.

Góðir gestir.

Um síðustu helgi komu góðir gestir í heimsókn í Garðinn. Þar var á ferð hópur leiðsögumanna í haustferð Félags leiðsögumanna, undir forystu Ásgeirs bæjarstjóra í Vogum. Við tókum á móti hópnum í byggðasafninu á Garðskaga, gáfum kaffisopa um borð í Hólmsteini og síðan fór hópurinn í vitann og hlýddi á söng Unu Maríu Bergmann. Það voru ánægðir gestir sem yfirgáfu Garðinn og ekki síður vorum við heimafólk ánægð að fá góða gesti í heimsókn.

Veðrið.

Þegar þetta er skrifað glymur fyrsta haglél haustsins á glugga bæjarstjórans. Þessi éljagusa stóð reyndar stutt yfir, en minnti á að haustið stendur yfir og nú er kominn sá tími að veður kólnar og við getum átt von á alls konar veðri. Það er því komið að því að huga að búnaði bílsins, leita að sköfunni í bílskúrnum og hafa allt klárt til þess að mæta óvæntum aðstæðum í umferðinni.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail