39. vika 2015.

Hreyfivika UMFÍ.

Þessi vika hefur verið svokölluð „Hreyfivika“, sem UMFÍ stendur fyrir. Hreyfivikan hér á landi er liður í lýðheilsuverkefni sem fer fram um alla Evrópu þessa vikuna. Einn af viðburðum hreyfivikunnar er sundkeppni milli sveitarfélaga, sem felst í því að sem flestir íbúar hvers sveitarfélags taki þátt og syndi sem oftast og mest. Í daglegu morgunsundi hefur bæjarstjóri orðið var við góða þátttöku garðbúa í sundkeppninni og vonandi heldur það áfram að þessari keppni lokinni. Sund er holl og góð hreyfing, um að gera fyrir garðbúa og gesti að notfæra sér þá frábæru aðstöðu sem boðið er upp á í Íþróttamiðstöðinni í Garði, með góðri 25 m. langri sundlaug, heitum pottum, gufubaði og rennibraut.

Vika funda og ráðstefna.

Störf bæjarstjórans þessa viku einkennast að mestu af fundahöldum. Á miðvikudag byrjaði dagurinn á ráðstefnu um málefni flóttamanna, eftir hádegið stóðu Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fyrir fundi um málefni sjávarútvegsins og seinni part miðvikudags var síðan ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst á fimmtudags morguninn og mun standa fram yfir hádegi í dag, föstudag. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga er góður og mikilvægur vettvangur til umfjöllunar um starfsemi og fjármál sveitarfélaga. Þar koma fram ýmsar upplýsingar varðandi fjármál og efnahagsmál, sem sveitarstjórnarmenn vinna með sem forsendur fyrir vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Þar fyrir utan er fjármálaráðstefnan góður vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn að hittast og bera saman bækur sínar.

Nýr starfsmaður.

Nú í byrjun vikunnar hóf Einar Friðrik Brynjarsson störf sem tæknifulltrúi og mun starfa með Jóni Ben Einarssyni Umhverfis-, skipulags-og byggingarfulltrúa. Þeir starfa báðir fyrir Sveitarfélagið Garð og Sandgerðisbæ, samkvæmt samstarfssamningi sveitarfélaganna. Einar Friðrik er boðinn velkominn til starfa.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail