38. vika 2015.

Þjóðarsáttmáli um læsi.

Í vikunni undirritaði bæjarstjóri fyrir hönd Sveitarfélagsins Garðs þjóðarsáttmála um læsi, ásamt menntamálaráðherra og fulltrúa samtakanna Heimili og skóli. Um er að ræða sameiginlegt verkefni ráðuneytisins, sveitarfélaganna í landinu og samtaka foreldra, um að bæta læsi meðal barnanna okkar. Það skiptir grundvallar máli fyrir framtíð grunnskólabarna að þau hafi góða lestrarfærni að loknum grunnskóla og miðar verkefnið að því að sem allra flestir grunnskólanemendur búi að því. Það var gaman við þetta tilefni að hitta gamlan samstarfsmann, sem nú er í hlutverki menntamálaráðherra. Það er ástæða til að hrósa honum fyrir þetta verkefni og er það hér með gert.

Jónína Magnúsdóttir formaður Skólanefndar Garðs tók þessa mynd af menntamálaráðherra, bæjarstjórum Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar, ásamt fulltrúa Heimilis og skóla, eftir undirritun þjóðarsáttmálans.

Undirritun þjóðarsáttmála um læsi.
Undirritun þjóðarsáttmála um læsi.

Lögreglan skoðar hjól leikskólabarna.

Lögreglumenn litu við á leikskólanum Gefnarborg einn daginn og yfirfóru hjól barnanna og öryggisbúnað þeirra. Þetta er árviss heimsókn lögreglunnar til barnanna, sem mælist jafnan vel fyrir. Mikil spenna fylgir því hvort lögreglumennirnir líma skoðunarmiða á hjólin, til marks um að allt sé í góðu lagi. Ekki var annað að sjá en börnin á Gefnarborg pössuðu vel upp á sín hjól og öryggisbúnaðinn, því öll fengu þau skoðunarmiða límda á hjólin sín. Þakkir til lögreglunnar fyrir að rækta góð samskipti við börnin í Garði, það er jákvætt og skiptir máli.

Bæjarstjóri fylgist með hjólaskoðun lögreglu hjá leikskólabörnum.

Bæjarstjóri fylgist með hjólaskoðun lögreglu hjá leikskólabörnum.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs. Þar var m.a. fjallað um undirbúning vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og helstu forsendur fjárhagsáætlunar. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um að verulega hafi dregið úr fjárhagsaðstoð á þessu ári, sem er ánægjulegt þróun. Bæjarráð fjallaði um erindi frá Velferðarráðuneyti, þar sem leitað er eftir áhuga sveitarfélaga á móttöku flóttamanna. Bæjarráð ákvað að afla frekari upplýsinga um þau mál áður en endanleg afstaða verður tekin til erindis ráðuneytisins. Þá samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að sækja um byggðakvóta.

Áhrif af viðskiptabanni Rússa.

Byggðastofnun hefur birt niðurstöðu úttektar á áhrifum af viðskiptabanni Rússa gagnvart Íslandi. Viðskiptabannið hefur m.a. þau áhrif að loka fyrir sölu á makríl til Rússlands, sem hefur verið mikilvægur markaður fyrir makrílafurðir. Garður er eitt tíu sveitarfélaga sem verða hvað verst fyrir barðinu á þessu viðskiptabanni. Nesfiskur er glæsilegt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki hér í Garðinum og hefur fyrirtækið stundað veiðar og vinnslu á makríl undanfarin ár. Það hefur skapað mikla atvinnu fyrir fólkið og skapað miklar tekjur. Þá hafa margar útgerðir minni báta gert út á veiðar á makríl. Það er því augljóst að viðskiptabann Rússa hefur mikil áhrif á starfsemi Nesfisks, rekstur annarra fyrirtækja og starfsfólk þeirra.  Þar með verða hagsmunir sveitarfélagsins fyrir barðinu á þessu viðskiptabanni Rússa.

Víðir.

Nú hefur Víðir leikið síðasta leikinn á þessari leiktíð, en sl. laugardag vann Víðir góðan sigur á liði KFR.  Þar með lauk keppnistímabilinu á mikilvægan hátt, með sigri í síðasta leik. Víðir endaði um miðja deild eftir gott gengi síðari hluta tímabilsins. Endahnúturinn var svo glæsilegt lokahóf á laugardagskvöld. Það er auðheyrt að víðismenn eru þegar farnir að huga að næsta tímabili, mikill hugur í fólki og greinilega mikill metnaður að gera betur næst. Knattspyrnufélagið Víðir á stórafmæli á næsta ári, nú ættu félagarnir í Víði að setja sér það markmið að afmælisgjöfin verði að félagið vinni sigur í 3. deildinni og þar með sæti í 2. deild. Engin ástæða til annars en að setja markið hátt !

Meðan á síðasta leik Víðis stóð myndaðist fallegur regnbogi yfir Nesfiskvellinum og náði Guðmundur Sigurðsson þessari frábæru mynd af því. Ekki fer sögum af því hvort leikmenn náðu að óska sér einhvers undir regnboganum.

Það er fallegt í Garðinum !

Regnboginn yfir Víði
Regnboginn yfir Víði

Takk Víðismenn fyrir sumarið !

Veðrið og norðurljósin.

Norðanáttin hefur leikið um Garðbúa í þessari viku, með björtu veðri. Við slíkar aðstæður er oft ótrúlegt sjónarspil á himninum þegar myrkur er, þar sem norðurljósin dansa og lýsa upp. Myndina hér að neðan tók Jóhann Ísberg á þriðjudagskvöldið, þann 15. september.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail