37. vika 2015.

Ánægjuleg heimsókn.

Í gær kom hópur barna úr Gerðaskóla í heimsókn til bæjarstjórans og færðu tvær myndir að gjöf. Myndirnar höfðu þær Anita B og Heba Lind teiknað og málað, önnur af merki sveitarfélagsins og hin af gamla vitanum á Garðskaga. Það er alltaf jafn ánægjulegt að fá slíkar heimsóknir, sem ber vitni um góðan og jákvæðan hug barnanna.

Skólabörn í heimsókn hjá bæjarstjóranum.
Skólabörn í heimsókn hjá bæjarstjóranum.

Reykjanes Geopark fær vottun.

Reykjanes Geopark (Reykjanes Jarðvangur) var stofnaður fyrir þremur árum og hefur verið unnið að því síðan að Jarðvangurinn fái aðild að evrópusamtökum jarðvanga. Jarðvangurinn nær yfir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem eru jafnframt aðilar að jarðvangnum. Kötlu Jarðvangur á Suðurlandi hefur í nokkur ár verið aðili að samtökunum, fyrsti og eini íslenski jarðvangurinn. Nú hefur Reykjanes Jarðvangur fengið aðild að samtökunum og þar með fengið vottun í umhverfismálum og ferðaþjónustu fyrir Reykjanesið. Þetta er mikilvægt og ánægjulegt fyrir Suðurnesjamenn, þessi vottun opnar ýmsa möguleika m.a. fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum til markaðssetningar og kynningar. Stór hópur ferðafólks ferðast um heiminn í þeim tilgangi að heimsækja jarðvanga og nú má búast við að þessi markhópur ferðamanna muni heimsækja Suðurnesin í ríkari mæli.

Merki Reykjanes Geopark.
Merki Reykjanes Geopark.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Þetta er fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi, en bæjarráð hefur haft fullnaðarheimild til afgreiðslu mála meðan bæjarstjórn var í sumarleyfi frá því í júní. Dagskrá fundar bæjarstjórnar samanstóð að mestu af fundargerðum bæjarráðs, sem voru lagðar fram til kynningar og umræðu á fundinum. Í bókun bæjarstjórnar á fundinum er lýst ánægju með og Suðurnesjamönnum óskað til hamingju með það að Reykjanes Geopark hafi fengið aðild að European Geoparks Network. Þá samþykkti bæjarstjórn fundaáætlun bæjarstjórnar og bæjarráðs fram í maí 2016.

Norðurljósin.

Nú eru norðurljósin farin að minna á sig og við í Garðinum erum farin að sjá þau, reyndar ekki núna allra síðustu kvöld þegar hefur verið sunnan rok og rigning. Gera má ráð fyrir því að núna um miðjan september hefjist kvöldumferð langferðabifreiða út á Garðskaga, fullar af erlendum ferðamönnum sem freista þess að sjá norðurljós. Framundan er því norðurljósatímabil ferðamanna, sem mun standa fram í apríl. Það þótti með endemum þegar Einar Benediktsson vildi selja norðurljósin hér í eina tíð, sömuleiðis þótti mörgum menn vera komnir út á kostulegar brautir fyrir rúmum 10 árum þegar nokkrir aðilar fóru að hreyfa þeirri hugmynd að markaðssetja norðurljós fyrir ferðaþjónustuna. Nú eru norðurljós eitt helsta aðdráttaraflið, sem hefur átt hvað stærstan þátt í mikilli aukningu ferðamanna til Íslands yfir vetrartímann. Norðurljósin eru því orðin ein af mikilvægustu auðlindum okkar.

Gamli vitinn og norðurljósin.
Gamli vitinn og norðurljósin.

Víðir og knattspyrnan.

Um síðustu helgi fór fram nágrannaslagur Reynis og Víðis í 3. deildinni.  Mínir menn í Víði höfðu betur 3-1 og var þessi góði sigur framhald á góðu gengi Víðismanna í undanförnum leikjum. Víðir siglir lygnan sjó um miðja deildina, en síðasti leikur tímabilsins verður á morgun, laugardag. Leikurinn fer fram á Nesfiskvellinum hér í Garði og er gegn KFR, leikurinn hefst kl. 14:00 og hvetur bæjarstjóri alla Garðbúa til þess að fjölmenna á völlinn og styðja við sína menn í Víði. Annað kvöld verður síðan lokahóf hjá Víði.

Lið Þróttar í Vogum vann sér í vikunni sæti í 3. deildinni næsta sumar og mun því etja kappi við Víðir. Molarnir óska Þrótti til hamingju með góðan árangur og er Þróttur boðinn velkominn til leiks með Víði í 3. deild á næsta leiktímabili.

Veðrið.

Veðrið hefur verið hálf leiðinlegt í vikunni. Sunnan rok og rigning á köflum, en rofað hefur til á milli þar sem sólin hefur brotist gegnum skýin. Haustið er komið og því fylgir oft svona veðurfar, þótt svo haustdagar séu líka oft góðir. Vonandi njótum við góðvildar veðurguðanna á komandi vikum.

Góða helgi. 

Facebooktwittergoogle_plusmail