36. vika 2015.

Íbúafjöldi í Garði.

Íbúaþróun í sveitarfélögum er klassískt umfjöllunarefni og m.a. ein af þeim forsendum sem líta þarf til við vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Þegar þessir vikumolar eru skrifaðir eru íbúar í Sveitarfélaginu Garði alls 1.435 talsins, samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Til samanburðar var fjöldi skráðra íbúa í sveitarfélaginu þann 1. desember 2014 1.425 talsins. Þar með hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 10 manns undanfarna 9 mánuði. Íbúar sveitarfélagsins voru um 1.550 þegar flest var á árunum 2008-2009, en á tímabili síðla árs 2013 fór íbúafjöldinn niður fyrir 1.400. Það er ánægjulegt að íbúum sé að fjölga í Garði og vonandi heldur sú þróun áfram.

Samstarf með Sandgerðisbæ.

Nágrannasveitarfélögin Garður og Sandgerðisbær eiga með sér margvíslegt og gott samstarf. Einn liður í því er samstarf í Umhverfis-, skipulags-og byggingarmálum, þar sem sveitarfélögin reka sameiginlega starfsemi. Nýlega var endurnýjaður samstarfssamningur sveitarfélaganna um þessi mál, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að ráðinn verði starfsmaður til starfa með sviðstjóra, sem hefur einn sinnt öllum verkefnum þessa umfangsmikla sviðs. Nýlega var auglýst eftir umsóknum um starfið og sóttu alls 22 einstaklingar um það. Sveitarfélögin eru ánægð með þann áhuga sem fram kom með öllum þessum góðu umsóknum og þakka umsækjendum fyrir það. Ákveðið var að ráða Einar Friðrik Brynjarsson til starfa, en hann hefur m.a. menntun og reynslu á sviði umhverfismála.

Samstarfið með Sandgerðisbæ í þessum málum hefur gengið mjög vel og með endurnýjuðum samstarfssamningi verður starfið eflt með það að markmiði að auka og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, sem og styrkja starfsemi og stjórnsýslu sveitarfélaganna.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni, þar sem ýmis mál voru á dagskrá að vanda. Undirbúningur og vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár er ofarlega á verkefnalistanum um þessar mundir og verður svo fram í desember. Lista-og menningarmál tóku drjúgan hluta fundarins að þessu sinni, þar sem m.a. var samþykkt að ráðast í skráningu á listaverkum í eigu sveitarfélagsins og þannig verði til Listasafn Garðs. Mörg listaverk eru í eigu sveitarfélagsins, bæði sem afrakstur af listahátíðum Ferskra vinda en einnig hefur sveitarfélagið eignast nokkur listaverk af öðru tilefni. Þá var m.a. samþykkt að stóru og merkilegu listaverki eftir japanskan listamann, sem tók þátt í listahátíð Ferskra vinda á síðasta ári, verði í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar komið fyrir í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þessari mynd verður vel fyrir komið í skólanum, þar sem nemendur, starfsfólk og aðrir fá notið þessa einstaka verks.

Á myndinni hér að neðan, sem fengin er hjá Ferskum vindum, má sjá japanska listamanninn OZ og listaverkið BREATH, sem verður sett upp í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Á myndinni útskýrir hann listaverkið fyrir fjölda áhorfenda á listahátíðinni Ferskum vindum.

OZ útskýrir BREATH
OZ útskýrir BREATH

Lögreglan og skólabörnin.

Í síðustu molum var lögreglunni hrósað og þakkað fyrir umferðareftirlit við Gerðaskóla vegna öryggis skólabarna. Lögreglan hefur lagt sig fram um að eiga góð samskipti við skólabörn í Garði, m.a. með fræðslu og jákvæðri viðkynningu. Eitt af því sem lögreglan hefur gert er að veita börnunum fræðslu um almennt umferðaröryggi og öryggisbúnað. Nú um dagin mætti Guðmundur lögreglumaður í skólann með hjól og öryggishjálm og veitt börnunum fræðslu í tengslum við það. Guðmundur sendi molum þessa skemmtilegu mynd, sem sýnir hve ánægð börnin eru með heimsókn lögreglunnar og ekki síður er lögreglumaðurinn glaður og ánægður innan um börnin í skólanum.

Ánægðir nemendur með lögreglunni.

Ánægðir nemendur með lögreglunni.

Víðir og Reynir.

Framundan er stórleikur hjá knattspyrnuliði Víðis, þegar það mætir nágrönnunum í Reyni. Leikurinn er á morgun, laugardag, og hefst hann kl. 14:00 á heimavelli Reynis í Sandgerði. Leikurinn er mikilvægur, sérstaklega fyrir Reynir sem er í baráttu um að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Víðismenn sigla nokkuð lygnan sjó um miðja deild eftir gott gengi í undanförnum leikjum, en samkvæmt hlutarins eðli vilja bæði lið vinna þennan leik. Leikir þessara liða eru og hafa gjarnan verið nágrannaslagir af bestu gerð ! Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og hvetja Víðismenn til dáða.

Þrátt fyrir að lið Víðis og Reynis í meistaraflokki takist á af hörku, þá eiga félögin með sér gott samstarf. Félögin halda úti sameiginlegum liðum yngri flokka og hefur það samstarf gengið vel. Hér að neðan er hópur af ungum knattspyrnuköppum í búningum merktum Víði og Reyni.

Ungir liðsmenn Víðis / Reynis.
Ungir liðsmenn Víðis / Reynis.

Víkingur Ó.

Bæjarstjóri leyfir sér að fara aðeins á svig við ritstjórnarstefnu molanna, sem felst í því að fjalla eingöngu um innansveitarmál í Garði. Þar sem bæjarstjóri er fyrrverandi leikmaður knattspyrnuliðs Víkings í Ólafsvík, þá er ekki hægt að láta hjá líða að lýsa ánægju með og óska Víkingum til hamingju með glæsilegan árangur í 1. deild íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðið hefur tryggt sér sæti í efstu deild á ný og hefur jafnframt tryggt sér sigur í mótinu. Sannarlega glæsilegur árangur og ánægjulegur. Þessi árangur Víkinga í Ólafsvík hefur rifjað upp fyrir mörgum Garðubúum árangur Víðis, þegar Víðismenn léku um tíma í efstu deild og komust alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar. Góður árangur sem þessi skiptir miklu máli fyrir fólkið í viðkomandi byggðarlögum, eflir andann og skapar jákvæða ímynd. Vonandi ná Víðismenn að komast í deild bestu liða landsins áður en langt um líður !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail