35. vika 2015.

Skólastarfið hafið.

Í byrjun vikunnar mættu nemendur Gerðaskóla til náms, þar með er skólaárið hafið og allt að falla í fastar skorður í skólanum. Við upphaf skólastarfs hvert haust er mikilvægt að allir sem standa að hverjum nemanda hjálpi til við að passa upp á að engin óhöpp verði hjá börnunum á leið til og frá skólanum. Þar er umferðin efst á blaði. Það er til fyrirmyndar að lögreglan hefur þessa vikuna verið á vettvangi hvern morgun og fylgst með umferð barnanna til skólans. Lögreglan fær hrós og þakkir fyrir það.

Lögreglan með skólabörnum.
Lögreglan með skólabörnum.

Starfsemi Tónlistarskólans hófst í gær. Garðbúar búa vel að góðum tónlistarskóla og ýmsir góðir tónlistarmenn hafa numið við tónlistarskólann í Garði.

Makrílveiði og -vinnsla.

Undanfarið hefur fjöldi smábáta verið við makrílveiðar undan ströndinni við Garð, nánast uppi í landsteinum. Afli hefur almennt verið góður og makrílvinnsla hefur verið á fullum krafti hjá Nesfiski að undanförnu.  Vonandi að makríllinn komist á sína markaði, enda víða þörf fyrir góð og fyrsta flokks matvæli.

Víðir.

Lið Víðis hefur verið á mjög góðu róli í undanförnum leikjum. Þeir unnu góðan sigur á Berserkjum um síðustu helgi og næsti leikur verður gegn Völsungi á Nesfiskvellinum í Garði á morgun, laugardag kl. 14:00.  Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til að fjölmenna á völlinn og hvetja leikmenn Víðis til dáða.

Haustið nálgast.

Þegar þetta er ritað er norð-austan vindur af hafi hér í Garðinum, frekar kalsalegt. Smá sólarglenna, en auðfundið að haustið bankar upp á. Eftir frekar dapra byrjun á sumrinu hefur sumartíðin verið ágæt þetta árið og svosem engin ástæða til þess að kvarta yfir veðrinu þetta sumar þegar upp er staðið. Haustið nálgast og oft eru veður góð fram eftir haustinu, september er t.d. uppáhalds mánuður sumra. Vonandi verður veðurtíðin upp á sitt besta á komandi vikum og mánuðum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail