28. vika 2015.

Stækkun leikskólalóðar.

Nú er leikskólinn Gefnarborg kominn í sumarleyfi. Meðan á því stendur verður unnið að stækkun lóðar leikskólans, ásamt öðru viðhaldi á leikskólanum og lóðinni.

Vinnuskóli í fríi.

Þessa viku hafa ungmennin í vinnuskólanum verið í sumarfríi, hefja aftur störf nk. mánudag.  Hins vegar er ekkert frí hjá grassprettunni, grasið sprettur sem aldrei fyrr í hlýindunum og veðurblíðunni. Það verður því nóg að gera hjá vinnuskólanum næstu vikurnar við að snyrta og viðhalda bænum.

Víðir.

Víðir laut í gras í stórleiknum gegn Reyni Sandgerði í síðustu viku. Vonir bæjarstjórans um sigur Víðismanna í leiknum gengu ekki eftir, en Víðir hefur tækifæri til að hefna tapsins í síðari leiknum gegn Reyni síðar í sumar. Nú sl. þriðjudag lék Víðir við KFR á Hvolsvelli. Þar náðu Víðismenn sínum fyrsta sigri sumarsins, eru vonandi komnir á sigurbraut !  Áfram Víðir.

Bæjarstjóri í sumarleyfi.

Nú stendur tími sumarleyfa sem hæst. Bæjarstjórinn í Garði fer í sumarleyfi nú um helgina og verður meira og minna í sumarleyfi fram yfir miðjan ágúst mánuð. Þar af leiðir að Molar úr Garði fara einnig í sumarleyfi á sama tíma. Molar munu aftur birtast þegar líður á ágúst mánuð. Ég óska öllum gleðilegs sumars.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail