Hátíðarhöld í Garði.

Sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar.

Þriðjudaginn 23. júní var árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Börnin og starfsfólk leikskólans voru í hátíðarskapi, söngur og gleði með tilheyrandi andlitsmálningu og leikjum voru alls ráðandi. Foreldrar, afar og ömmur og aðrir gestir fjölmenntu í leikskólann til að gleðjast með börnunum. Börnin á leikskólanum eiga góðan vin í Uganda og átti hann 4 ára afmæli þennan dag, sumarhátíðin var ekki síst honum til heiðurs á afmælisdaginn.  Það var ánægjulegt að heimsækja leikskólann og upplifa gleðina og það góða starf sem fer fram í Gefnarborg. Þegar bæjarstjórinn mætti á staðinn tóku góðir vinir í hópi leikskólabarnanna á móti mér og minntu á heimsóknina á skrifstofu bæjarstjórans í vetur, þar sem vakin var athygli á bágbornu ástandi fótboltavallarins á leikskólalóðinni. Við skoðuðum aðstæður og ræddum hvernig væri hægt að koma fótboltavellinum í gott lag. Við skildum allir sáttir og eigum það sameiginlega markmið að aðstaða til fótboltaleikja verði í topp standi áður en langt um líður.

Lína langsokkur á Gefnarborg.
Lína langsokkur á Gefnarborg.
Sumarhátíð Gefnarborgar.
Sumarhátíð Gefnarborgar.

Sólseturshátíð.

Dagskrá Sólseturshátíðar hófst sl. mánudagskvöld, dagskrá stendur yfir alla daga vikunnar og lýkur nk. sunnudag. Hápunkturinn verður á laugardaginn með glæsilegri dagskrá á Garðskaga. Á mánudagskvöldið var vel heppnað sundlaugarpartý hjá körlum, með dýrindis veitingum og skemmtun. Á þriðjudagskvöld var enn betur sótt sundlaugarpartý hjá konum, með glæsilegum veitingum og skemmtun. Bæði partýin heppnuðust mjög vel og allir ánægðir. Við þökkum Víðisfólki fyrir okkur.

Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý konur.
Sundlaugarpartý konur.

Næstu daga heldur glæsileg hátíðardagskrá áfram. Íbúarnir eru byrjaðir að skreyta hús og götur með tilheyrandi litum og hátíðarstemmningin fer vaxandi eftir því sem líður á vikuna.

Garðbúar bjóða gesti velkomna til að njóta hátíðarhaldanna og þeirra viðburða sem eru á dagskrá. Sólseturshátíð Garðmanna hefur tekist mjög vel undanfarin ár og nú hugsa veðurguðirnir vel til okkar því veðurspáin fyrir næstu daga er einstaklega góð.

Nánari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Gróðursetning.

Á laugardaginn 27. júní kl. 11:00 verða gróðursett þrjú tré á svæðinu sunnan við sundlaugina. Tilefnið er sérstakt, en nú eru liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti árið 1980. Af því tilefni verða gróðursett tré í sveitarfélögum landsins og er verkefnið í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands.

Facebooktwittergoogle_plusmail