35. vika 2015, Sólseturshátíð.

Sólseturshátíð. 

Vikan hefur einkennst af hátíðarhöldum í Garðinum. Í síðasta mola var m.a. fjallað um sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Alla vikuna hefur verið skipulögð dagskrá Sólseturshátíðar. Á mánudaginn og þriðjudaginn voru sundlaugarpartý karla og kvenna, í umsjón Víðis. Fjallað var um þessi vel heppnuðu partý í síðasta mola. Á miðvikudaginn var boccia keppni í íþróttahúsinu og um kvöldið vel sótt og skemmtileg fróðleiksganga með ströndinni frá Unuhúsi að Meiðastöðum, undir leiðsögn Harðar Gíslasonar. Hörður er skemmtilegur leiðsögumaður sem kann að segja frá jarðfræðinni, sögunni og einstökum persónum sem búið hafa í Garðinum og sett svip á sögu Garðsins. Á miðvikudagskvöldið var einnig Sólseturshátíðarmót í golfi á golfvelli Golfklúbbs Suðurnesja í Leirunni í Garði, mótið var vel sótt og tókst vel.

Fólk á öllum aldri í Boccia.
Fólk á öllum aldri í Boccia.
Hörður Gíslason segir sögu Garðsins.
Hörður Gíslason segir sögu Garðsins.
Fjölmenn fróðleiksganga með Herði Gíslasyni.
Fjölmenn fróðleiksganga með Herði Gíslasyni.

Á fimmtudag var opnuð samsýning listamanna og hönnuða, þar sem ýmsir Garðbúar sýndu list sína og hönnun. Það er athyglisvert hve margir Garðbúar leggja stund á listir og hönnun, jafnframt ánægjulegt. Hverfaleikar voru haldnir, þar sem Garðbúar fjölmenntu, tóku þátt í ýmsum leikjum og gæddu sér á dýrindis sveppasúpu í boði Doddagrills og Skólamats. Fimmtudagskvöldið endaði á Sólseturshátíðar-spinning í nýju líkamsræktinni í íþróttamiðstöðinni. Þar var mikil mæting, vel tekið á því og mikið fjör.

Rauður hópur á Hverfaleikum 2015.
Rauður hópur.
Glaðlegur barnahópur á Hverfaleikum 2015.
Glaðlegur appelsínugulur barnahópur.
Biðröð í súpuna á Hverfaleikum 2015.
Biðröð í súpuna.
Íþrótta-og æskulýðsfulltrúinn stjórnaði Hverfaleikum 2015.
Íþrótta-og æskulýðsfulltrúinn stjórnaði Hverfaleikum 2015.

Í dag, föstudag verður dagskrá á Nesfiskvellinum, heimavelli Víðis. Ýmis skemmtiatriði og bæjarfulltrúar að grilla pylsur fyrir leik Víðis og Magna í 3. deildinni sem hefst kl. 19:00. Eftir leik verður hin vinsæla strandblak keppni á Garðskaga og síðan sundlaugarpartýi fyrir ungmenni. Miðnæturmessa verður í Útskálakirkju kl. 23:30.

Sólseturshátið nær hámarki á morgun, laugardag. Kl. 10:00 í fyrramálið verður Sólseturshátíðarhlaup frá íþróttamiðstöðinni.  Kl. 11:00 verða gróðursett tré á opna svæðinu sunnan við sundlaugina, í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands. Eftir hádegi og fram eftir kvöldi verður mikil og glæsileg dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga. Sólseturshátíð lýkur síðan á sunnudaginn. Í Gerðaskóla verður sýning á heimildamyndinni Garður hundrað ára, opið hús verður í Sjólyst og kl. 15:00 verður afmælishátíð Björgunarsveitarinnar Ægis, en á þessu ári eru liðin 80 ár frá stofnun björgunarsveitarinnar.

Nánari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar má nálgast á heimasíðunni svgardur.is

Sólsetrið á Garðskaga.

Á þessum tíma árs er mikil upplifun að vera á Garðskaga um miðnætti, þegar sólin fellur bak við fjallgarðinn á Snæfellsnesi. Það er sívinsælt myndaefni og oft er fjölmenni úti á Garðskaga á þessum tíma, sólsetrið er mikið aðdráttarafl og fólk nýtur upplifunarinnar. Veðrið þessa vikuna hefur verið eins og best gerist á þessum tíma árs og það magnar upp stemmninguna. Það er einhver óskýrð stemmning og ákveðinn sjarmi yfir Garðskaganum.

Sólsetur á Garðskaga 25. júní.
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.

Bæjarstjórinn á striga.

Ólafur Kjartansson listamaður sýnir nokkrar myndir á samsýningu listamanna í Garði. Þar á meðal er mynd af bæjarstjóranum sem Ólafur dró upp á striga. Ég er að sjálfsögðu ánægður með þetta vel unna verk Ólafs, enda hefur hann greinilega lagt sig fram um að modelið líti sem best út á striganum!

Ólafur Kjartansson, málverkið og frummyndin.
Ólafur Kjartansson, málverkið og modelið.

Veðrið.

Að þessu sinni er varla hægt að ljúka vikumolum án þess að minnast á blessað verðrið. Veðurguðirnir hafa verið okkur einstaklega hliðhollir þessa vikuna og erum við Garðbúar þakklátir fyrir það, ekki síst vegna þess hve miklu máli skiptir að veður sé gott þegar hátíðarhöld standa yfir.

Góða helgi – allir hjartanlega velkomnir á Sólseturshátíðina um helgina.

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail