25. vika 2015.

Kvenréttindadagurinn er í dag.

Í dag er dagur kvenréttinda og því fagnað að konur fengu kosningarétt fyrir 100 árum. Mörg sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki gefa starfsfólki sínu, bæði konum og körlum, frí eftir hádegi í dag til að starfsfólk geti tekið þátt í hátíðahöldum dagsins. Sveitarfélagið Garður gefur sínu starfsfólki frí eftir hádegi í dag í sama tilgangi og vonandi taka sem flestir þátt í hátíðahöldum.

Til að halda til haga fleiru sem tengist því að konur fengu kosningarétt árið 1915, þá var þessi kosningaréttur kvenna bundinn við konur 40 ára og eldri. Þá gilti alveg það sama um karla, sem voru eignalausir verkamenn og vinnumenn til sveita, sá þjóðfélagshópur hafði ekki haft kosningarétt en þeir fengu hann með sömu skilyrðum og konur árið 1915. Þá átti kosningarétturinn að færast fram um eitt ár á hverju ári, þannig að konur hefðu jafngildan kosningarétt og karlar árið 1931. Það var síðan í kjölfarið á sambandslagasamningi dana og íslendinga að konur og karlar fengu jafngildan kosningarétt árið 1920.

Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn.

Íslenski fáninn 100 ára.

Það eru ekki bara tímamót í dag varðandi kosningarétt kvenna og kvenréttindabaráttuna. Í dag eru liðin 100 ár frá því íslenski fáninn, þjóðfáninn okkar fallegi var staðfestur með konungsúrskurði þann 19. júní árið 1915. Lög um íslenska fánann voru afgreidd á Alþingi þann þann 15. júní 1944 og voru þau lög þau fyrstu sem þá nýkjörinn forseti Sveinn Björnsson staðfesti á Þingvöllum 17. júní 1944. Fáninn er krossfáni, blái liturinn táknar fjallablámann, rauði liturinn eldinn í iðrum landsins og sá hvíti ísinn á toppum þess.

Þeir íslendingar sem upplifðu þessi merku tímamót fyrir 100 árum hafa án efa verið við það að springa úr stolti, enda stór áfangi á þeirri vegferð sem náði hámarki þann 17. júní 1944. Í Garðinum var íslenski fáninn dreginn að húni í morgun, til heiðurs kvenréttindadeginum, en ekki síður í tilefni 100 ára afmælis íslenska þjóðfánans.

Íslenski fáninn

17. júní.

Eins og maðurinn sagði forðum í þjóðhátíðarræðunni, þá var 17. júní um allt land í gær ! Hátíðahöld voru með hefðbundnum hætti í Garðinum. Hátíðarmessa var í Útskálakirkju, að henni lokinni gengu kirkjugestir skrúðgöngu til Gerðaskóla með íslenska fánann í fararbroddi. Í Gerðaskóla var hátíðardagskrá og annaðist foreldrafélag barna í 10. bekk undirbúning og framkvæmd hennar. Fjölmenni var við hátíðahöldin í skólanum, þar var íslenski fáninn hylltur, fjallkonan flutti ljóð og hátíðarræða Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns. Friðrik Dór tónlistarmaður mætti og hélt uppi skemmtilegri dagskrá, sem höfðaði til allra aldurshópa og hljómsveit skipuð nemendum úr Gerðaskóla flutti sitt prógramm, efnilegir tónlistarmenn þar á ferð !  Það var ekki aðeins hátíðarbragur yfir góðri hátíðardagskránni, heldur blakti íslenski fáninn víða við hún í bænum og Garðbúar voru almennt í hátíðarskapi. Ég þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við að gera þjóðhátíðardaginn í Garði svo hátíðlegan sem raunin var.

Það er okkur mikilvægt að viðhafa hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn okkar, til þess að fagna sjálfstæði, frelsi og sjálfræði þjóðarinnar. Ekki síður til þess að viðhalda þekkingunni um liðna tíma og þá baráttu sem lengi var háð með það að markmiði að íslendingar mættu ráða sínum málum sjálfir. Vonandi berum við gæfu til þess að viðhalda því til framtíðar og við sem þjóð eigum að standa saman um að halda hátíðarblæ yfir þjóðhátíðardeginum okkar.

Við megum aldrei gleyma því að það er ekki sjálfgefið að litlar þjóðir búi við þá friðsæld og frelsi sem við njótum, ásamt því að lifa sem sjálfstæð þjóð í eigin landi. Það var draumur forfeðra okkar, sem í langan tíma börðust fyrir því að svo mætti vera og náðu að lokum þeim árangri sem okkar kynslóðir fá að njóta.

Styrkveitingar í Garðinn.

Í vikunni var tilkynnt um styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sjóðurinn vinnur að því að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun á Suðurnesjum, með því að treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni svæðisins.  Alls var úthlutað um 45 milljónum króna í 35 verkefni, á sviði menningar og lista, nýsköpunar og þróunar og í stofnstyrki.  Fimm styrkir voru veittir vegna verkefna í Garði, eða sem tengjast Garðinum.  Þar má nefna styrk til Norræna félagsins í Garði vegna Norrænna kvikmyndadaga á Suðurnesjum, styrk vegna uppsetningar ljóshúss á gamla vitann á Garðskaga og styrk til viðhalds innanhús í Sjólyst, sem er gamla húsið hennar Unu í Garði.  Þá fékk listaverkefnið Ferskir vindar hæsta styrk vegna listahátíðarinnar í Garði um næstu áramót.  Loks má nefna að Eiríkur Hermannsson hlaut styrk vegna útvarpsþátta um mannlíf og menningu á Suðurnesjum. Frekari upplýsingar um úthlutun úr Uppbyggingarsjóði má finna á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sss.is.

Styrkir frá Uppbyggingarsjóði skipta verulega miklu máli fyrir Suðurnesin og það er ánægjulegt hve mörg verkefni í Garði hlut styrki. Það er mikilvægt fyrir okkur og ber merki um dugnaðinn sem býr í Garðbúum og það góða samstarf sem við eigum við ýmsa aðila sem vilja hag Garðsins sem mestan.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Þann 17. júní var ég viðstaddur skólaslit hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), en þá luku 14 nemendur háskólanámi sem þeir höfðu stundað með fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur þennan viðburð, ánægjan skein af nemendum og starfsfólki MSS enda miklum áfanga náð. MSS sinnir mikilvægu starfi og er mikilvægur hlekkur í menntakeðjunni á Suðurnesjum. Ég óska hinum útskrifuðu nemendum og starfsfólki MSS til hamingju með áfangann.

Sólseturshátíð í næstu viku.

Nú eftir helgina hefst dagskrá Sólseturshátíðarinnar hér í Garði. Dagskrá stendur yfir alla daga vikunnar, frá mánudegi fram á sunnudag, hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 27. júní með hátíðahöldum á Garðskaga. Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til góðrar þátttöku, enda er dagskráin fjölbreytt og mikið verður um að vera. Við bjóðum gesti velkomna í Garðinn til að taka þátt með okkur og njóta þess sem boðið er upp á. Dagskrá hátíðarinnar hefur verið dreift í öll hús í Garði og mun hún einnig birtast í fjölmiðlum. Dagskráin og upplýsingar um Sólseturshátíðina er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Sólsetur við Garðskaga
Sólsetur við Garðskaga

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail