24. vika 2015.

Sumarstörfin.

Þótt enn sé frekar svalt í veðri og sumardagar með sól og hlýindum hafi varla látið sjá sig ennþá, þá eru sumarstörfin hafin. Vinnuskólinn vinnur að snyrtingu og hirðingu bæjarins, ungmennin leggja sig fram af alúð og hafa metnað fyrir því að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Margir húseigendur hafa tekið til hendi við að dytta að sínum húsum og lóðum. Það er alltaf ákveðin stemmning í upphafi sumars þegar sumarstörfin eru hafin af fullum krafti.

Vinnuskólinn fegrar bæinn.
Vinnuskólinn fegrar bæinn.
Starfsfólk vinnuskóla tilbúin til starfa.
Starfsfólk vinnuskóla tilbúin til starfa.

Landsliðsæfing í Garði.

Í gær, fimmtudag, kom U21 árs landslið Íslands í knattspyrnu í Garðinn og tók létta æfingu á Nesfiskvelli Víðis. Þetta var síðasta æfing liðsins fyrir landsleikinn gegn Makedóníu sem fram fór í gærkvöldi, en liðið er að hefja leik í undankeppni Evrópumótsins. Landsliðsþjálfarinn er að móta nýtt U21 árs landslið og eru margir leikmenn liðsins að hefja þátttöku í því liði. Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari var að sjálfsögðu mættur með liðinu, en hann lék á árum áður með Tindastóli og háði rimmur við Víðismenn í Garðinum. Gamlir leikmenn Víðis voru mættir til að fylgjast með æfingu landsliðsins og rifjuðu upp baráttuleiki við Tindastól, þegar Eyjólfur lék með Skagfirðingum. Bæjarstjórinn var að sjálfsögðu mættur á völlinn til að bjóða landsliðsmenn og föruneyti velkomna í Garðinn.

Landsliðið fékk góða strauma og innblástur í Garðinum fyrir leikinn gegn Makedóníu í gærkvöldi, því strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu öruggan sigur 3 – 0. Við þökkum strákunum í U21 landsliðinu, þjálfaranum og öðrum þeim sem fylgdu liðinu á æfinguna í Garði fyrir komuna í Garðinn. Þeir eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir aftur og geta gengið að því vísu að Víðismenn taka vel á móti þeim. Við óskum strákunum góðs gengis í baráttunni sem framundan er og vonum að þeim takist að vinna sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Bæjarstjórinn og landsliðsþjálfari U21 í Garðinum
Bæjarstjórinn og landsliðsþjálfari U21 í Garðinum

Fundur með hundaeigendum.

Í gær var fundur með hundaeigendum í Garði, sem sveitarfélagið boðaði til. Á fundinum var m.a. farið yfir reglur sem gilda um hundahald og lögð áhersla á að hundaeigendur sýni sínum hundum alúð og ábyrgð. Nokkuð hefur verið um að íbúar kvarti vegna lausra hunda og ónæðis af þeirra völdum. Allt var þetta rætt og áhersla lögð á gott samstarf hundaeigenda, sveitarfélagsins og þeirra sem um þessi mál halda. Fundurinn var góður og ágætlega sóttur, gagnlegar upplýsingar komu fram og hundaeigendur komu fram með ýmsar ábendingar til sveitarfélagsins.

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði og að venju voru þar ýmis mál á dagskrá. Þar má meðal annars nefna að farið var yfir rekstraryfirlit fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, ásamt greiðsluyfirliti fyrstu fimm mánuðina. Þar kom fram að framvinda rekstrar er nokkuð vel í takti við fjárhagsáætlun. Þá má nefna að samþykkt var að taka þátt í verkefni á vegum Skógræktarfélags Íslands í tilefni þess að 27. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands. Þann dag verða trjáplöntur gróðursettar um allt land, þar á meðal verða gróðursettar plöntur hér í Garðinum.

Deiliskipulag í Útgarði.

Tillaga að deiliskipulagi í Útgarði hefur verið auglýst. Um er að ræða nýtt svæði sem er ætlað fyrir þjónustustarfsemi. Nálgast má tillöguna, ásamt upplýsingum um hana á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Einnig geta íbúar fengið upplýsingar á skrifstofu sveitarfélagsins. Íbúar í Garði eru hvattir til þess að kynna sér tillöguna og koma á framfæri athugasemdum ef um það er að ræða.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail