23. vika 2015

Nýr skólastjóri Gerðaskóla.

Á fundi bæjarstjórnar sl. föstudag var samþykkt samhljóða að ráða Jóhann Gísla Geirdal Gíslason skólastjóra Gerðaskóla.  Staðan var auglýst fyrr í vor og sóttu sex umsækjendur um stöðuna.  Jóhann er ráðinn skólastjóri frá og með 1. ágúst nk. Ég býð Jóhann velkominn til starfa og vænti góðs samstarfs við hann um starfsemi Gerðaskóla.

Golfnámskeið í Gerðaskóla.

Fyrir síðustu helgi var golfnámskeið fyrir nemendur Gerðaskóla.  Námskeiðið var á vegum Golfklúbbs Suðurnesja og er liður í samstarfi GS og sveitarfélagsins, samkvæmt samningi þar um.  Leiðbeinandi var Karen Sævarsdóttir, sem er margfaldur íslandsmeistari í golfi.  Aldrei er að vita nema í hópi nemenda Gerðaskóla leynist framtíðar golfsnillingar, það er ánægjulegt og jákvætt að GS veiti ungmennum í Garði undirstöðu leiðsögn í þessari vinsælu íþrótt. Nánar er fjallað um golfnámskeiðið á heimasíðu Gerðaskóla, gerdaskoli.is.

Golfkennsla í Gerðaskóla
Golfkennsla í Gerðaskóla
Karen með nemendum Gerðaskóla
Karen með nemendum Gerðaskóla

Bæjarstjórnarfundur.

Fundur var í bæjarstjórn Garðs sl. miðvikudag. Á dagskrá var langur listi mála sem bæjarstjórn tók til umfjöllunar og afgreiðslu. Ungmennaráð mætti á fund bæjarstjórnar og fóru fulltrúar þess yfir nokkur mál sem ráðið hefur fjallað um og gert tillögur um til bæjarstjórnar. Þátttaka ungmennaráðs á fundi bæjarstjórnar var ánægjuleg og kom fram að þau ungmenni sem taka þátt í störfum ráðsins eru ánægð með þátttöku í störfum Ungmennaráðs. Þau lýstu ánægju með jákvætt samstarf við bæjarstjórn og var það gagnkvæmt af hálfu bæjarstjórnar. Meðal annara mála sem bæjarstjórn fjallaði um má nefna að samþykkt var að auglýsa tillögu um deiliskipulag í Útgarði, tillagan verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins á næstu dögum og er frestur til athugasemda fram í ágúst. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu bæjarráðs á málum sem þar hafa verið til umfjöllunar og afgreiðslu, m.a. samþykktir Almannavarnanefndar Suðurnesja, utan Grindavíkur.

Á fundi bæjarstjórnar var samþykkt að standa að stofnun og rekstri byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja. Það mál á sér alllangan aðdraganda og hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Stofnfundur verður á næstu dögum og kaus bæjarstjórn sinn fulltrúa í stjórn. Samkvæmt samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Garðs kýs bæjarstjórn fulltrúa í bæjarráð einu sinni á ári og fór það kjör fram á fundinum á miðvikudaginn.  Loks má nefna að bæjarstjórn fól bæjarráði umboð til fullnaðarafgreiðslu mála meðan bæjarstjórn fer nú í sumarleyfi, næsti fundur í bæjarstjórn verður 9. september nk.

Ungmennaráð og bæjarstjórn Garðs
Ungmennaráð og bæjarstjórn Garðs

Tímamót.

Á þessum tíma árs eru margvísleg tímamót. Í dag verða skólaslit í Gerðaskóla, nemendur ljúka þar með skólaárinu og ganga til leiks og starfs út í sumarið. Nemendur 10. bekkjar kveðja skólann sinn og þeirra bíða ný ævintýri. Eins og áður hefur komið fram hefur verið ráðinn nýr skólastjóri fyrir Gerðaskóla. Ágúst Ólason lætur af störfum sem skólastjóri eftir að hafa sinnt starfinu þetta skólaár. Jafnframt liggur fyrir að Skarphéðinn Jónsson, sem var í ársleyfi frá störfum sem skólastjóri, kemur ekki aftur til starfa sem skólastjóri. Bæjarstjórinn þakkar þeim báðum fyrir ánægjulegt samstarf og framlag þeirra til skólastarfsins. Ég óska þeim báðum gæfu og góðs gengis í framtíðinni.

Önnur tímamót má nefna, að starfsfólk vinnuskólans byrjaði að slá grasfleti nú í vikunni. Það er nokkru seinna en verið hefur undanfarin ár og er það afleiðing þess veðurfars sem ríkt hefur í vor.

Sjómannadagur og aðrar hátíðir.

Á sunnudaginn er sjómannadagurinn. Það er löng hefð fyrir því að halda sjómannadaginn hátíðlegan víða um landið og er í mörgum sjávarbæjum myndarleg dagskrá af því tilefni. Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn og óska þeim gæfu og góðs gengis í sínum mikilvægu störfum.

Stórt ættarmót verður haldið í Garðinum nú um helgina. Meiðastaðaætt mun koma saman á Garðskaga, efla kynni og styrkja ættarbönd. Meiðastaðaættin er ein af nokkrum ættum sem hafa sett svip sinn á Garðinn gegnum tíðina, meðlimir hennar hafa tekið þátt í uppbyggingu sveitarfélagsins og lagt mikið af mörkum til samfélagsins bæði í Garði og víða annars staðar. Bæjarstjórinn óskar þeim góðrar skemmtunar og ánægjulegra kynna nú um helgina í Garðinum.

Framundan er Sólseturshátíð Garðbúa. Hátíðin verður síðustu vikuna í júní. Undirbúningur er í fullum gangi og á næstu dögum verður upplýsingum um hátíðina og dagskrá hennar komið á framfæri.

Góða helgi !

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail