22. vika 2015.

Bæjarráð

Í vikunni var fundur í bæjarráði og þar voru að venju ýmis mál á dagskrá.  Á fundinn mættu góðir gestir sem kynntu hugmyndir og forsendur fyrir Fluglestinni, sem gengur út á lestarsamgöngur milli flugstöðvar og BSÍ í Reykjavík.  Þetta var áhugaverð kynning og er ljóst að verkefnið er á miklu flugi, en framundan eru ýmsar rannsóknir mikil vinna áður en fyrir liggur hvort ráðist verður í verkefnið af alvöru. Eftir að hafa kynnt mér málið lít ég ekki á þetta verkefni sem fjarlægan draum heldur virðist vera sem um raunverulegan kost geti verið að ræða.  Það mun væntanlega ráðast áður en langt um líður.

Auk fluglestarinnar var meðal annars fjallað um skýrslu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem fjallað er um „Best Practice“, eða góð viðmið. Það gengur út á ferli við undirbúning og vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga, ákvarðanatökur og eftirlit með framgangi fjárhagsáætlana.  Þá má nefna að fyrir bæjarráð voru lögð gögn er varða stofnun byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja, sem hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma.

Ungmennaráð

Eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum er starfandi Ungmennaráð í Garði. Ungmennaráð er skipað níu ungmennum, það fundar reglulega undir stjórn Guðbrandar íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Það er ánægjulegt að fylgjast með störfum Ungmennaráðs, þar sem fulltrúarnir fjalla um ýmis málefni sem tengjast þeirra hagsmunum og þau hafa sent tillögur til bæjarstjórnar í þeim anda. Ungmennaráð mætir á fundi hjá bæjarstjórn einu sinni á ári, þar sem þau gera bæjarstjórn grein fyrir sínum sjónarmiðum, en Ungmennaráð mun mæta á fund hjá bæjarstjórn í næstu viku. Þetta er góður vettvangur fyrir ungmennin, þau fá tilsögn og þjálfun í fundarstörfum og hafa þar tækifæri til að koma sínum áhugamálum á framfæri við bæjarstjórn. Framtíðin mun skera úr um hvort eitthvert þeirra sem taka þátt í störfum ungmennaráðs muni taka þátt í stjórnmálum, kannski leynist framtíðar stjórnmálamaður eða -kona í þeirra hópi.

Vinnuskólinn er byrjaður

Að venju heldur sveitarfélagið úti vinnuskóla fyrir ungmenni í sumar. Auglýst var eftir þátttöku fyrr í vor, en nú ber svo við að eftirspurn eftir störfum í vinnuskólanum er mun minni en verið hefur undanfarin ár. Ástæðan er sú að ungmenni eiga nú mun meiri möguleika á störfum í atvinnulífinu og er það að sjálfsögðu á sinn hátt jákvæð þróun, þótt svo að það þýði að minni starfskraftur verði hjá vinnuskóla sveitarfélagsins. Flokkstjórar og ungmenni á framhaldsskólaaldri sem munu starfa hjá sveitarfélaginu í sumar hófu störf í vikunni, við að snyrta og fegra bæinn. Undanfarin ár hefur sláttur á grassvæðum hafist á þessum tíma árs, en nú ber svo við að grasspretta er lítil og því er sláttur ekki hafinn.  Vinnuskólinn er mikilvægur þáttur í starfsemi sveitarfélagsins og ber hitann og þungann af því að halda bænum snyrtilegum.  Það er á sama hátt ánægjulegt fyrir sveitarfélagið að eiga samstarf við ungmennin í vinnuskólanum og taka þannig þátt í uppeldi þeirra.

Sláttugengi í vinnuskólanum 2014.
Sláttugengi í vinnuskólanum 2014.

Krakkasumarið 2015

Íþrótta-og æskulýðsfulltrúi hefur skipulagt Krakkasumarið 2015 í Garði.  Þar er um að ræða ýmis sumarnámskeið sem eru í boði fyrir börn í Garðinum.  Upplýsingum um námskeiðin hefur verið dreift í öll hús og verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Foreldrar eru hvattir til þess að nýta sér þessa þjónustu og beina börnum sínum til þátttöku í námskeiðunum.

Sumarnámskeið 2014, kofabyggð
Sumarnámskeið 2014, kofabyggð

Jarðvangsvika

Þessa vikuna hefur staðið yfir svonefnd Jarðvangsvika. Reykjanes jarðvangur skipulagði dagskrá í samstarfi við ýmsa aðila þessa vikuna og lýkur henni á morgun, laugardag með gönguferð um Ásbrú og hefst hún kl. 10:00 í Eldey frumkvöðlasetri. Reykjanes jarðvangur var stofnaður árið 2012 og vinnur m.a. að því að auka þekkingu íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans.  Allar nánari upplýsingar um jarðvanginn má finna á vefsíðunni reykjanesgeopark.is.

Heklan

Heklan er atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og ýmissa aðila á Suðurnesjum sem vinna að atvinnumálum, þar á meðal eru Ferðamálasamtök Suðurnesja.  Stjórn Heklunnar fundar reglulega og fjallar um atvinnumál á svæðinu, með það að markmiði að efla atvinnulíf og fjölga störfum. Fundur er í stjórn Heklunnar í dag, föstudag og þar eru ýmis áhugaverð og mikilvæg mál á dagskrá sem falla að þeim markmiðum sem Heklan vinnur að.

Víðir

Víðismenn eru að komast á flug í deildarkeppninni í knattspyrnu. Þeir eru farnir að safna stigum og gerðu jafntefli við Einherja í hörkuleik sl. mánudag, en það var fyrsti heimaleikur liðsins á leiktímabilinu. Bæjarstjórinn hefur fulla trú á því að Víðir muni þegar á líður tímabilið blanda sér í toppbaráttuna í deildinni, liðið lék ágætlega í leiknum á mánudaginn og sýndi góða baráttu, sem löngum hefur einkennt Víðir. Garðbúar standa þétt við bakið á sínu liði og munu veita því góðan stuðning í leikjum liðsins í sumar.  Áfram Víðir !

Veðrið

Eins og fram hefur komið er óvenju kalt í veðri þennan maí mánuð, sem nú er að renna sitt skeið. Við höfum fundið fyrir því, hvar sem er á landinu. Það er ennþá rólegt yfir öllum gróðri og grasspretta er með minna móti vegna kuldans. Fyrir ekki svo löngu héldum við að sumarið væri komið með þokkalegum hlýindum, við erum greinilega ekki í miklu uppáhaldi hjá veðurguðunum um þessar mundir en lifum í þeirri vona að það fari nú að breytast !

Góða helgi

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail