21. vika 2015.

Bæjarráð í vikunni.

Í vikunni var fundur í bæjarráði og voru ýmis mál á dagskrá að venju.  Af mörgum málum sem voru á dagskrá má meðal annars nefna að fjallað var um hundahald í Garðinum og var ákveðið að leita eftir samstarfi við hundaeigendur í bænum um þeirra málefni, en talsvert hefur verið kvartað undan því að hundar gangi lausir og að íbúar verði fyrir ónæði af völdum hunda. Hagsmunir hundaeigenda, bæjaryfirvalda og íbúa fara saman hvað það varðar að allir séu sáttir við ástand mála. Bæjarráð samþykkti drög að samþykktum fyrir Almannavarnanefnd Suðurnesja og á fundinum voru lagðar fram upplýsingar um fjölda einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins, en umfang þess er heldur minna fyrstu mánuði þessa árs en á sama tíma á síðasta ári, sem er ánægjuleg þróun.  Loks má nefna að bæjarráð samþykkti samning við Ferska vinda um næstu listahátíð, sem verður kringum næstu áramót.

Bæjarráð fær af og til gesti á sína fundi.  Á fundinn í vikunni komu góðir gestir, en fulltrúar í Öldungaráði Suðurnesja mættu og fór fram góð og gagnleg umræða um málefni aldraðra í Garði.  Bar þar hæst málefni Garðvangs, en aldraðir hafa lagt mikla áherslu á að í Garðvangi verði á ný rekin hjúkrunarþjónusta við aldraða.  Þá kom fram að aldraðir eru ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir þeim, en á fundinum var rætt um ýmislegt sem mætti gera til þess að gera góða þjónustu enn betri.  Það er mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að eiga gott samstarf við aldraða um þeirra málefni.

Búmenn.

Ég varð var við að það vakti athygli einhverra að sjá bæjarstjórann í Garði í sjónvarpsfréttum í vikunni, þegar fjallað var um fund sem haldinn var um málefni búseturétthafa í Búmönnum.  Það er rétt að veita hér skýringar á því af hverju bæjarstjórinn mætti á þennan fund. Hópur búseturétthafa boðaði til fundar um stöðu mála hjá þeim og buðu þeir sveitarstjórnarmönnum í nokkrum sveitarfélögum til fundarins. Bæjarstjórinn í Garði mætti á fundinn fyrir hönd sveitarstjórnarmanna í Garði, en í Garðinum er nokkur fjöldi íbúða Búmanna.  Það er ljóst að fjárhagsleg staða Búmanna er erfið, en á umræddum fundi var m.a. farið yfir stöðuna og sagt frá því verkefni að vinna sem best úr erfiðri stöðu mála.  Vonandi tekst vel til með það verkefni, ekki síst þar sem um mikla fjárhagslega hagsmuni er að ræða fyrir þá einstaklinga sem eru búseturétthafar í félaginu.

Sólseturshátíð.

Nú styttist óðum í Sólseturshátíð Garðbúa, sem mun standa yfir síðustu vikuna í júní. Framkvæmdanefndin hefur unnið ötullega að undanförnu við að undirbúa hátíðina. Laugardaginn 27. júní verður glæsileg dagskrá þar sem fram munu koma nokkrir af vinsælustu skemmtikröftum landsins. Frekari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar munu koma fram fljótlega. Knattspyrnufélagið Víðir annast undirbúning og framkvæmd Sólseturshátíðarinnar, í samstarfi við ýmsa aðila þar á meðal Björgunarsveitina Ægir.  Sólseturshátíðin hefur jafnan tekist vel með góðri þáttöku heimafólks og gesta.

Víðir.

Leiktímabilið hjá mínum mönnum í Víði hefur ekki farið vel af stað.  Næsti leikur er í kvöld á Álftanesi og fyrsti heimaleikurinn verður nk. mánudag kl. 14:00 gegn Einherja. Ég leit við í Víðishúsinu eftir æfingu hjá liðinu í gærkvöldi.  Þar var góður vinur minn Þorgrímur Þráinsson mættur til þess að tala við leikmenn og hvetja til dáða. Við Þorgrímur ólumst upp í Ólafsvík og lékum saman með Víkingi fyrir nokkrum árum. Þorgrímur kann sitt fag og hans framlag hefur örugglega góð og jákvæð áhrif á liðið. Ég óska Víðismönnum góðs gengis og skora á Garðbúa að styðja vel við bakið á liðinu, m.a. með því að fjölmenna á leiki og hvetja leikmenn til dáða.

Þorgrímur Þráins hvetur Víðismenn til dáða.
Þorgrímur Þráins hvetur Víðismenn til dáða.

Sumarblíða.

Þegar þetta er skrifað er sumarblíða í Garðinum.  Sól og logn, hitastigið mætti vera hærra en það stendur til bóta. Það er alltaf jafn áhugavert að upplifa hvað veðurfarið hefur mikil áhrif á mannlífið, á svona góðviðrisdögum eru fleiri með bros á vör en alla jafna !

Hvítasunnuhelgin framundan.

Það er rétt að halda því til haga hvað Hvítasunnan merkir.  Hvítasunnan er stofndagur kirkjunnar og á hinni fyrstu hvítasunnuhátíð kom heilagur andi yfir postula Krists og þeir töluðu tungum framandi þjóða.  Hvítasunna er þriðja stórhátíð kristninnar og með henni lýkur pákatímanum.  Margt fleira má segja um Hvítasunnu, en á síðari tímum hefur hvítasunnuhelgin verið ein fyrsta stóra umferðarhelgin hér á landi á hverju sumri.  Margir nota tækifærið til þess að ferðast um landið og heimsækja ættingja og vini.  Þá hefur til skamms tíma verið hefð víða um land að halda fermingar um Hvítasunnu, en eitthvað hefur það breyst á undanförnum árum.  Ég hvet alla ferðalanga til þess að fara varlega í umferðinni, nú sem ávallt.

Góða helgi ! 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail