20. vika 2015.

Vorhátíð Gerðaskóla.

Það er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk Gerðaskóla haldi vorhátíð á þessum tíma árs.  Vorhátíð skólans var haldin í gær, Uppstigningardag. Mikið var um að vera í skólanum, ýmsir leikir og uppákomur ásamt fjáröflun fyrir nokkra bekki skólans. Mikil og góð mæting var í skólanum í gær og allir skemmtu sér vel. Það er mikið um að vera hjá nemendum skólans núna undir lok skólaársins og það var ánægjulegt að sjá hve nemendur tóku almennt virkan þátt. Meðal þess sem var á dagskrá var að nokkrar hljómsveitir skipaðar nemendum í tónlistarskólanum komu fram og léku nokkur lög. Bæjarstjóranum þótti gaman að hlusta á þessa tónlistarmenn, sem eru margir að taka sín fyrstu skref í poppinu og eru efnilegir.  Það minnti á gamla daga frá unglingsárum bæjarstjórans, þegar við nokkrir félagar vorum að stíga okkar fyrstu skref í bransanum og fengum ýmis tækifæri til að koma fram. Það að halda vorhátíð skólans á þennan hátt er mikilvægt fyrir skólasamfélagið, þá hittast nemendur, starfsfólk skólans, foreldrar og aðrir bæjarbúar í skólanum og eiga ánægjulega samveru. Ég þakka nemendum og starfsfólki Gerðaskóla fyrir mig.

Guðmundur Sigurðsson sendi molum nokkrar myndir sem hann tók á vorhátíðinni:

Limbó í Gerðaskóla
Limbó í Gerðaskóla
Vorgleði í Gerðaskóla.
Vorgleði í Gerðaskóla.
Efnilegt tónlistarfólk í Gerðaskóla.
Efnilegt tónlistarfólk í Gerðaskóla.

Umhverfisdagar i Garði.

Í dag, föstudag og á morgun laugardag verða umhverfisdagar í Garði.  Bæjarbúar eru hvattir til þess að taka til og hreinsa rusl af lóðum sínum og nánasta umhverfi. Starfsmenn bæjarins verða við áhaldahús til að taka á móti og aðstoða bæjarbúa við að koma rusli og úrgangi á rétta staði í þar til gerðum gámum sem eru staðsettir við áhaldahúsið. Allt er án endurgjalds og í samvinnu við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem mun taka við rusli og úrgangi sem skilað verður.  Frekari upplýsingum um umhverfisdagana var dreift í öll hús í Garði í vikunni, einnig eru nánari upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Bæjarstjóri hvetur Garðbúa til þess að taka virkan þátt í umhverfisdögum og láta til sín taka við að fegra og snyrta bæinn sinn.  „Hreinn bær, okkur kær“

Víðir 79 ára.

Í upphafi vikunnar voru liðin 79 ár frá stofnun Knattspyrnufélagsins Víðis. Ég óska Víði og víðisfólki öllu til hamingju á þessum tímamótum. Starfsemi félagsins er öflug og skiptir miklu fyrir sveitarfélagið og íbúana, margir leggja mikla sjálfboðavinnu af mörkum í þágu félagsins og bæjarbúa.  Það ber að þakka.  Fyrsti leikur knattspyrnuliðs Víðis í deildarkeppninni verður á morgun, laugardag gegn Kára og verður leikið á Akranesi. Ég óska mínum mönnum góðs gengis.

Góðir gestir komu í heimsókn.

Í síðasta vikupistli kom fram að þá stæði yfir vorfundur bæjar-og sveitarstjóra hér á Suðurnesjum. Auk fundahalda fór hópurinn í skoðunar-og kynnisferð um sveitarfélögin á Suðurnesjum. Hér í Garði fékk hópurinn kynningu á sveitarfélaginu og heimsótti m.a. Gerðaskóla, þar sem Ágúst skólastjóri sagði frá skólanum og sýndi þá frábæru og góðu aðstöðu sem skólastarfið í Gerðaskóla býr við. Í skólanum héldu nemendur í 4. og 5. bekk stutta tónleika fyrir gestina, með söng og hljóðfæraleik. Þá var farið á Garðskaga, í byggðasafnið og inn í Garðskagavita, þar sem Una María Bergmann söng fyrir hópinn. Það var mikil upplifun, ekki aðeins fyrir það hve Una María skilaði vel sínum söng, heldur einnig vegna þess hve hljómburður í vitanum er magnaður og sérstakur. Það var ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn.

Bæjar-og sveitarstjórar á mörkum Evrópu og Ameríku.
Bæjar-og sveitarstjórar á mörkum Evrópu og Ameríku.

Burtfarartónleikar í Útskálakirkju.

Sl. þriðjudagskvöld hélt Una María Bergmann mezzosópran burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði.  Tónleikarnir voru í Útskálakirkju, nánar er fjallað um þá í molum sl.  miðvikudag og er vísað til þess. Menningin blómstrar í Garðinum.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail