19. vika 2015.

Ársreikningur 2014

Á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2014 afgreiddur eftir síðari umræðu. Niðurstöður eru góðar og bera merki um að bæjarstjórn er á réttri leið með rekstur sveitarfélagsins.

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru að rekstrarniðurstaða er jákvæð um rúmlega 30 milljónir króna, sem er mun betri afkoma en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.  Ef fjárhagsáætlun ársins 2015 gengur eftir mun sveitarfélagið standast lagaákvæðið um jafnvægisreglu í árslok 2015, eða tveimur árum fyrr en ráð var fyrir gert.

Á árinu 2014 greiddi sveitarfélagið upp langtímalán að fjárhæð 236 milljónir.  Í árslok var A hluti bæjarsjóðs skuldlaus, en vaxtaberandi skuldir B hluta voru rúmar 63 milljónir.  Skuldahlutfall samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga var 28% um síðustu áramót. Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er því mjög sterk.

Sveitarfélagið hefur framkvæmt mikið á síðustu árum, árið 2014 námu fjárfestingar og framkvæmdir alls 233 milljónum.  Viðbygging við íþróttamiðstöð fyrir glæsilega líkamsræktaraðstöðu var stærsta verkefnið.  Engin lán voru tekin fyrir þessum fjárfestingum, allt fjármagnað með eigin fé sveitarfélagsins.

Í Sveitarstjórnarlögum eru ákvæði um fjármálareglur fyrir sveitarfélög.  Þar er annars vegar ákvæði um að heildarskuldir sveitarfélaga megi ekki vera meiri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum, það er ákvæði um skuldahlutfall. Hins vegar að útgjöld á hverju þriggja ára tímabili megi ekki vera meiri en tekjur, en síðara ákvæðið er svonefnd jafnvægisregla.  Sveitarfélagið Garður hefur í samstarfi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga unnið að því að uppfylla ákvæðið um jafnvægisreglu í síðasta lagi árið 2017.  Hins vegar er sveitarfélagið langt undir mörkum er varðar skuldahlutfall.

Góður árangur í rekstri sveitarfélagsins er ekki síst starfsmönnum þess að þakka, það er þeirra verkefni að fylgja eftir ákvörðunum bæjarstjórnar og það gera starfsmenn sveitarfélagsins af samviskusemi, það ber að þakka.

Vorfundur bæjarstjóra haldinn á Suðurnesjum

Bæjar-og sveitarstjórar sveitarfélaga landsins hafa um langt árabil fundað á hverju vori, þar sem farið er yfir ýmis málefni sveitarfélaganna. Nú í vikulokin kemur hópurinn saman hér á Suðurnesjum. Það eru bæjarstjórar minni sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum sem eru gestgjafar að þessu sinni.  Auk fundar um málefni verður farið með hópinn í skoðunarferðir um Suðurnes og komið við í öllum sveitarfélögunum.  Svona samkomur eru mjög góðar og gagnlegar.  Bæjar-og sveitarstjórar bera saman bækur sínar um ýmis málefni og persónuleg tengsl manna eru styrkt.  Þessi hópur á oft ýmis samskipti um margvísleg málefni og á gott samstarf í sínum störfum.  Það er ánægjulegt að taka á móti góðum gestum, ekki síst þegar sólin skín og Suðurnesin skarta sínu fegursta.

Velheppnað forvarnakvöld í Gerðaskóla

Sl. mánudag var forvarnakvöld í Gerðaskóla, á vegum félagsmiðstöðvarinnar Eldingar og Gerðaskóla.  Haldnir voru fyrirlestrar um forvarnir og voru líflegar umræður um málefnið.  Foreldrar, forsjármenn og nemendur Gerðaskóla mættu á fundinn.  Það er mikilvægt að halda uppi fræðslu og forvörnum, allt í þágu ungmenna okkar.  Dæmin sanna að allt skilar það árangri.

Auglýst eftir skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla

Ég minni á að sveitarfélagið hefur auglýst stöður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla lausar til umsókna.  Áhugasamir eru hvattir til þess að hafa samband við Hagvang, þar sem veittar eru upplýsingar og tekið við umsóknum um störfin.

Enn af veðrinu

Í síðasta vikupistli mátti skilja að ég væri efins um að sumarið væri komið, með tilvísun í veðurlýsingar.  Síðustu vikuna hefur verið sólríkt nánast alla daga, en svalur vindur af norðaustri, misjafnlega mikill.  Þetta er heldur betur allt í áttina og nú er ekki efi í huga bæjarstjórans að sumarið færist yfir og enn betri tíð er í vændum.

Bæjarstjórinn er ekki góður tippari !

Í síðasta vikupistli kom fram að þá væri framundan fyrsti leikur keppnistímabilsins hjá Víði, fyrsta umferð bikarkeppni KSÍ.  Bæjarstjórinn var alveg viss um sigur sinna manna í Víði og tippaði á það.  Ekki gekk það eftir og eru mínir menn úr leik í bikarnum.  Framundan er deildarkeppnin og Víðismenn munu örugglega leggja allt sitt af mörkum til þess að skora nógu mörg mörk til þess að ná öðru af toppsætum deildarinnar og færa sig upp um eina deild.  Ekki verður lagt í að tippa á neitt í þeim efnum, enda er bæjarstjórinn ekki góður tippari eins og dæmin sanna !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail