18. vika 2015.

Frídagur verkamanna.

Í dag er frídagur verkamanna 1. maí.  Þessi dagur hefur lengi verið dagur verkafólks og almennur frídagur.  Launafólk hefur um árabil haldið þennan dag hátíðlegan, með skrúðgöngum og skemmtanahaldi.  Í skrúðgöngum og ræðuhöldum er vakin athygli á ýmsum málum sem varða hagsmuni launafólks og almennings, þar á meðal þörf á bættum kjörum.  Nú standa yfir kjaradeilur milli launafólks og vinnuveitenda, ræðuhöld dagsins munu örugglega bera þess merki.

Ég óska verkafólki og launafólki öllu til hamingju með daginn.

Hópslysaæfing.

Í vikunni var haldin hópslysæfing í næsta nágrenni við Bláa Lónið.  Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti Almannavarnanefnd Suðurnesja að láta vinna hópslysaáætlun og nú liggja fyrir drög að henni.  Þessi æfing í vikunni var til þess að prufukeyra áætlunina, eftir hana verður unnið úr því sem þykir þurfa að lagfæra og er stefnt að því að hópslysaáætlun verði tilbúin nú í maí.  Svona áætlun hefur ekki áður verið gerð á Suðurnesjum, en unnið hefur verið eftir flugslysaáætlun sem hefur verið til í langan tíma, vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Við sem sitjum í Almannavarnanefnd fylgdumst með æfingunni.  Það var lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig allt gekk fyrir sig og vorum við mjög ánægðir með hvernig til tókst.  Alls tóku um 60 manns þátt í æfingunni, frá öllum aðgerðaraðlum á Suðurnesjum.  Lögreglan hafði yfirstjórn, auk þess komu að æfingunni slökkviliðin, björgunarsveitir á svæðinu, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Rauði krossinn.  Hópslysið sem var sviðsett átti við um 15 manns sem lentu í umferðarslysi, „Sjúklingarnir“ voru leiknir af 15 ungmennum sem stóðu sig vel og skiluðu sínum hlutverkum með miklum ágætum og innlifun.  Slysið varð í umdæmi Almannavarnanefndar Grindavíkur og því reyndi æfingin á samstarf allra aðila á svæðinu, sem gekk mjög vel.  Eftir að aðgerðum lauk kom allur hópurinn sem tók þátt í æfingunni saman í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. Þar var farið yfir hvernig til tókst og kvennadeild björgunarsveitarinnar bauð öllum upp á máltíð.

Það er mjög mikilvægt að slíkar viðbragðsáætlanir séu fyrirliggjandi og þær séu prufukeyrðar.  Allt er það í þágu öryggis íbúanna á Suðurnesjum, sem og þeirra fjölmörgu sem eiga leið um Suðurnesin.  Þeir sem tóku þátt í þessari æfingu voru mjög ánægðir í lok dags, bæði með það hvernig til tókst en ekki síður með það að nú liggur fyrir hópslysaáætlun sem virkar mjög vel.

Aðgerðastjórn Almannavarna.
Aðgerðastjórn Almannavarna.
Vettvangur hópslyss.
Vettvangur hópslyss.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum.

Á sat aðalfund Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, sem er starfrækt í Reykjanesbæ. Sveitarfélagið Garður hefur átt gott samstarf við Fjölsmiðjuna og er einn af bakhjörlum starfseminnar.  Það er ánægjulegt að sjá hve vel gengur hjá Fjölsmiðjunni.  Markmið með starfseminni er m.a. að hjálpa ungu fólki á aldrinum 16 – 24 ára að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða námi.  Hér er um að ræða mikilvægt samfélagslegt verkefni, sem hefur hjálpað mörgum ungmennum að finna fjöl sína í lífinu og aðstoðað við að finna sér stað í atvinnu eða námi. Á þann hátt er m.a. verið að aðstoða ungmennin við að auka þeirra lífsgæði. Ég vek athygli á nytjamarkaðinum Kompunni, þar sem Fjölsmiðjan selur ýmislegt, allt frá gömlum geisladiskum upp í myndarleg sófasett. Einnig rekur Fjölsmiðjan bílaþvottastöð þar sem fagmennskan og snyrtimennskan er í fyrirrúmi.

Fluglestin.

Í vikunni komu góðir gestir á fund bæjarstjórans.  Þeir fóru yfir og kynntu hugmyndir og vinnu sem farið hefur fram varðandi lestarsamgöngur milli Flugstöðvar og Umferðarmiðstöðvarinnar í Reykjavík.  Stórhuga hugmyndir, sem í fyrstu virðast minna á skýjaborgir.  Hins vegar þegar betur er að gáð eru ýmsar forsendur fyrir því að um sé að ræða raunhæfan kost.  Þetta þarf að skoða vel og út frá ýmsum hliðum.  Meðal annars þarf að leggja mat á samfélagsleg áhrif fyrir Suðurnesin, þjóðhagslega hagsmuni og ýmislegt annað.  Kannski eigum við eftir að ferðast með járnbrautarlest á Íslandi áður en langt um líður !

Breytingar í Gerðaskóla.

Ég vek athygli á því að stöður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla hafa verið auglýstar lausar til umsókna. Ég hvet þá sem áhuga hafa að hafa samband við Hagvang, sem vinnur með okkur í Garðinum að ráðningum í stöðurnar.

Sumarið…..

Samkvæmt tímatali er sumarið komið!  Hins vegar hefur veðurtíðin undanfarið ekki verið í takti við tímatalið, kalt en tiltölulega snjólétt hér á Suðurnesjum miðað við Norður-og Austurland.  Engu að síður stendur undirbúningur sumarstarfa yfir og við lifum í voninni um að sumarið og góða veðrið komi að lokum.  Eitt af því sem verið er að undirbúa í Garðinum er Sólseturshátíð, sem er bæjarhátíðin okkar og verður síðustu helgi júní. Hátíðin er einn af hápunktum sumarsins í Garðinum og tekst jafnan vel til með hana.  Þá er unnið að undirbúningi vinnuskólans og ýmissa annarra útiverka á vegum sveitarfélagsins. Loks eru Víðismenn á lokaspretti undirbúnings fyrir upphaf keppnistímabilsins.  Fyrsti leikurinn verður í dag, föstudaginn 1. maí kl. 14:00 í Reykjaneshöllinni gegn Kríu.  Þetta er fyrsta umferð í bikarkeppni KSÍ.  Ég óska Víðismönnum góðs gengis og tippa á sigur minna manna.

Góða helgi!

 

Facebooktwittergoogle_plusmail