17. vika 2015.

Gleðilegt sumar !

Þessi vika hefur helst einkennst af því að veturinn kvaddi og sumarið tók við.  Sumardagurinn fyrsti var í gær.  Dagurinn heilsaði með glampandi sól hér í Garðinum, norðan gola og hann var frekar svalur.  Garðbúar drógu íslenska fánann að hún og það var hátíðarblær yfir bænum.  Gestir sundlaugarinnar í Garði undu sér vel í sólinni og skjólinu við sundlaugina.  Ekki var laust við að sumir þeirra settu sig í sólbaðsstellingar og eflaust hafa einhverjir sundlaugargestir merki um það á sínu skinni. Vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir á komandi vikum og mánuðum, þannig að við fáum að upplifa góða sumartið.

Víðavangshlaup Víðis.

Það er víða til siðs að taka sprettinn og hlaupa í tilefni Sumardagsins fyrsta.  Áralöng hefð ef fyrir víðavangi Víðis á Sumardaginn fyrsta, unglingaráð Víðis annast framkvæmdina.  Á Nesfiskvelli Víðis hlupu margir í tilefni dagsins, börn á öllum aldri og fullorðnir.  Eftir að börnin höfðu hlaupið var skorað á foreldra að taka sprettinn, nokkur hópur tók áskoruninni en sprettirnir voru mis frísklegir ! Haft var á orði að tilefni væri til að veita foreldrum, öfum eða ömmum viðurkenningu fyrir tilþrif í hlaupinu og hefðu þar ýmsir komið til greina. Aðal málið var þó að taka þátt og vera með í að viðhalda góðri hefð í tilefni dagsins. Að loknu hlaupi voru veitt verðlaun og allir viðstaddir nutu veitinga.

Myndirnar hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson og sendi bæjarstjóranum, takk fyrir það Gummi.

Efnilegir Garðbúar hlaupa  á Sumardaginn fyrsta.
Efnilegir Garðbúar hlaupa á Sumardaginn fyrsta.
Foreldrarnir hlupu líka
Foreldrarnir hlupu líka

Sjólyst.

Hollvinir Unu höfðu opið í Sjólyst, íbúðarhúsi Unu í Garði á Sumardaginn fyrsta.  Ég hef fjallað um Unu í fyrri pistlum og vísa til þeirra.  Það var gaman að heimsækja Sjólyst, skoða húsið og njóta kaffiveitinga.  Hollvinir eiga heiður skilinn fyrir að varðveita húsið og minningu um Unu, margir gestir heimsóttu Unuhús nú í sumarbyrjun.

Tími aðalfunda.

Um þetta leyti eru haldnir aðalfundir í mörgum félögum og fyrirtækjum. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eiga samstarf um rekstur nokkurra stofnana og fyrirtækja, menn hittast oft þessa dagana á aðalfundum.  Í vikunni var haldinn aðalfundur Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS), Garður hefur í samstarfi við þrjú önnur sveitarfélög allt frá því um 1975 staðið að rekstri hjúkrunarheimila fyrir aldraða í Garðvangi og Hlévangi.  Á síðasta ári varð sú breyting að starfsemin í Garðvangi var flutt í Nesvelli í Reykjanesbæ.  Á aðalfundi DS í vikunni var m.a. samþykkt að sveitarfélögin sem standa að DS vinni sameiginlega að því að fá ríkisvaldið til þess að fjölga hjúkrunarrýmum, en nú eru hátt í 60 aldraðir á Suðurnesjum í bið eftir því að fá hjúkrunarþjónustu.  Einnig var samstaða um að knýja á ríkisvaldið um fjármagn til þess að hjúkrunarþjónusta verði aftur rekin í Garðvangi. Framundan er sameiginleg barátta sveitarstjórnarmanna í þessu máli.  Vonandi hefst starfsemi sem fyrst á nýjan leik í Garðvangi, við munum ekki horfa á það aðgerðarlaus að fjöldi aldraðra á Suðurnesjum þurfi að bíða eftir því að njóta sjálfsagðrar þjónustu.

Tími frídaganna.

Sá tími ársins sem nú er einkennist m.a. af því að einstakir frídagar falla inn á daga sem að öllu jöfnu eru virkir dagar.  Margir notfæra sér að taka frí frá vinnu í tengslum við þessa frídaga.  Dagurinn í dag er einn slíkur, þar sem gærdagurinn var frídagur til að fagna sumarkomu og nokkuð er um að starfsfólk sem hefur aðstöðu til þess, taki frídag í dag til að lengja helgina.  Hins vegar hefur megin þorri vinnandi fólks ekki slíka aðstöðu og sinnir sínum verkum.  Næstu vikurnar munu koma til fleiri slíkir frídagar, til ánægju flestu vinnandi fólki.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail